03.12.1937
Efri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Magnús Jónsson:

Tilraunir þær, sem gerðar hafa verið á síðari árum til þess að halda uppi óeðlilegu og tilbúnu gengi á íslenzkri krónu með því að slíta hana úr öllu eðlilegu sambandi við gjaldeyri annara landa með ströngum gjaldeyrisráðstöfunum, eru líkar tilraun Molbúanna til þess að bera sólskinið inn í kofann sinn.

Það eru alltaf að koma fram frv., sem eiga að gera það mögulegt, að slíta okkar gjaldeyri alveg úr tengslum við gjaldeyri annara þjóða, án þess allt fari á ringulreið. Ég ætla ekki hér við 2. umr. að fara að ræða það, hvernig þetta hefir tekizt, en ég vildi minnast nokkuð á þá erfiðleika, sem koma fram og lýsa sér í öllum þeim mörgu ákvæðum, sem sett hafa verið, til þess að girðingin utan um gjaldeyrinn geti orðið nógu sterk. Í þessu frv. eru víst ein 4 til 5 ný ákvæði, sem sýna, að tilgangurinn er sá, að herða nú enn meir á gjaldeyrisráðstöfununum. Ég var með því í fjhn., að þetta frv. gengi áfram, því eins og komið er, er enginn vegur að losna við þessar hömlur á gjaldeyrinum, án þess í stað þeirra kæmu aðrar víðtækar ráðstafanir. Það má raunar teljast virðingarvert, að reynt er að gera þessar hömlur smugulausar, úr því verið er að burðast með þær á annað borð, svo ekki verði svindlað á þeim nema sem minnst. Ég er þó sérstaklega ósammála einu ákvæði frv., sem er breytt frá því, sem er í gildandi l., og er í síðari brtt. minni á þskj. 222 lagt til, að það sé fellt í sama form og er nú. En áður en ég fer út í að ræða þá brtt., skal ég lýsa fyrri brtt., sem er flutt vegna viðauka, sem komst inn í frv. í hv. Nd. um að útgerðarmenn skuli fá heimild til að ráðstafa gjaldeyri fyrir sínar vörur, að því leyti sem þeir þurfa að nota gjaldeyri til kaupa á nauðsynjum til útgerðar sinnar. Ég sé að hæstv. fjmrh. er nú að reka hornin í þessa viðbót af einhverjum ástæðum, sem hann hefir ekki gert grein fyrir. Það hlýtur öllum að vera ljóst, að hér er um vörur að ræða, sem undir öllum kringumstæðum þarf að kaupa, og hljóta því einhverjar aðrar ástæður að vera fyrir því, að hæstv. ráðh. setur sig nú á móti þessari undantekningu. Fyrri brtt. mín er að bæta við þessi undantekningarákvæði, svo framarlega sem þau eiga að gilda, og það er, að til viðbótar vörum til útgerðar sinnar fái útgerðarmenn einnig ráð á gjaldeyri til greiðslu á endurtryggingariðgjöldum fyrir skip sin. Þessi endurtryggingargjöld, sem svara þarf í erlendum gjaldeyri, eru ein sú allra fyrsta greiðsla, sem einn útgerðarmaður verður að inna af hendi, og það er alveg óhugsandi, að löggjafinn ætli sér að gera það ómögulegt að endurtryggja skipin, enda líta allir svo á, að þetta séu gjöld, sem verði að greiða. Það hefir líka þann stóra kost að gefa gjaldeyri frjálsan fyrir þessum gjöldum, að þetta eru ákveðin gjöld, og er því ómögulegt að smeygja neinu öðru með þeim. Það þarf ekki annað en að fá glöggar skýrslur yfir það frá Sjóvátryggingarfélagi Íslands og Samtryggingunni, hvað hver skipseigandi þarf að greiða á ári í endurtryggingum, og getur þá ekki orðið um neitt svindl að ræða. Svo framarlega, sem einhver gjaldeyrir á að vera frjáls, þá eiga þessi gjöld að vera það. Það sparar skipeigendum aðeins ómök og skriffinnsku, að þurfa ekki að sækja um að mega greiða þetta, og ég býst við, að hv. þdm. fallist á að bæta þessari klausu við, svo framarlega sem á að spara útgerðarmönnum það ómak að þurfa að sækja um leyfi fyrir þeim greiðslum, sem ómögulegt er án að vera. Ég býst við, að síðari brtt. mín við 1. gr. orki meir tvímælis en þessi, en ég sé, að hv. þm. Vestm. flytur brtt. sama efnis, en það er að fella niður 3. málsgr. 