04.12.1937
Efri deild: 42. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Magnús Jónsson:

Það eru nokkur orð út af því, sem hæstv. fjmrh. svaraði mér við fyrri part umr. Hv. þm. Vestm. hefir nú gripið töluvert inn á þetta, enda er það eðlilegt, þar sem hann flytur eina brtt. alveg shlj. einni brtt. minni, um það, að fella niður 3. málsgr. 1. gr., og ræddi hann í því sambandi um, hvílík ófrelsislög það væru, að menn megi ekki fara úr landi öðruvísi en að ganga fyrir lögreglustjóra og fá vottorð hans um að mega fara. Ég skal því ekki fara eins langt út í það mál eins og ég annars myndi hafa gert. En það er náttúrlega óárennilegt, að menn skuli þurfa að fara með lögreglustimpil til útlanda, eins og maður, sem skyldugur er til þess að sýna sig lögreglunni svo og svo oft, til þess að tryggja það, að hann sé til staðar. Ef menn ætla að fá að fara úr landi, þá verða þeir að ganga fyrir lögreglustjóra og fá þennan stimpil, hver einasti borgari í landinu, til þess að mega fara úr landi. Ég er viss um, að þetta er gersamlega óþekkt fyrirbrigði annarsstaðar. Það er víða, að gjaldeyrisástandið er erfitt og mjög þröngt um utanferðir, svo menn fá litla peninga, t. d. fá mörk, sem þeir geta farið með úr landi, en þeir eru frjálsir ferða sinna. Félögin mega selja þeim farseðla því þeir eru ekki undir lögreglueftirliti, eins og öll þjóðin verður með þessu ákvæði. Þeir fá dálítinn gjaldeyri, enda ferðast margir þannig, að þeir standa aðeins örstatt við. En því er þannig háttað með okkar ferðalög, að við verðum að ferðast með skipum og menn verða að standa við í viku eða 10 daga. Menn þurfa meiri gjaldeyri, en mér finnst, að það mætti vel leysa . þetta með því að heimila mönnum litla upphæð, sem þeir megi fara með úr landi. Hæstv. ráðh. sagði, að menn gætu ekki heldur nú, þó þetta ákvæði væri ekki, farið úr landi nema með raunverulegu leyfi, því menn yrðu að fá gjaldeyrisleyfi til þess að fara, og það gætu menn ekki fengið nema hjá nefndinni. Þetta er rétt, því eftir 2. gr. getur enginn fengið gjaldeyri nema með leyfi nefndarinnar. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta ákvæði væri því aðeins til þess að banna þeim að fara, sem ætluðu sér að fá ólöglegan gjaldeyri til utanferða. Þetta gæti ef til vill virzt svo fljótt á litið. En það er alls ekki svo, því með þessu ákvæði er það alveg lagt í vald gjaldeyrisnefndar, hverjir fái að fara til útlanda og hverjir fái ekki að fara. Nefndin getur veitt þessum, en neitað hinum. Hún gæti, ef hún vildi vera ranglát, siktað úr ákveðna stétt manna og neitað henni um gjaldeyri. Hún gæti í verzlunarviðskiptum valið úr einn keppinautinn og leyft honum að fara til útlanda og tryggja sín sambönd, en neitað hinum að fara. Við skulum taka sem dæmi, að hún notaði aðstöðuna til þess að eyðileggja alla kaupfélagaverzlun með því að banna öllum fulltrúum S. Í. S. og fulltrúum kaupfélaganna að fara til útlanda, en kaupmönnum væri leyft að fara. Hún gæti gert þetta. (JJ: Við höfum ágæta legáta erlendis). Ég veit ekki betur en ýmsir séu að fara utan vegna kaupfélaganna, þrátt fyrir þessa sérstöku legáta. Forstjóri S. Í. S. hefir stundum farið til útlanda. Ég hefi líka orðið var við, að kaupfélagsstjóri kaupfélags Eyfirðinga hefir farið utan. Ég býst ekki við, að það séu óþarfa ferðir. Við skulum segja, að nefndin bannaði þessum mönnum að fara, en leyfði kaupmönnum að fara. En það er ekki þetta, sem er aðalatriðið fyrir mér, heldur þessi siðleysis- og þrældómssvipur, sem þjóðin fær á sig við lagaákvæði eins og þetta. Sérstaklega finnst mér þetta mjög merkilegt, þar sem hæstv. ráðh. játaði, að þetta ákvæði væri í raun og veru alveg gagnslaust. (Fjmrh: Það hefi ég aldrei sagt). Það er það að mestu leyti, því allir sjá, að maður getur sagt t. d., að hann ætli að dvelja 5 daga í Kaupmannahöfn og til þess þurfi hann 100 kr. Hann fær svo 100 kr. gjaldeyrisleyfi, gengur fyrir lögreglustjóra og fær stimpil hans og kaupir síðan farseðil. Hann siglir svo til Hafnar með þetta 100 kr. gjaldeyrisleyfi. Hann getur svo aflað sér óleyfilegs gjaldeyris og verzlað fyrir tugi þúsunda króna, þegar hann er kominn til Hafnar. Þetta er þá ekkert annað en pappírsgagn, en verður aðeins til þess að setja þrælastimpil á þjóðina.

