23.10.1937
Neðri deild: 9. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (1734)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

*Flm. (Ólafur Thors):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hafa landsmenn til skamms tíma getað látið sér nægja saltfisksframleiðsluna sem höfuðgrein sjávarútvegsins, vegna þess að sú grein var það arðvænlegri en aðrar framleiðslugreinar, að saltfisksframleiðslan ein varð veigamesti þátturinn í atvinnulífinu við sjávarsíðuna og jafnframt allrar þjóðarinnar. En nú á síðustu árum hefir á þessu orðið mikil breyting, sem sumpart stafar af því, að eldri markaðir fyrir saltfisk hafa lokazt vegna viðskiptahamla í viðkomandi ríkjum, og sumpart fyrir það, að viðskiptalöndin hafa lokazt vegna styrjalda. Gildir þetta um Spán og að nokkru leyti Ítalíu meðan Abessiníuófriðurinn geisaði. Er nú svo komið, að saltfisksframleiðslan hefir hraðminnkað. svo sem bezt má sjá á útflutningsskýrslunum, er sýna, að útflutningurinn hefir minnkað um helming á örfáum árum. Þessi minnkun á útflutningnum hefði þó orðið enn meir áberandi og tilfinnanlegri fyrir þjóðina, ef ekki hefði það farið saman, að tvö síðustu árin, 1936 og 1937, hefir orðið óvenjulegur aflabrestur í þorskveiðinni, þannig að veiðin er ekki helmingur þau ár miðað við árin þar á undan. Ef aflinn, sem áður var, hefði haldizt þessi tvö síðustu ár, mundu hafa safnazt fyrir miklar birgðir af óseljanlegri vöru, sem stórlega erfiðleika hefði haft í för með sér fyrir þá, sem með völdin fara, og alla, sem við útgerð fást.

Við sjálfstæðismenn höfum jafnan haldið því fram, að hið opinhera eigi að hafa gætur á því, hver ráð eru á hverjum tíma til að mæta hinum aðsteðjandi örðugleikum, og gagnvart hinum brestandi saltfisksmarkaði höfum við aðallega bent á þrennt, sem ætti og þyrfti að gera. Í fyrsta lagi er það aukning síldarbræðsluverksmiðja. Ég held, að á síðasta valdatímabili Sjálfstfl. hafi þeim verksmiðjum verið fjölgað úr 5 í 12 og afköst verksmiðjanna á sama tíma hafi aukizt úr 6 til 7 þús. mál á sólarhring í 17 þús. mál, og síðan hafa afköstin aukizt í um 27 þús. mál, aðallega fyrir tilverknað tveggja einkafyrirtækja, sem sjálfstæðismenn hafa átt og rekið. En það þarf hér sem annarsstaðar að gæta þess, að vöxturinn verði eðlilegur og ekki of hraður, því snöggar verðsveiflur geta haft alvarleg áhrif á markaðsverð á síldarafurðunum, sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir framleiðsluna jafnt á þessu sviði sem öðrum, og því voveiflegri geta þær afleiðingar orðið, sem vöxtur framleiðslunnar er örari.

