30.10.1937
Efri deild: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

Þingvíti

Páll Zóphóníasson:

Ég þakka forseta fyrir þær upplýsingar, að það væri venja að biðja deildarforseta um leyfi. Það er þetta, sem við höfum gert. Því, sem hann var að beina skeytum til mín persónulega, skal ég ekki svara; ég svara aldrei þessháttar skeytum. En ég skal benda hv. þm. á það, að þessi fundur var ekki haldinn af okkur þm., heldur oddvita hreppa úr 6 sýslum þarna á hinu svokallaða sýkta svæði. Fundurinn hafði verið boðaður í heyranda hljóði og átti að vera fyrir alla þá, sem áhuga hefðu á því máli, sem þar var til umr. Þangað fóru svo allir þm. úr landbn. þingsins, nema einn úr Nd. og einn úr Ed., hvort sem það hefir nú verið af áhugaleysi, að þessir menn fóru ekki á fundinn, eða af öðrum ástæðum, það skal ég ekki segja.