12.11.1937
Neðri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson) :

Út af ræðu hv. þm. G.-K. vil ég enn fara um þetta mál nokkrum orðum. Hann gerði grein fyrir þeim brtt. við frv., sem hann hefir lagt fram á þskj. 114, og ræddi fyrst um þá breyt., sem hann vill gera á 2. gr. frv., viðkomandi reglum þeim, sem settar verða um úthlutun gjaldeyris- og útflutningsleyfa. Hann vill, að fyrirmæli um þetta verði eins og í núgildandi lögum, þannig að fjmrh. setji þessar reglur og verði þær samþ. af bönkunum, sem fulltrúa eiga í gjaldeyrisnefnd. M. ö. o., fjmrh. getur ekki sett reglurnar, nema fá þær í öllum atriðum samþ. af báðum þessum bönkum. Í frv. er aftur á móti svo ákveðið, að ráðh. eigi að setja þessar reglur að fengnum till. þessara banka. Og út af því, að hv. þm. G.-K. sagðist vona, að hægt væri að ná samkomulagi við meiri hl. n. um þessar brtt., þá lýsi ég yfir því fyrir mitt leyti, að ég mun ekki fallast á þessa brtt. hans, hvað sem um hinar má segja. Mér finnst það mjög óeðlilegt, að úrslitavaldið um þetta sé hjá bönkunum, en ekki hjá ráðh., sem þessi mál heyra undir. Ég býst að vísu ekki við, að þetta hafi komið að sök enn. En mér finnst það að öllu leyti eðlilegra, að það sé ráðh., en ekki banki, sem á að ákveða þessar reglur. Hitt er annað mál, að hann mun vitanlega taka tillit til þeirra tillagna, sem bankarnir gera. Hv. frsm. minni hl. telur, að með þessu sé vald ráðh. aukið meira en góðu hófi gegnir, og vitnar hann í sínu nál. í dönsk lög. Ég hefi þessi lög hér. Og við að athuga þau er það ljóst, að vald ráðh. þar yfir þessum málum er meira en það er nú hér. Gjaldeyrisnefnd og gjaldeyrisráð eru ráðgefandi stofnanir þar. Það er ákvæði í hinum dönsku lögum, að ráðh. ákveði endanlega í þessum málum. Og það er lengra gengið þar í því að veita ráðh. vald en gert er ráð fyrir í því frv., sem hér liggur fyrir. Meira að segja, ef það sýnist nauðsyn að gera breyt. á úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa í Danmörku á einhverju tímabili, þá er það ekki hægt nema ráðh. samþ. Ég get því ekki fallizt á þá skoðun hv. þm. G.-K., að nokkur hætta geti stafað af þessum ákvæðum frv. Þvert á móti tel ég, að hér sé gert ráð fyrir þeirri skipun á þessum málum, sem verður að telja sjálfsagða.

Þá ræddi hann nokkuð um annað atriði, sem hann gerir brtt. um, þ. e. að útgerðarmönnum skuli heimilt að ráðstafa þeim erlenda gjaldeyri, sem fæst fyrir vörur þeirra, að því leyti sem þeir þurfa til greiðslu á vörum til útgerðar sinnar. Þessi breyt. er alveg óþörf, vegna þess, að þetta hefir verið þannig framkvæmt undanfarið, að útgerðarmenn hafa fengið að ráðstafa af andvirði útfluttra afurða því, sem þeir hafa þurft að nota til kaupa á nauðsynjum til útgerðarinnar. Og geri ég ráð fyrir, að þetta verði þannig framvegis. Býst ég ekki við því, að hv. þm. G.-K. viti dæmi þess, að útgerðarmönnum hafi verið meinað þetta.

Þá ræddi hann og nokkuð um eitt atriði enn í frv., þó að hann hafi ekki gert neinar brtt. um það. Það er bannið við inn- og útflutningi íslenzkra seðla. En till. hefir hann gert um það, að 3. málsgr. 1. gr. falli niður. En málsgr. fjallar um það, að heimilt sé að ákveða með reglugerð, að allir, sem ferðast til útlanda, þurfi sérstök skírteini frá gjaldeyris- og innflutningsnefnd fyrir því, að þeir hafi aflað sér nauðsynlegs erlends gjaldeyris á löglegan hátt. Ég get upplýst það, að þetta ákvæði í frv. mun vera komið þar inn fyrir tilmæli frá bankaráði Landsbanka Íslands. Á fundi bankaráðs Landsbankans þann 3. des. sl. var samþ. eftirfarandi till., og vil ég leyfa mér að lesa hana upp:

„Bankaráðið samþykkir að skora á fjármálaráðherra að gera ráðstafanir til að fyrirbyggja útflutning íslenzkra seðla, með því meðal annars:

1) Að afgreiðslum skipa, sem halda uppi farþegaflutningi frá Íslandi til útlanda, sé gert að skyldu að selja ekki mönnum, búsettum á Íslandi, farseðla til útlanda nema þeir leggi fram skilríki fyrir því, að þeir hafi tryggt sér gjaldeyri til ferðarinnar.

2) Að láta alla, sem fara frá Íslandi til útlanda, gera grein fyrir því áður en skip leggja úr síðustu höfn til útlanda, hvað hver maður hafi mikið af íslenzkum seðlum meðferðis. Engum skal leyft að taka með sér til ferðarinnar meira en ætla má, að svari fæðis- og þjónustukostnaði með skipunum í ísl. seðlum.

3) Að banna innflutning á íslenzkum seðlum frá útlöndum umfram það, sem um getur í 2. lið“.

Bankaráðið tilkynnti hæstv. fjmrh. samþykkt þessa, og var þess þá ekki getið, að nokkur ágreiningur hefði orðið um hana. En hv. þm. G.-K. á sæti í bankaráði Landsbankans. Mér virðist, að þessi ályktun feli í sér svo veigamikil rök fyrir þessu atriði frv., að ég þurfi ekki að fara um það fleiri orðum.

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. G.-K. við 2. gr., að á eftir orðunum „af lánum ríkissjóðs“ komi: lánum bæjar- og sveitarfélaga, hefi ég ekkert sérstakt að segja, en tel ekki ástæðu til að amast sé við þeirri brtt.