17.11.1937
Efri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (1730)

50. mál, drykkjumannahæli

Guðrún Lárusdóttir:

Ég vil segja fáein orð út af ræðu hv. 3. landsk. Ég tek það fram, að það er mjög fjarri mér að vilja væna hvorki hann eða aðra í hv. allshn. um nokkur undanbrögð í þessu máli. Ég veit, að n. hefir bæði í fyrra og núna unnið fyrir málið eftir beztu getu, og gruna hana alls ekki um neina græsku, enda held ég ekki, að ég hafi hagað orðum mínum svo, að slíkt mætti af þeim ráða. En þar sem hv. þm. sagði, að til þess þurfi engin lög að byggja þetta hæli, er ég honum mjög ósammála. Ég held það sé fyrst og fremst þörf á l. um byggingu hælisins, og það mjög greinilegri löggjöf. Hann sagði, að þetta væri aðeins framkvæmdaatriði fyrir ríkisstj., en ég verð að segja það, að ég hefi ekki trú á því, að sú ríkisstj., sem ekki einu sinni hefir sýnt lit á að framkvæma þál. frá þinginu 1935, þar sem fyrir stj. var lagt að undirbúa löggjöf um þetta efni, geri mikið fyrir málið yfirleitt. Það má hver lá mér það, sem vill, þó ég ekki treysti ríkisstj. mikið í þessu máli, svo greinilega hundsaði hún þál. mína og hefir hvorki hreyft hönd né fót málinu til framdráttar. Og ríkisstj. hvorki getur eða vill stofna þetta hæli, ef ekki eru bein lagafyrirmæli um stofnun þess, svo þar held ég hv. þm. hafi ekki á réttu að standa.

Þá heyrðist mér hv. þm. eitthvað vera að minnast á atkvgr. mína um bindindismál hér í hv. d., þar sem ég hafði átt að greiða atkv. gegn bindindi, að mér skildist. Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur, því ég hefi frá því fyrsta að ég man eftir mér unnað bindindismálinu, og mun svo gera á meðan ég lifi. Ég vildi því gjarnan fá skýringu á því, hvenær ég hefi hér í þessari hv. d. greitt atkv. gegn bindindi.