16.11.1937
Efri deild: 28. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (1724)

50. mál, drykkjumannahæli

*Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Mig undrar það ekki, að hv. flm. sé ekki alveg ánægður með afgreiðslu n. á frv., þar sem talsvert var vikið frá því, sem hann vildi. En mér þótti vænt um, að hv. flm. sagðist mundu sætta sig við þessa lausn til bráðabirgða, þó að hann að sjálfsögðu hefði heldur kosið að hin væri farin. — Hv. flm. lét þá skoðun í ljós, að ráðstafanir þær, sem dagskráin gerir ráð fyrir, mundu ekki koma að gagni fyrir þá menn, sem talað er um í 4. og 5. gr. frv. Þar til er því að svara, að vilji menn á annað borð ekki gefa sig fríviljuglega undir slíka lækningu, tekur það allmikinn tíma að halda málinu áfram, hvort sem farið væri eftir frv. eða dagskrártill. Það má ekki virða að vettugi þann rétt, sem hver maður hefir til að láta grannskoða það, hvort hann sé svo djúpt sokkinn. að eigi að svipta hann lögræði. En ég sé ekki svo mikinn mun á því, að menn séu sviptir lögræði, og hinu, að menn séu teknir nauðugir og settir á spítala. Hitt er bert, að samkv. núgildandi lögum er hægt að taka menn, sem ekki eru færir um að stjórna sjálfum sér, og svipta þá sjálfræði og setja þá í spítala eða gæzluvarðhald.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að við nm. hefðum horfið að þessari afgreiðslu málsins eingöngu af fjárhagsástæðum. Þetta er ekki allskostar rétt. Við höfðum tal af þeim manni, sem mun hafa einna bezt vít á þessum málum, dr. Helga Tómassyni, og vildi hann ekki ráðleggja, að slíkt hæli yrði stofnað. Honum fannst ráðlegra, að menn prófuðu sig fyrst áfram með tilraunum í smáum stíl. Hitt er rétt, að okkur óx í augum sá kostnaður, sem bygging hælis hefði í för með sér. — Hv. þm. spurði, hvort við hefðum nokkuð athugað um stað fyrir slíkt hæli sem hér um ræðir. Um slíkt hefir auðvitað ekkert verið athugað, meðan enn er óvíst, hvort þessi fjárveiting fæst. Það og annar undirbúningur kemur náttúrlega strax og fjárveitingin er fengin. Og ég hefi fyrir mér umsögn yfirlæknisins á Nýja-Kleppi um, að slík byrjun, sem hér er gert ráð fyrir, þyrfti ekki að verða mjög dýr. Það er hægt að semja við mann um leigu á ákveðnum herbergjafjölda um ákveðinn tíma; til þess þyrfti ekki svo ýkjamikið fé. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að málinu er það betra, að dagskrártill. verði samþ. en að eiga á hættu, að frv. verði fellt. Ég vil því vænta þess, að fylgismenn frv. láti sér nægja þessa lausn til bráðabirgða.