Hæstv. ráðh. sagði, að það lægi fyrir bréf frá bankaráði Landsbankans, þar sem farið væri fram á, að ferðir til útlanda væru hindraðar á þennan hátt. Ég verð að segja, að ég minnist ekki þessarar ákvörðunar bankaráðsins, enda getur hún vel hafa verið tekin að mér fjarverandi. En það er alveg víst, að hefði ég verið á þeim fundi, þá hefði ég ekki verið með þessari ákvörðun frekar en því að setja þetta ákvæði í l. Ég verð að segja, að mér kemur þetta bréf bankaráðsins ekkert við í þessu efni. Ég get skilið, að bankinn út frá sínu sjónarmiði vilji gera allar ráðstafanir til þess að gjaldeyrinum sé ekki eytt. Hann lítur eingöngu á sína hagsmuni sem banki. Það er ekki hlutverk Landsbankans að gæta að því, hvort þjóðin er hneppt í einhver óeðlileg bönd, sem eru ósæmandi fyrir frjálsa þjóð. Það er Alþ., sem á að gæta að því. Það er öllum kunnugt, hvernig gjaldeyrisvandræðin mæða fyrst og fremst á Landsbankanum, svo ég get vel skilið, að hann stingi upp á ýmsu, sem Alþ. sér sér ekki fært að ganga að af ýmsum öðrum ástæðum. Ég held það væri eðlilegast í þessu sambandi að ákveða einhverja lága upphæð, sem menn hefðu frjálsa til umráða. Það er eins og mig minni, að í reglugerð, sem sett var í hitteðfyrra, hafi verið ákveðin upphæð, sem menn máttu hafa. Það var nokkuð rífleg upphæð, 400 kr. Þetta mun hafa verið tekið aftur, en mér finnst það eðlileg lausn, að menn fengju að hafa ákveðna upphæð.

Hæstv. ráðh. sagðist ekki vera hræddur um óréttlæti í þessum efnum. Það kann að vera, að hann sé ekki hræddur um það. Ég verð að segja, að fáar nefndir munu hafa verið sakaðar eins um óréttlæti og hlutdrægni og gjaldeyrisnefndin. Ég vil ekki taka það allt sem góða og gilda vöru. En er sú nefnd, sem liggur svo undir ákærum manna, hinn rétti aðili til þess að ákveða um svo viðkvæman rétt manna eins og þann, hvort þeir megi hreyfa sig til? Það, að svipta menn frelsi, er í hegningarlögunum, eins og menn vita, hin stórkostlegasta refsing, næst dauðarefsingu. Allt annað, sem menn eru dæmdir í, er talið minna en það, að svipta menn frelsi, að mega ekki vera þar, sem menn vilja. Ísland er að vísu ekki eins þröngt og fangelsi, en mönnum finnst þeir vera sviptir athafnafrelsi og ferðafrelsi, þegar ein nefnd getur bannað sumum að fara, jafnframt því sem hún leyfir öðrum að fara, sem sýnast kannske ekki hafa meiri rétt til að hreyfa sig. Menn eru raunverulega með þessu settir í fangelsi, að vísu stórt og rúmt, þó þannig, að menn finna sárt til þess að vera sviptir frelsinu til þess að mega hreyfa sig út fyrir landsteinana, þegar þeim finnst þeir þurfa á því að halda. Þetta er í raun og veru ekki lítil refsing, sem sést bezt á því, að þegar maður er settur undir lögreglueftirlit vegna einhvers verks, sem hann hefir framið, þá má hann ekki hreyfa sig nema með leyfi yfirvaldsins. En nú á að leggja þetta á alla þjóðina. Enginn maður má fara úr landi nema ganga fyrst fyrir lögreglustjóra. Og hann getur ekki fengið að fara fyrir lögreglustjóra fyrr en hann er búinn að fá leyfi gjaldeyrisnefndar.