Sjálfstfl. fylgir þeirri stefnu, að einstaklingsframtakið eigi að leysa þetta mál, eftir því sem það hefir getu til þess, en er andvígur þeirri stefnu stjórnarflokkanna að meina einstaklingsframtakinu að hefja úrlausnarstarfsemi á þessu sviði nema með sérstökum leyfum, er það á meira eða minna undir högg að sækja. Hinsvegar erum við engan veginn á móti því, að hið opinbera skerist í leikinn þar, sem einkaframtakið er þess ekki umkomið að leysa málin, og vil ég í því sambandi nefna frv., sem fulltrúar Sjálfstfl. í hv. Ed. bera nú fram um byggingu síldarverksmiðju á Raufarhöfn. Þetta frv. er borið fram vegna þess, að okkur er ljóst, að þörfin fyrir þessa verksmiðju er mjög aðkallandi, sérstaklega fyrir minni báta og línuveiðara, sem bera nú mjög skarðan hlut frá borði vegna hinnar löngu siglingar með aflann alla leið frá Langanesi til Siglufjarðar, vegna þess að afköst verksmiðjunnar á Raufarhöfn eru svo lítil, en aðalveiðin hinsvegar á þessum slóðum. Við teljum þannig nauðsynlegt að örva síldveiðina á þennan hátt með byggingu nýrra síldarverksmiðja á vissum stöðum og aukningu hinna eldri. Við sjálfstæðismenn teljum einnig nauðsynlegt, að hið opinbera, eftir því sem geta þess leyfir, örvi menn til þess að flytja út frystan fisk undir vissum kringumstæðum. Við bárum fram á síðasta þingi frv. í þessa átt og ennfremur á þinginu 1934, þar sem með ákvæðum 5. gr. þess frv. voru sköpuð ný skilyrði, með lánum úr fiskveiðasjóði, fyrir byggingu frystihúsa til þess að frysta fisk, en eins og kunnugt er, voru frv. þessi felld, eða náðu ekki fram að ganga. Ég viðurkenni það fullkomlega, að varfærni mikla þarf að hafa um útflutning á hraðfrystum fiski. Ég veit, að markaðsmöguleikar okkar á þessu sviði eru miklir, en þeir hagnýtast ekki fyrir atgerðir Íslendinga einna saman. Þeir hagnýtast ekki fyrir það eitt, þó komið væri frystihúsakerfi kringum allt landið. Þessir möguleikar fara ennfremur eftir því, hvað aðrar þjóðir aðhafast á þessu sviði. Það þurfa að koma upp frystiklefar í hafnarborgunum erlendis, sem tekið geta við þessum fiski, og sömuleiðis í flutningatækjum þeim, er flytja vöruna áleiðis þaðan til ákvörðunarstaðar, og ennfremur þurfa slíkir geymsluklefar að koma upp í sambandi við útsölu vörunnar í stórborgunum. Þegar þetta er komið í lag, en því miðar nú nokkuð áleiðis, er enginn efi á, að útlitið með freðfisksmarkaðinn verður glæsilegt fyrir okkur Íslendinga.

En jafnhliða þessum tveimur útflutningsgreinum viljum við sjálfstæðismenn stofna til niðursuðu á fiski. Frændur okkar Norðmenn hafa á þessu sviði unnið sér allálitlegan markað, því hjá þeim hefir andvirði fyrir útfluttan, niðursoðinn fisk sum árin orðið hærra að krónutölu en fyrir saltfisk og harðfisk til samans. Norðmenn hafa kannske á sumum sviðum betri skilyrði en við til niðursuðu á fiski, en hitt er þá einnig víst, að á öðrum sviðum eru skilyrðin ágæt hér hjá okkur. Hér er nóg til af þeim fiskitegundum, sem álitlegar eru til niðursuðu, svo sem lúða, ýsa, þorskur og ufsi. Ég hefi oft hugleitt það, hvernig farið hefir öll þau ár, sem við höfum haft heimild til að selja frystan fisk til Þýzkalands, að frystur ufsi, sem þangað hefir verið seldur, þessi fiskur, sem annars er því nær óseljanleg vara, hefir nær alltaf selzt þar í landi fyrir það hámarksverð, sem stjórnarvöldin þar í landi hafa leyft á þeirri vöru. Á síðasta ári voru seldar þar í einu um 100 smálestir af þessum fiski fyrir um 24000 ríkismörk, eða 42–43 þús. kr., sem ekki mundi hafa tekizt að selja í Englandi fyrir meira en 5–10 þús. kr. Alls mun hafa selzt í Þýzkalandi af þessari vöru héðan fyrir 70–80 þús. kr. Ég hefi verið að gera mér það í hugarlund, að ástæðan fyrir þessari góðu sölu væri sú, að Þjóðverjar nota þennan fisk til niðursuðu og kalla hann sjólax, og þykir ágætisvara og er dýr. Ef þeir geta notað ufsann frá okkur til niðursuðu þannig eftir að búið er að hraðfrysta hann, sem ég held, að þeir geri, þá er hér um að ræða einstaka aðstöðu fyrir okkur Íslendinga.

