28.10.1937
Efri deild: 13. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (1719)

50. mál, drykkjumannahæli

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég skil þessa aths. hv. 1. þm. N.-M. mjög vel. Mig langar alls ekkert til að stimpla nokkurn mann, ekki heldur drykkjumann, sem úrhrak annara manna, enda þykist ég hafa tekið það skýrt fram, að drykkjumenn séu fyrst og fremst sjúklingar, sem þurfa á sjúklingameðferð að halda, og ég sé ekki, að það sé neinn stimpill á þeim. Hinu verður ekki neitað, að menn þessir stimpla sig oftast sjálfir með hegðun sinni, og einmitt vegna þess má það teljast bezt og heppilegast fyrir þá sjálfa að vera sem mest út af fyrir sig, enda hætt við, að ástand þeirra sé oft þannig, að öðrum sjúklingum væri lítil gleði að samvistum við þá.

Annars er ég fús til samvinnu við alla, sem þessu máli vilja sinna, og hlýði með athygli á tillögur annara, ef ég sé, að þær miða í rétta átt. Það er mér fyrir öllu, að málið fái afgreiðslu frá hv. Alþingi, þjóðinni til blessunar.