1. gr., sem er um það, að ákveða megi með reglugerð, að allir þeir, sem ferðast til útlanda, sanni fyrir lögreglustjóra, að þeir hafi á löglegan hátt aflað sér nægilegs erlends gjaldeyris til að sjá sér farborða, og að forráðamönnum flutningatækja skuli óheimilt að selja mönnum farseðil til útlanda nema slík skýrsla hafi verið gefin lögreglustjóra. Hér held ég sé verið að setja alveg einstakt ákvæði í íslenzka löggjöf, sem gangi öllu nær persónufrelsi manna en nokkurt annað lagaákvæði, svo sjálfsagður hlutur sem það er, að menn megi fara ferða sinna í löglegum erindum. Hér er það lagt í vald gjaldeyrisnefndar að leyfa mönnum eða banna að hreyfa sig. Hér er svo langt gengið, að ég held það sé ástæða fyrir hv. þdm. að skoða huga sinn vel áður en þeir ganga inn á þá braut. Það er hægt að gera sér það í hugarlund, hversu gjaldeyrisnefnd getur þarna misnotað sína aðstöðu, ef hún vill svo við hafa, að ég ekki tali um þá skyldu, sem lögð er hér á skipafélögin, sem hafa „forretningu“.af því að selja mönnum farseðla til útlanda. Sú kvöð er á þau lögð, að þau neiti að selja mönnum slíka farseðla. Hér er að vísu aðeins um heimild að ræða, sem nota má með reglugerð, en það má ugglaust gera ráð fyrir, að þetta ákvæði sé sett inn til þess að það verði notað. Á þennan hátt fær ríkisstj. í fyrsta skipti vald til þess beinlínis að banna mönnum að fara úr landi, og þetta vald á hún að leggja í hendur gjaldeyrisn. að banna eða leyfa. Hversu hóflegar kröfur, hversu nauðsynleg, lögleg erindi, sem menn hafa til útlanda, getur gjaldeyrisnefnd bannað þeim að fara, og þar með er útilokað, að farið verði. Gjaldeyrisnefnd getur beinlínis sigtað þá úr, sem fái ekki að sigla. Þessi ákvæði hafa í blöðunum verið kölluð þrælaákvæðin, og er það réttnefni. Ég skal ekki taka fyrir það, að neyðin hjá okkur geti ekki orðið svo mikil, að hefta verði persónufrelsi manna í þessum efnum, en ég held, að hún sé ekki orðin það mikil enn. Mér sýnist erlendum gjaldeyri sé nú varið til þeirra hluta, sem ekki eru svo lífsnauðsynlegir, að það beri vott um, að neyðin sé orðin það mikil, að grípa þurfi til slíkra neyðarúrræða sem þessara. En ef neyðin er nú samt sem áður orðin svona stór, þá þurfti vissulega að búa öðruvísi um hnútana en þetta, því gjaldeyrisnefnd er valin með allt annað en þetta starf fyrir augum, og því engin trygging fyrir því, að hún sé þessu starfi vaxin. Eins er það, að hér þarf ekki nema geðvonzku eins eða tveggja manna eða persónulega óvild, til þess að mönnum verði meinað að fara úr landi, því þeir þurfa að sanna það fyrir lögreglustjóra, að þeir hafi aflað sér nægilegs gjaldeyris, og gjaldeyri fá menn ekki á löglegan hátt nema frá gjaldeyrisnefnd. Þetta ákvæði hefir hinsvegar farið gegnum hv. Nd., þó því hafi verið mótmælt þar af þeim hv. þm., sem þykir fyrir því, að hið háa Alþingi skuli ganga inn á þá braut að hefta svo mjög persónufrelsi manna. Það má náttúrlega gera ráð fyrir því, að ónauðsynlegar ferðir til útlanda eigi sér stað, en ég held, að ekki séu þau brögð að þeim, að slík ákvæði sem þessi séu réttlætanleg. Það hefir verið gefið í skyn, að mjög mikils gjaldeyris til utanferða sé ekki aflað á löglegan hátt, en hvaða trygging er fyrir því, að slíkt geti ekki haldið áfram, ef á annað borð er hægt að afla gjaldeyris á ólöglegan hátt? Við skulum segja, að maður fái leyfi til að sigla og sýni gjaldeyrisleyfi fyrir 200 kr. Hvaða trygging er fyrir því, að hann eyði ekki 2000 kr. af gjaldeyri, sem hann hefir náð í á annan hátt? Það er því svo nauðalítil trygging í þessum ákvæðum, önnur en sú, að gjaldeyrisn. getur ráðið yfir utanferðum manna.

