22.12.1937
Efri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

Starfslok deilda

Jónas Jónsson:

Ég vildi a. m. k. fyrir mína parta, og ég hygg margra hér í hv. deild, þakka hæstv. forseta fyrir alla samvinnu við okkur þdm. Ég hygg, að það muni mál manna, að þessi deild hafi verið mikil friðardeild í vetur og sjaldan verið hér stormur. Og það er án efa ekki eingöngu okkur deildarmönnum að þakka, heldur sérstaklega okkar friðsama forseta, sem er sannur friðarmaður og hefir alltaf verið, og sem með sinni framkomu og sinni stjórn hefir nú eins og endranær síðan hann varð forseti hjálpað til að setja þann blæ á deildina, sem mjög hefir orðið til að auka hennar hróður og létta henni starfið. Ég veit það, að hæstv. forseti mun nú fljótlega leggja af stað heimleiðis, í heldur erfiða ferð yfir land og haf. Ég veit, að sumir kjósendur hans, sem hafa talað við mig undanfarna daga, eru nokkuð kvíðandi um, að hann og samþingismaður hans kunni að geta mætt vondu veðri á þessum tíma. Ég óska þess — og ég veit, að ég segi það fyrir hönd okkar allra hér —, að hann og félagi hans fái jafnmikið logn og frið og ró með sér heim eins og hann hefir hjálpað til að hafa mikið sólskin og mikla ró yfir störfum deildarinnar í ár.