11.11.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

Þingvíti

Eiríkur Einarsson:

Ræða hv. þm. Mýr. bendir helzt til þess að leiða athygli þingheims að því, að þeir þm., sem hann nefndi, hafi haft löglega afsökun til fjarvistar á síðasta fundi Sþ., en hinir, sem víttir voru, hafi enga afsökun haft og séu því hinir forhertu menn. Ég er einn af þeim, sem fjarverandi voru, en hefi ekki þessa afsökun í málinu, sem tekin var fram af hv. þm. Mýr. En orsökin til þess, að ég var fjarverandi, var sú, að mér hafði sézt yfir, að fundur var í Sþ. þennan dag, og tel ég mig hafa nokkra afsökun í því, að nú á þessu þingi fær maður aldrei heim dagskrá næsta dags, eins og átt hefir sér stað á undanförnum þingum. Og ég vil nota þetta tækifæri til þess að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að hann geri gangskör að því, að þm. fái heim til sín dagskrá næsta dags, til þess að svona lagað komi síður fyrir.