12.11.1937
Neðri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) :

Ég mun ekki gera að umræðuefni fyrri hluta af ræðu hv. síðasta ræðumanns, þó að ég sé ósammála þeirri skoðun, er þar kom fram. Um annað aðalatriðið í brtt. mínum, um útflutningsbann á mönnum, er hann mér sammála, og læt ég mér það vel líka, þó að hann telji önnur rök sterkust gegn þessu ákvæði. Í sambandi við innflutningsbann á seðlum, þá mun það vera svo víðast hvar í öðrum löndum, að bannað er að flytja seðla út úr landinu, en ekki bannað að flytja þá inn. Ádeila hv. þm. á þjóðbankann er gripin úr lausu lofti, — maður er orðinn svo vanur slíkum ádeilum úr þeirri áttinni, að ekki er ástæða til að taka þær alvarlega.

Ég vil þá víkja að hv. frsm. meiri hl. nokkrum orðum.

Hann taldi till. mína um að hafa þungamiðju valdsins í þessum málum óbreytta, óheppilega. Það má vera, að finna megi fyrirkomulag, sem er heppilegra en það, sem nú er í lögum. Þetta fyrirkomulag hefir þó verið í lögum lengi, og hv. frsm. hefir í mörg ár verið formaður þeirrar nefndar, sem mest hefir stjórnað framkvæmd laganna, og orðið að starfa eftir núgildandi reglum. Hv. þm. mun álíta það sjálfur, að þetta hafi gengið vel. Í mínum brtt. felst ekki annað en það, að þessu fyrirkomulagi verði haldið áfram.

Ég tel ekki þörf á því að endurtaka hér rök mín fyrir því, að hættulegt sé að gefa ráðherra einræðisvald í þessum efnu:n. En ég vil leiðrétta misskilning, sem kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. Hann sagði, að samkv. dönskum lögum væri vald ráðh. í þessum málum meira en það væri hér nú. Þetta er rétt. En síðar í ræðu sinni sagði hv. frsm., að í Danmörku væri vald ráðh. meira en það yrði hér, ef þetta frv. yrði samþ. óbreytt. Þetta er misskilningur. Í Danmörku er þetta vald svo bundið, að fyrst er ætlizt til, að viðkomandi ráðherra, verzlunar- og iðnaðarmálaráðherra, í samráði við fjármálaráðherra, geri samning við þjóðbankann. Í þeim samningi er þó að vísu skilið til, að þjóðbankinn verði að fara eftir till. þess embættismanns, sem með þessi mál fer og nefndur er „Kongelig Bankkommissær“. En í Danmörku hefir ráðh. ekkert vald til þess að sveigja þjóðbankann inn á aðra stefnu en þjóðbankinn sjálfur vill halda. Í Danmörku er ráðh. þannig ekki fengið neitt einræðisvald í þessum efnum. Auk þess, sem þegar er sagt, kemur þarna til gjaldeyrisráðs, sem hefir mjög mikil völd, ennfremur „Valutacentralen“ sem einnig hefir mikið vald. Löggjöfin sjálf hefir inni að halda ýmislegt af því, sem teljast mega grundvallaratriði í þessum efnum. Til dæmis á „Valutacentralen“ að sjá um það, að samskonar atvinnurekendur skuli njóta jafnréttis, hvort sem það er einstaklingsfyrirtæki, samvinnufyrirtæki eða ríkisfyrirtæki. Svo sem sjá má af þessu, er valdinu dreift milli ráðherra, þjóðbankans og þeirra ýmsu stofnana, sem eiga fulltrúa í „Valutaraadet“ og „Valutacentralen“. Hér er aftur á móti, gert ráð fyrir því, að ráðh. fái einræðisvald í þessum málum; ef þetta frv. verður samþ. óbreytt, má heita að ráðh. geti gert það, sem honum sýnist. Núv. hæstv. fjmrh. getur gefið út reglugerð daginn eftir að nýju lögin ganga í gildi, og ákveðið þar, að kaupmenn skuli engin innflutningsleyfi fá, fyrr en búið sé að afgreiða allar beiðnir kaupfélaganna. Annar ráðh. gæti ákveðið það í reglugerð, að kaupfélögin fengju engin innflutningsleyfi fyrr en búið væri að verða við öllum beiðnum kaupmannanna. Slíkt einræðisvald er hættulegt, — ég lít svo á, algerlega án hliðsjónar til hæstv. núv. fjmrh. Alþingi á ekki að gefa neinum slíkt einræðisvald. Mér hefir ekki hugkvæmzt annað betra fyrirkomulag í þessum málum en verið hefir hingað til, en það er betra en fyrirkomulag frv. Það verður að dreifa þessu valdi; með því einu móti er það tryggt, að það verði ekki notað í pólitískum tilgangi á einn eða annan hátt. Það má vel vera, að breyta þurfi núgildandi lögum, en það á ekki að gefa ráðh. einræðisvald í þessum efnum.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að brtt. mín um það, að útvegsmenn fengju full yfirráð yfir gjaldeyri sínum, væri óþörf, af því að þeir hefðu alltaf fengið þetta leyfi. Ég vil ekki fallast á að þetta sé rétt. Í meðvitund útgerðarmanna er það svo, sem þeim sé hvað eftir annað synjað um að mega nota sinn eigin gjaldeyri. Það getur komið þannig fram, að í því felist ráðstöfun til verndar innlendum iðnaði, og í fleiri myndum.

Hv. frsm. sagði, að ákvæðið um útflutningsbann á fólki væri sett að ráði bankaráðs Landsbankans, og ekki væri að sjá, að nokkur ágreiningur hefði orðið í bankaráðinu um samþykkt þá, er hann las upp. Gerðabók bankaráðsins mun þó sýna, að ég greiddi atkv. gegn þessu ákvæði. Ég vil ennfremur minna hv. frsm. á, að allmikið var deilt um þetta atriði á Alþingi í fyrra, og var það þá varið af hæstv. fjmrh. Þá var engin samþykkt komin frá bankaráði Landsbankans, svo að mér skilst, að fordæmið fari að verða vafasamt. — Ég tók eftir því, að hv. frsm. var mér sammála um seinni brtt. mína við 2. gr. frv., og ég mun halda áfram að reyna að komast að samkomulagi við nefndina, þó að brtt. mínar verði felldar að þessu sinni.