20.11.1937
Neðri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson) :

Þó það væri ekki rætt um það í fjhn., þá hafði ég búizt við, að hv. þm. G.-K. mundi taka eitthvað af brtt. á þskj. 114 aftur. Ég hefi gert grein fyrir því viðvíkjandi 1. brtt. hans, að það, sem hv. þm. fer þar fram á, að verði sett í l., það er þegar framkvæmt og hefir verið framkvæmt eins og brtt. hans fer fram á. Útgerðarmenn hafa fengið slík leyfi sem þar er um að ræða, þegar þeir hafa þurft á að halda. Það hefir ekki verið vefengt, að útgerðarmenn, og aðrir þeir, er framleiða útflutningsvörur, fái heimild til að verja andvirði hinna útfluttu afurða til greiðslu á vörum, sem þeir óhjákvæmilega þurfa til rekstrar sins, og því er sú brtt. hv. minni hl. um þetta atriði algerlega óþörf. En ég vil benda á það, að ýmislegt gæti komið á eftir, ef þessi brtt. yrði samþ. Það má lengi deila um það, hvað útgerðarmenn þurfi nauðsynlega til útgerðarinnar. Það getur verið mjög teygjanlegt. Ef þetta verður samþ., þá er ekki heldur hægt að standa á móti kröfum framleiðenda landbúnaðarvara, sem færu í sömu átt. Hitt er sjálfsagt, og hefir verið svo í framkvæmd, að þeir hafa fengið að ráðstafa þeim hluta af andvirði afurða sinna, er þeir hafa nauðsynlega þurft til rekstrar síns, og þannig verður það framvegis. Ég vil því mælast til þess, að hv. þm. G.-K. taki þessa brtt. sína aftur, en geri hann það ekki, legg ég til, að hún verði felld.

Hv. frsm. minni hl. og hv. 5. þm. Reykv. hafa báðir talað um hættuna á fjárflótta. Það er hægt að fyrirbyggja með nógu góðu eftirliti, sem verður þó erfiðara, ef brtt. minni hl. verður samþ., og ég vil benda á eitt atriði, sem getur í mörgum tilfellum gert það ófullnægjandi, þó að útgerðarmenn fái leyfi til að ráðstafa andvirði útflutningsins til greiðslu á vörum, sem þeir þurfa, þar sem mikið af framleiðsluvörunum okkar er selt löndum, sem við höfum „clearing“-samninga við, og þurfum að kaupa vörur í staðinn fyrir útflutningsvörur okkar. Og frá þessum löndum er oft ekki hægt að fá þær vörur, sem nauðsynlegar eru til útgerðarinnar, t. d. frá Ítalíu og Portúgal. Það er því útgerðarmönnum að litlu liði, þó að þeir fái slíka heimild. Sem betur fer hefir okkur þó tekizt að selja mikinn hluta af framleiðsluvörum okkar til landa með frjálsum gjaldeyri, og þann gjaldeyri hafa útgerðarmenn notað til að kaupa kol, olíu og aðrar nauðsynjar sjávarútvegsins.

Viðvíkjandi þriðju brtt. hv. þm. G.-K., við 1. gr., um að 3. málsgr. 1. gr. falli niður, þá hefir nú hv. flm. till. lýst því yfir, að hann felli sig betur við þessi ákvæði eins og þau eru nú orðuð í brtt. meiri hl. n., sem væntanlega verður samþ. Ef hv. flm. vill ekki taka þessa brtt. aftur, þá vil ég vænta þess, að hún verði felld. Það er tvímælalaust nauðsynlegt að setja ákveðnar skorður við því, að þessi lagafyrirmæli séu brotin. Hér eru engin ákvæði um það, að banna fólki að fara til útlanda.

Um brtt. hv. þm. G.-K. við 2. gr., en það er sú brtt., sem hann leggur aðaláherzluna á, varð ekkert samkomulag í n. Till. hans er á þá leið, að fjmrh. setji reglugerð um framkvæmd laganna, að fengnu samþykki bankanna. En meiri hl. n. vill ekki láta bankana binda hendur ráðherrans. Úrskurðarvaldið á að vera hjá ráðh., sem með þessi mál fer.