Þá er þriðja brtt. mín á þskj. 222 við 2. gr. Hún gengur út á það, að fella niður nýtt ákvæði og færa frv. í sama horf og l. eru nú að því er það atriði snertir. Samkv. gildandi l. þurfa bankar þeir, sem fulltrúa eiga í gjaldeyrisnefnd, að samþ. reglur fyrir veitingu gjaldeyrisleyfa, en eftir frv. eiga bankarnir aðeins að hafa tillögurétt um þessar reglur. Mér finnst ákvæðin eins og þau eru í l. bæði eðlileg og óhjákvæmileg, og geri ráð fyrir því, að þó þeim verði breytt eins og lagt er til í frv., þá verði það svo í framkvæmdinni, að reglurnar verði ekki framkvæmdar nema bankarnir samþ. þær. Því það er alveg óskiljanlegt, hvaða gagn getur verið að reglum, sem bankarnir samþ. ekki. Það er þó ekki hægt að fá gjaldeyri frá öðrum en bönkunum, og ef þeir vilja ekki láta gjaldeyrinn eða fallast á leyfin, þá eru þau náttúrlega einskis virði. Það er litið gagn að reglum, sem eru þannig, að bankarnir eru á móti, og þegar á að fara að gera þessar ákvarðanir „effektivar“, þá standa þeir á móti sem stjórna bankanum og einir geta skuldbundið bankana með sinni undirskrift. Það lægi sá möguleiki fyrir að skipta um bankastjóra í sífellu, þangað til fengizt hefir bankastjórn, sem samþ. þessar einstöku ráðstafanir, en ég geri ekki ráð fyrir, að með þessu ákvæði verði stofnað til slíkra örþrifaráða, og það sé því mjög heilbrigt og heppilegt, að einmitt í l. sé þessi krafa, að samþykki fulltrúa bankanna, sem yfir gjaldeyrinum ráða og einkarétt hafa til hans, komi til. Það er ekki nema heilbrigt, að ríkisstj. og þeir, sem með bankamálin fara, komi sér saman um reglur, sem settar hafa verið. Ég þykist vita, að það muni koma nokkuð út á eitt, hvort sem samþ. væri. Um aðrar breyt. frá núv. l. skal ég ekki fjölyrða, og ég hefi látið það eiga sig án þess að gera við það brtt.; svo sem eins og að hagstofan safni skýrslum um þessa hluti. Aftur á móti verð ég að segja, að niðurlag refsiákvæðanna í 6. gr. finnst mér óþarflega „drakóniskt“, þ. e. að heimilt er að gera upptækar með dómi vörur og íslenzkan gjaldeyri, sem ólöglega er reynt að flytja frá útlöndum. Mér finnst nóg, að það megi leggja geipilega sekt á þá menn, sem þetta reyna, því að eftir okkar mælikvarða er það ekkert smáræði, að hægt er að sekta menn um allt að 50000 kr., nema enn þyngri refsing liggi við, og þar að auki er ágóðinn, sem fæst við þetta upptækur, og þó að varan verði ekki líka gerð upptæk, þá finnst mér þetta brot ekki svo ógurlegt, að maður eigi að sleppa rétt með lífið út úr þessu. Mér finnst kenna í þessu dálítið sama ofstækis eins og kom fram á sínum tíma — og reyndar enn í sambandi við áfengislöggjöfina, þar sem menn halda, að það sé um að gera að sýna vilja sinn með nógu hrottalegum ákvæðum, og þó ekki sé nema með nógu hrottalegu orðalagi, ef brotið er á móti. Hér er nauðsynlegt að hafa ráðstafanir fyrir þjóðfélagið, og það er rétt að girða fyrir það með sektum, að menn brjóti þessi ákvæði.

Ég sé hér brtt. frá hæstv. fjmrh., sem hann mælir sjálfsagt fyrir. Sömuleiðis er hér till. frá hv. þm. Vestm., sem er um sama ákvæði og 2. brtt. mín. Um brtt. frá hv. 1. landsk. skal ég ekki segja fyrr en hann hefir mælt fyrir henni.