Þá er það viðvíkjandi 3. brtt. minni. Ég tek þær í þeirri röð, sem hæstv. ráðh. tök þær. Ég fer þar fram á, að samþykki bankanna þurfi, í stað þess að í frv. stendur „að fengnum tillögum bankanna“. Hæstv. ráðh. játaði, að samkomulag þyrfti að vera um þetta, og erum við sammála um það. Það þýðir ekkert að setja þær ráðstafanir, sem bankarnir, sem ráða yfir gjaldeyrinum, eru ekki sammála um. Ég veit þá ekki, hvers vegna það er ekki rétt að setja það hreinskilnislega í l., að bankarnir skuli samþykkja það, heldur en eiga á hættu að fá þær deilur og þann árekstur, sem af því myndi hljótast, ef settar væru reglur, sem bankarnir, sem yfir gjaldeyrinum ráða, eru á móti og telja sér ekki fært að ganga að. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri óþarft, að t. d. annar bankinn, sem væri á móti einhverri ráðstöfun í gjaldeyrismálum, geti komið í veg fyrir einhverja ráðstöfun með því að neita. Það er ekki lítill aðili, þar sem aðeins er um 2 banka að ræða, sem yfir gjaldeyrinum ráða. Ef Landsbankinn t. d. setur sig á móti einhverri ráðstöfun, þá er það ekki lítið strik í reikninginn. Ég er sannfærður um, að ráðh., hvort sem það væri sá núv. eða einhver annar, myndi taplega sjá sér fært að gera ráðstafanir, sem Landsbankinn setti sig á móti. Hæstv. ráðh. sagði, að lítils háttar ágreiningur gæti ekki valdið miklu. Það er auðvitað, ef hann er lítils háttar, og þá fæst samþykki bankanna, ef um eitthvað lítilfjörlegt er að ræða. En ég á við ágreining, sem er svo stór, að hann kemur til kasta bankanna, eins og þegar bankastj. ein skuldbindur bankann. Það er sá ágreiningur, sem hér er um að ræða, og sá ágreiningur, sem enginn getur leyst nema bankastj. núv. eða önnur, sem þá væri sett í staðinn. Hæstv. ráðh. sagði, að bankarnir hefðu vald sitt frá Alþ. (Fjmrh.: Vald sitt yfir gjaldeyrinum). Já, eins og annað vald sitt. Það er vitanlegt, en ég held það geti ekki verið betur búið um það vald heldur en með því móti, að Alþ. veiti þeim það. Það er væntanlega ekki meining hæstv. ráðh., að Alþ. fari að skipta sér af einstökum ráðstöfunum bankanna með gjaldeyrinn. Alþ. hefir fengið bönkunum í hendur valdið yfir gjaldeyrinum. Það hefir skyldað alla til þess að afhenda þessum 2 bönkum gjaldeyrinn, og samtímis útbúið vald bankanna þannig, að enginn getur skuldbundið þá nema bankastjórnin með sinni undirskrift. Með þessu hefir Alþ. gersamlega fengið bönkunum þetta vald í hendur, þangað til það verður tekið af þeim. Ég sé því ekki, að þeir geti haft þetta vald sitt sterkara. Alþ. getur náttúrlega tekið þetta vald af bönkunum og fengið einhverjum öðrum það í hendur. Það gæti látið gjaldeyrisnefnd fá allan gjaldeyrinn og annast yfirfærsluna og viðskiptin við útlönd. Gjaldeyrisnefnd væri þá orðin nýr banki, og þá væri líka sjálfsagt að setja í gjaldeyrislögin, að allar ráðstafanir þyrftu að vera gerðar með samþykki þeirrar nefndar. Sá aðili, sem hefir gjaldeyrinn í höndum, verður að samþ. þær ráðstafanir, sem eru gerðar. Ég sé ekki, hvers vegna ekki má setja í l. það, sem hæstv. ráðh. játaði og allir sjá, að hlýtur að vera.

