30.10.1937
Efri deild: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

Þingvíti

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég hélt það hefði verið óþarfi fyrir hv. 10. landsk. að fara að beina skeytum til mín áður en ég fór að tala. Hv. þm. sýndi greinilega vilja sinn til bænda, þar sem hann fór að tala um hið hörmulega ástand, sem nú ríkir í landbúnaðinum, með hinu mesta háði og spotti. Hann var að tala um, að mér væri þungt orðið um andardrátt. Það er satt, að ég hefi kvefazt á ferðalaginu, en litla ástæðu sá ég ná satt að segja til að draga það inn í umr. hér á Alþ., en forseti Sþ. virðist vera á annari skoðun. Annars get ég verið hv. 1. þm. N.-M alveg sammála um það, sem hann sagði um málið. Mér var ekki kunnugt um, að neinn fundur hefði verið boðaður í Sþ. A. m. k. var dagskráin ekki borin út. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég skal gjarnan borga þessar 15 kr., en ég vil ekki borga þær sem sekt. Ég vil beina því til forseta þessarar d., að hann sjái svo um í framtíðinni, að þegar þm. biðja um leyfi, þá þurfi þeir ekki að fara að leita uppi forseta Sþ. einhversstaðar úti um bæ til þess að verða ekki settir í þingvíti. Ég kann því illa, að þm., sem búnir eru að fá leyfi hjá forseta sinnar deildar til að fara úr bænum, í þeim tilgangi að vinna að jafnnauðsynlegum málum og þessu, séu samt sem áður víttir.