12.11.1937
Neðri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Einar Olgeirsson:

Það eru tvö atriði, sem ég vildi einkum gera að umtalsefni, og þá fyrst það atriði, sem hér hefir nú nokkuð verið rætt, um vald bankanna, hvort eigi að draga úr því, eða hvort það á að haldast óskert. Ég hefi skilið það svo, að það vald, sem bönkunum er gefið með gjaldeyrislögunum, sé fyrst og fremst til að tryggja það, að þau gjaldeyrisleyfi, sem gjaldeyrisnefnd gefur, gildi í raun og veru. Og bankarnir eru sá aðili, sem bezt getur tryggt, að gjaldeyrir fáist út á þau leyfi, sem gjaldeyrisnefnd úthlutar. Mælikvarði á það, hvort bankarnir reynast þessu starfi vaxnir, er einmitt þetta, hvort gjaldeyririnn fæst út á þau gjaldeyrisleyfi,sem gefin eru. Nú hefir þetta reynzt svo, að mikill hluti þeirra gjaldeyrisleyfa, sem gjaldeyrisnefnd hefir gefið út, hafa orðið ógild, vegna þess að gjaldeyrir hefir ekki fengist út á þau hjá bönkunum. Eftir að bankarnir — og þá einkum Landsbankinn — hafa leyft mönnum að samþ. víxla, eins og gjaldeyrisnefnd hefir áskilið, hafa menn ekki fengið að borga þá. Loforð bankanna hafa ekki verið haldin. Hvað eftir annað hefir það komið fyrir, að víxlar hafa verið afsagðir, sem bankarnir hafa leyft að samþ. og gjaldeyrisleyfi verið fyrir. Þetta hefir stuðlað að því að koma gjaldeyrismálunum í það öngþveiti sem þau eru nú.

Eftirlit bankanna á gjaldeyrismálunum og stjórn þeirra á þeim hefir reynzt ófær. Og mest brögð hafa orðið að þessu einmitt hjá Landsbankanum. Ég álít, að það ástand, sem nú ríkir í gjaldeyrismálunum, mæli sízt með því, að bönkunum verði áfram trúað fyrir því sama valdi og þeir hafa þar haft, og er ég því samþykkur,að vald fjmrh. í þessu efni verði aukið, eins og virðist vera tilgangur þessarar lagabreytingar. Ég fæ ekki séð, að sú nána þekking, sem hv. þm. G.-K. ætti að hafa af bankamálum, komi nokkursstaðar fram í umr. um þetta atriði. Landsbankinn hefir rækt þetta starf sitt hættulega illa, og því er engin ástæða til að láta hann eða bankana yfirleitt halda því valdi, er þeir hafa haft til þessa. Það hefir verið talað um, að með þessu væri fjmrh. fengið í hendur hættulegt vald, en ég álít enn hættulegra að hafa það vald hjá stofnun eins og Landsbankanum.

Hitt atriðið, sem ég vildi taka til athugunar, var ákvæði 1. gr. frv., sem nokkuð hefir verið rætt, — það ákvæði, að fólki sé bannað að fara til útlanda án þess að hafa til þess leyfi gjaldeyrisnefndar. Ég býst við, að þetta ákvæði, sem fer fram á það, að íslenzkir borgarar séu settir á sama bekk og vörur sé runnið undan rifjum bankaráðs Landsbankans. Það er eftir þeim háu herrum, sem þar drottna, að láta sér ekki nægja það vald, sem þeir hafa yfir atvinnuvegunum og fjármálum landsins, heldur seilist nú líka inn á svið persónufrelsisins og vilja fá úrskurðarvald um það, hverjir fara utan. Ég álít, að það megi ná því sama, sem fyrir hv. flm. vakir, með öðrum og skemmtilegri aðferðum, t. d. með því að banna innflutning á íslenzkum seðlum. Með innflutningsbanni á íslenzkum seðlum væri það algerlega hindrað, að smyglað sé út miklu af íslenzkum seðlum. Þeir seldir þar með 20–40% afslætti og sendir svo til Íslands aftur í stórum pökkum. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að láta slíkt viðgangast. Ákvæði um innflutningsbann á íslenzkum seðlum væri bezta tryggingin fyrir því, að íslenzkur gjaldeyrir væri ekki notaður ólöglega í sambandi við ferðir til útlanda.

Ákvæði það, sem hér er farið fram á að sett verði í lög, er beinlínis skerðing á persónufrelsi manna. Ég álít, að það nái ekki nokkurri átt að banna mönnum með lögum að ferðast til útlanda, nema menn fái til þess leyfi sérstakrar nefndar. — Hv. þm. V.-Húnv. taldi það sérstök meðmæli með þessu ákvæði, að bankaráð Landsbankans hefði mælt með því. Þetta er þveröfugt. Meðmæli bankaráðs Landsbankans eru í mínum augum sízt meðmæli með frv.

Hv. þm. G.-K. hefir borið fram brtt. viðvíkjandi gjaldeyrisleyfum til smáútvegsmanna. Ég hefi borið fram þáltill. um þetta mál, og mun ekki taka afstöðu til brtt. meðan ekki er séð, hvernig fer með þá þáltill., þó að ég sé í aðalatriðum sammála efni brtt.