11.11.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

Þingvíti

Jörundur Brynjólfsson:

Eins og hv. þm. Mýr. tók fram, höfðu þeir þm. Nd., sem hann nefndi, fjarvistarleyfi fyrir fjarveru sinni þennan dag. Mér var ekki kunnugt um það, er ég gaf leyfið, að fundur yrði haldinn í Sþ., og mér láðist að hafa það á orði við hæstv. forseta Sþ. áður en fundur hófst þennan dag, hvort þeir þm., sem leyfi höfðu í Nd., hefðu snúið sér til hans um beiðni um að mega vera fjarverandi, og svo óheppilega vildi til, að einmitt þegar hæstv. forseti gerði þetta að umtalsefni, hefi ég verið fyrir utan sali þingsins, þar eð svo stóð á, að einmitt um þetta leyti hittu mig utanbæjarmenn að máli. Og hafði ég ekki hugmynd um þetta fyrr en að fundi loknum, enda hefði ég annars gefið þessar upplýsingar um hv. þm. Nd. Þess var að vísu getið, er fundur í Nd. þennan dag var boðaður, að hann yrði að loknum fundi í Sþ., en þessir hv. þm. hafa ekki veitt því athygli, og fyrir þá sök ekki aflað sér fjarveruleyfis í Sþ. Þótti mér skylt að upplýsa þetta, en hv. þm. Mýr. hefir getið þeirra hv. þm. úr Nd., er fjarvistarleyfi fengu þennan dag.