18.12.1937
Neðri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru hreinustu vandræði, hvernig sumir hv. þm. tala um þetta mál. Hv. 5. þm. Reykv. (EOl) hélt, að verð á útgerðarvörum geti lækkað um 10% a. m. k., ef útgerðarmenn fengju að ráðstafa gjaldeyri sínum sjálfir. Innkaupsverð á erlendum markaði mundi ekkert verða betra fyrir þá en aðra, þó að þeir gætu selt framleiðslu sína sem tryggingu, því að allur slíkur innflutningur er fluttur inn með bankatryggingu og mundi því ekki lækka um eina krónu við þetta.

Hitt er annað mál, hvort hægt væri að lækka verðið til notenda, ef útgerðarmenn gætu flutt vörurnar inn í stórkaupum sjálfir með litlum kostnaði. Það mál þarf meiri rannsóknar og undirbúnings. Hv. 5. þm. Reykv. ályktar af 1–2 tímabundnum dæmum um einstakar vörutegundir, að allar útgerðarvörur geti lækkað að sama skapi. Ef hægt er að lækka verð á línum, finnst honum hljóta að vera hægt að lækka verð á kolum til veiðiflotans.

Hv. þm. Ísaf. tók það réttilega fram, hve þungur skattur leggst á útgerðina vegna þess, að ekki hefir verið hægt að sæta ódýrustu kaupum erlendis á ýmsum vörutegundum til hennar þarfa. Það er ekki hægt að neita því, að það hefir verið sama sem bannaður innflutningur t. d. á bandkaðli, svo að hægt væri að kaupa hamp frá Ítalíu, upp í jafnvirðiskaup, og vinna hann hér. Allir eru sammála um, að það er ómetanlegur búhnykkur fyrir þjóðarheildina, borið saman við það, að kaupa norskan verksmiðjuvarning, ef íslenzka framleiðslan vex og ber sig með hóflegu verðlagi. — Á hinn bóginn er eðlilegt, að útgerðarmenn kvarti, þegar verðmunur er svo verulegur sem oft hefir reynzt, og þær kvartanir verður reynt að taka til greina. Náttúrlega er ekki hægt að setja með lögum ákvæði um það, hvað mikill verðmunur þurfi að vera til þess að innflutningur sé leyfður. Nú hefir t. d. Veiðarfæragerðin lækkað útsöluverð sitt mjög mikið til móts við norska verðið. Auðvitað má hugsa sér, að erlend firmu geti lækkað sig enn meir, svo að íslenzka framleiðslan geti ekki staðizt nándar nærri slíka verðlækkun. Ég held, hvað sem öðru líður, að hv. þm. Ísaf. geti vænzt þess, að minna tillit verði tekið hér eftir en áður til hampkaupa frá Ítalíu.