18.12.1937
Neðri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég gat ekki tekið þátt í umr. um þetta mál hér í hv. d. á sínum tíma, vegna þess að ég var þá upptekinn við umr. í hv. Ed. Vegna þess hve áliðið er orðið og mörg mál á dagskrá, ætla ég ekki að halda neina hrókaræðu um þann ágreining, sem er um sérstök atriði í sambandi við þetta frv., en ég verð að segja örfá orð út af þessari skriflegu brtt., sem fram hefir komið, um það að útgerðarmönnum skuli leyft með l. að ráðstafa hluta af sínum gjaldeyri til greiðslu á vörum útgerðarinnar. Menn mega ekki blanda tvennu saman í þessu tilfelli, annarsvegar heimild til þess að flytja inn vörur og hinsvegar möguleikanum á því að greiða vörurnar. Þessi till. mun engu breyta frá því, sem nú er um afstöðu útgerðarmanna til þess að flytja inn vörur, heldur breytir hún aðstöðu þeirra til þess að greiða vörurnar. Nú er það svo, eftir því sem ég hefi fengið upplýsingar um frá bönkunum, að þeir hafa fyrst og fremst reynt að greiða notaþarfir útgerðarinnar, og í mörgum tilfellum, þegar nauðsynlegt var vegna aðalnotaþurftanna, hafa bankarnir tekið á sig ábyrgðina, til þess að viðskiptin gætu gengið greiðlega, enda mun það vera svo, að í aðalatriðunum hafa ekki orðið nein vandkvæði á þessu. Hinsvegar vil ég benda á, að það yrði ákaflega erfitt að framkvæma l., ef hver einstaklingur hefði óskoraðan rétt að l. til þess að geta sjálfur sett gjaldeyri upp í vörur, sem hann kynni að flytja inn. Það þarf ekki að lýsa þessu hér; ég hefi oft talað um þetta. Fyrir mér er það aðalatriðið, að þessi l. verði þannig, að í þeim sé ekki glufa, sem hægt sé að nota til þess að fara í kringum þau, og það er af þeirri meginástæðu, sem ég legg áherzlu á, að engin sérstök undanþága verði í l. sjálfum. Ég vil benda á það, að ef það ætti að fara að gera slíka undanþágu í l. sjálfum að því er útgerðarmenn snertir, þá væri eðlilegt, að hún yrði líka gerð fyrir aðra, og yrðu l. þá nær óframkvæmanleg. Hinsvegar vil ég segja hér það, sem ég sagði í hv. Ed., að ég mun taka það til athugunar í sambandi við þá aðilja, sem mest er falið að framkvæma þetta, hvort það mundi vera hægt vegna framkvæmda gjaldeyrisl. yfirleitt að veita félögum útgerðarmanna leyfi til þess að nota gjaldeyri til greiðslu á sínum eigin vörum.

Um hitt atriðið, að tryggja útgerðarmönnum innflutningsleyfi fyrir vörur, sem í raun og veru hlýtur að vera stærra atriði heldur en þetta, er það að segja, að það hefir engin till. komið fram hér í hv. d. um það, en út af afstöðu útgerðarmanna til innflutningsins vil ég taka það fram, og ég mun fyrir mitt leyti beita mér fyrir því, að innkaupafélög útgerðarmanna geti fengið slík leyfi, enda hefi ég gert það, þegar það hefir legið fyrir, að þeir hafa getað útvegað sér nauðþurftir sínar með hagstæðara verði heldur en þeir hafa talið, að þeir fengju annarstaðar. Það eru m. a. veiðarfæri og ýmislegt efni til veiðarfæra, sem eru að nokkru leyti framleidd hér og hafa reynzt töluvert dýrari en ef þau fengjust beint frá útlöndum. Ég vil mæla með því, að innflutningur sé leyfður, þegar verðmunur er verulegur á íslenzku framleiðslunni og jafngóðri erlendri vöru eða betri.

Mér er það aðalatriði, að lögin séu skýr og engin glufa opnuð til að smjúga um. Ég vænti þess, að hv. deild fallist á, að það sé nauðsynlegt, og ég mæli með því að samþ. frv. án þessarar brtt., m. a. vegna þess, hve orðið er áliðið þings og áríðandi, að málið nái fram að ganga.