20.11.1937
Neðri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) :

Ég get ekki orðið við þeim tilmælum hv. frsm. meiri hl. að taka aftur brtt. mína um gjaldeyrísleyfin handa útgerðarmönnum. Ég hefi ekki haft aðstæður til að rannsaka, hvort þeir í raun og veru hafa notið þessa réttar, eins og hv. þm. heldur fram. Ég hefi víða orðið var við óskir útgerðarmanna um að öðlast þennan rétt, og sú ósk hlýtur að vera af því sprottin, að þeim finnst, að þeir hafi hann ekki nú.

Ég sé ekki ástæðu til að óttast kröfu landbúnaðarvöruframleiðenda í þessu sambandi. Innflutningur, er stendur í beinu sambandi við atvinnurekstur þeirra, er mjög lítill, — það væri þá helzt matvara til heimilisþarfa —, en það er ekki meining mín, að heimildin til útgerðarmannanna gangi svo langt. Hvað smærri útvegsmönnum viðvíkur, hefði þetta aðallega þýðingu um kaup á olíu, veiðarfærum og salti.

Út af því, sem hv. þm. sagði um aðalbrrt. mína, finnst mér engin þörf á að færa ný rök fyrir því, að valdið eigi að liggja hjá bönkunum, eða að það sé a. m. k. ekki neitt óeðlilegt, að svo sé.

Ég er ekki að fara fram á annað en það, að fyrirkomulagið, sem gilt hefir undir þeirri ríkisstj., sem þessi hv. þm. styður, og framkvæmt hefir verið undir stjórn hans sjálfs undanfarin ár, megi haldast áfram. Það eru þannig ekki nein ósköp, sem ég er að fara fram á. Nú er eins og það sé orðinn glæpur að mælast til þess, að bankarnir haldi þeim rétti, sem þeir hafa haft fram að þessu. En það er hægt að færa mörg rök og skynsamleg að því, að valdið er betur komið hjá bönkunum en ráðherranum. Ég hefi flutt þau fyrr við umr. um þetta mál og sé ekki ástæðu til að endurtaka þau núna.