Um 1. brtt. get ég verið mjög fáorður, því hæstv. ráðh. féllst á hana í raun og veru. En hún er um það, að útgerðarmenn hefðu frjálsan gjaldeyri til endurtryggingar iðgjalda. Ég verð að segja; að þessi frjálsi gjaldeyrir er mjög auðveldur í framkvæmd, því það er hægt að gera skrá yfir, hvað borga þarf, svo það er ekki hægt að fara í kringum það. Félögin greiða svo og svo mikið af endurtryggingariðgjöldum, og gjaldeyrisnefnd veit það og getur því látið þessi félög fá þann frjálsa gjaldeyri, og ekki eitt pund fram yfir. Það er alveg sjálfsagt, ef útgerðarmenn eiga á annað borð að fá nokkurn frjálsan gjaldeyri, að þeir fái hann frjálsan til þess að greiða endurtryggingariðgjöld. Það forðar frá óþarfa skriffinnsku og afhendingu á gjaldeyrinum. Mér er líka tjáð, að það verði skundum að ganga það lengi eftir því að fá þennan gjaldeyri, að það liggi við borð, að víxlarnir séu fallnir, þegar hægt er að greiða þá. Þetta er ákaflega leiðinlegt, og meira en það. Það er lánstraustsspillandi, ef það er svo með svona sjálfsögð gjöld, að þeim er rétt aðeins lokið í síðustu forvöðum, eða það þarf kannske að fara fram á framlengingu á þeim. Það væri miklu betra, að þau væru greidd þegar í stað af frjálsum gjaldeyri.

Ég kem svo að aðalatriðinu í þessu sambandi, en það er till. hæstv. fjmrh., sem vill ekki láta útgerðarmenn hafa neinn frjálsan gjaldeyri. Ég get verið mjög fáorður um hana, vegna þess að hv. þm. Vestm. hefir gengið svo rækilega frá því máli, að ég hygg, að engum blandist hugur um,hvílík sanngirni er í því fólgin að hafa þetta ákvæði í frv. Án þess að ég vilji gera hv. þm. upp nokkrar ófagrar hvatir, þá verð ég að segja, að minn skilningur getur vart rúmað það, að menn geti séð sanngirni í því að neita útvegsmönnum um þessar óskir þeirra, þegar það er jafnlítil fyrirhöfn eins og það nú er, að sjá um að ekki verði á neinn hátt farið í kringum þetta ákvæði. Hæstv. ráðh. sagði, að það ynnist svo lítið við þetta, því bankarnir reyndu alltaf að láta útgerðarmenn ganga fyrir gjaldeyrinum, og sjálfur hefði hann beitt áhrifum sínum í þá átt. En reynslan er ekki þessi. Það er ákaflega algengt, bæði um vörur til útgerðar og aðrar vörur, að gjaldeyris- og innflutningsleyfi eru veitt, en alltaf með þeirri aths., að það sé veitt, ef gjaldeyrir er fyrir hendi. Þó gjaldeyris- og innflutningsleyfi sé veitt, þá getur liðið langur tími þangað til fé fæst til að greiða vöruna. Það er alkunnugt, að Íslendingar eru illa séðir vegna vanskila. Um íslenzka sjómenn í erlendum höfnum er það vitað, að þeir eru oft búnir að roðna út undir eyru af því, að sjómennirnir í kringum þá eru að hælast yfir því, að Íslendingar fái ekki kolin eins greiðlega eins og t. d. Norðmenn. Það verður oft greiðslufall vegna þess, að gjaldeyririnn fæst ekki, þó peningarnir séu til. Englendingar eru liprir og góðir í viðskiptum á meðan staðið er við gerða