17.11.1937
Efri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (1731)

50. mál, drykkjumannahæli

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefi litlu að svara hv. þm. Hafnf. Þann skoðanamun, sem milli okkar er, tæki langan tíma að rökræða, svo ég sleppi því. En viðvíkjandi því, sem hv. 2. landsk., flm. þessa frv., sagði út af þál. frá þinginu 1935, skal ég taka það fram, að ég skil vel gremju hans út af aðgerðarleysi stj. í þessu máli, og það er leitt, að enginn hæstv. ráðh. skuli vera hér viðstaddur til þess að svara fyrir stjórnina.

Hinsvegar er það mín skoðun, að lítið sé fengið með því að samþ. þetta frv., ef ekki yrði meira gert, engin fjárveiting kæmi til, og miklu betra að gera tilrann þá, sem dagskrártill. felur í sér. Það er e. t. v. litil tilraun, en þó nokkur, ef 25 þús. kr. fengjust. við byggjum okkar aðstöðu í n. á áliti geðveikralæknisins, sem telur, að venjulegur drykkjumaður mundi eftir 3 vikna dvöl á góðu heimili í sveit vera orðinn það vinnufær, að hann gæti farið að vinna fyrir sér, þó hann þyrfti að vera þar eitthvað lengur. Auðvitað verður reynslan að skera úr þessu.

Þá bað hv. þm. um skýringu á því, sem ég sagði um atkvgr. hv. þm. um bannmál hér í hv. d. Ég skal taka skýrt fram, hvað ég átti við, og bið afsökunar á því, ef ég fer þar ekki rétt með, en ég átti við það, að við lokaatkvgr. um innflutning sterku vínanna hér í hv. þd. greiddi þessi hv. þm. atkv. með því að veita þessu flóði yfir landið. (GL: Það þykir mér ótrúlegt, að rétt sé frá skýrt). Og ég sagðist harma það, að svo fór. Að öðru leyti er ég ekki að deila á hv. þm., en þá var baráttan svo hörð hér á Alþingi, að okkur, sem harðast börðumst þá gegn áfenginu, tók sárt, að þessi hv. þm. skyldi þá snúast á móti okkur.

Ég skal svo láta útrætt um þetta mál. Ég vænti. að dagskrártill. verði s1mþ., og hvort sem menn eru bindindismenn eða ekki, þá geti þeir orðið sammála um það að vilja veita ekki minna en 25 þús. kr. í fyrstu tilraun til lækningar drykkjumönnum.