samninga, en erfiðir, ef ekki er staðið við þá. Þetta gerir það að verkum, að útgerðarmenn vilja heldur fá sinn gjaldeyri, svo þeir geti sjálfir borgað þær vörur, sem þeir þurfa, af þeim gjaldeyri, sem þeir afla sér sjálfir. Þeir geta oft fengið betri kjör, ef varan er greidd strax, eða þeir geta sagt með vissu, að varan verði greidd á fyrsta gjalddaga, ef hún á að greiðast gegn víxli. Þetta er stórvægilegt atriði að því er snertir þau kjör, sem útgerðarmenn geta fengið á vörum sínum. Hv. þm. Vestm. er búinn að taka fram, hversu lítilfjörleg ástæðan er, sem hæstv. ráðh. hefir á móti þessu, þar sem hann hafði ekkert á móti því annað en að það gerði framkvæmdina erfiðari. Hann játaði, að það verði að yfirfæra fyrir þessa vöru, og það hefir líka verið játað, að það væri lakara fyrir útgerðarmenn að þurfa að sækja til nefndarinnar. En hann telur eftir örðugleikana, sem séu á því að brjóta nokkrar skorur í þennan múr. Ég vil geta þess, sem hv. þm. Vestm. hefir dregið fram, að það mun ekki vera óalgengt, að n. láti útflytjendur fá eitthvað af gjaldeyri, sem þeir svo ráðstafi án þess að n. fylgist í einstökum atriðum með, til hvers hann er notaður. Það er fyrst og fremst S. Í. S., sem sagt, er, að hafi sinn gjaldeyri yfirleitt frjálsan. Eg hefi ennfremur heyrt, að það væru fleiri, sem fengju að hafa þann gjaldeyri, sem þeir afla, frjálsan. Hvers vegna á þá útvegurinn, sem aflar svo að segja alls gjaldeyrisins og verður að afhenda hann fyrir miklu lægra verð en hann gæti fengið, ef hann hefði hann frjálsan, ekki að fá frjálsan þennan litla part, sem hann þarf til þess að atvinnuvegurinn geti haldið áfram?

Ég verð að segja, að nú, þegar verið er að gera ýmsar ráðstafanir til viðreisnar sjávarútveginum, þá skýtur það dálítið skökku við, ef þessi till. fær ekki samþykki. Nú liggur fyrir þinginu frv. um afnám útflutningsgjalds af saltfiski, þó að því fylgi stórkostlegt tekjutap fyrir ríkissjóð. Það eru till. um að leggja fram 400 þús. kr. til fiskimálasjóðs, sem einnig á að verða sjávarútveginum til hjálpar; það á að leggja fram fé til frystihúsa, og ýmislegt fleira á að gera þessum atvinnuvegi til viðreisnar. Er þá ekki undarlegt, þegar við hliðina á öllum þessum ráðstöfunum, sem kosta hundruð þúsunda og jafnvel fleiri millj., er ekki undarlegt, þegar við hliðina á þeirri viðurkenningu á nauðsyn sjávarútvegsins, sem liggur í öllum þessum ráðstöfunum, megi ekki gera fyrir útgerðina eins litla bón og þessa, öllum að meinfangalausu á allan hátt, og greiða þannig fyrir því, að útgerðin haldi sinu góða viðskiptaorði í útlöndum og þurfi ekki um svona sjálfsagðan hlut undir högg að sækja það, sem þeir þurfa til sinna þarfa? Ég verð að segja, að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að þessi d. sé svo ólíkt skipuð hinni d., sem setti þetta ákvæði inn í frv., að hún taki þetta aftur og hreki þannig frv. á milli d.