Ég skal taka það fram, að mig skortir sérþekkingu til þess að tala um niðursuðu á fiski, en mig skortir ekki þekkingu til þess að sjá, eins og aðrir hv. þm. hér í d., að aðrar þjóðir, sérstaklega Norðmenn, hafa hér stofnað til þýðingarmikils iðnaðar til útflutnings, sem hefir gefið þeim meira í aðra hönd en saltfiskurinn og harðfiskurinn til samans.

Ég ætla svo ekki að fara mörgum fleiri orðum um þetta mál. Við sjálfstæðismenn hér í hv. d. berum fram frv. á þskj. 25 um það, að ríkið styrki þá, sem kynnu að vilja byggja niðursuðuverksmiðju fyrir fisk, með allt að ¼ af byggingarkostnaði verksmiðjanna. Við höfum jafnframt í 4. gr. viljað opna samskonar aðgang bændum, sem vilja stofna til niðursuðu á landbúnaðarafurðum. Ég hygg, að þetta hafi verið reynt hér nokkuð bæði hvað snertir landbúnaðar- og sjávarafurðir, og hvorttveggja rekið af sama aðilja, sláturfélaginu, og gefizt vel. Sýnishorn af fiski, sem send voru til útlanda, þóttu góð. Ég vil leiða athygli að því, að fyrir utan bein fríðindi til félaga bænda í þessu frv. er niðursuða sjávarafurða einnig hagsmunamál fyrir bændur að því er snertir t. d. fiskibollurnar, sem í er mikil mjólk. Um leið og sú framleiðsla eykst, er og um betri aðstöðu hænda að ræða að koma frá sér mjólkinni.

Ég held, að við sjálfstæðismenn getum rólegir treyst því, að allur þorri þm. sé að því leyti fylgjandi frv., a ð það er almennt viðurkennt, að það hnígi í rétta átt. Ég hefi orðið var við — og það er ekkert óeðlilegt —, að menn finna að því, að hér er um að ræða kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, og það þykir fara illa á því, að sjálfstæðismenn, sem stöðugt berja lóminn út af háum og hækkandi fjárlögum, skuli nú flytja frv., sem hefir í för með sér svipting tekna fyrir ríkissjóð. Nú er það engin goðgá, þó að flokkur, sem gæta vill sparnaðar, beri samt fram till., sem hafa í för með sér útgjöld. En þessi rök, sem er deilt á okkur með, nefnilega, að ríkissjóður hafi enga peninga, eru sömu rökin og andstæðingar okkar halda fram, að séu erfðagripir frá aldagömlu íhaldi. Nú beita þeir þeim gegn okkur. En ég get svarað þessu með spurningu til hv. þdm.: Hvað á að gera? Hver er framtíðin? Ég veit ekki, hvort margir hv. þdm. hafa gert sér grein fyrir því. En ég hugsa, að við, sem á sjávarútveginum lifum, vitum, að ef ekki steðja að óvænt höpp, er ekkert nema hrun framundan, nema við leggjum inn á nýjar leiðir. Hvaða horfur eru á því, að að óbreyttum athöfnum megi þessi atvinnurekstur breytast svo, að nú komi gróði þar, sem áður var tap? Svo bágt sem ástandið er, eru þó horfurnar enn verri. Olían, sem kostaði í fyrra 15 aura, kostar nú 20 aura. Beitan, sem kostaði 25 kr., á að kosta 35 kr. í ár. Línur, sem kostuðu þá 80 kr. dúsinið, kosta nú 100. Saltið kostaði þá 52 kr., nú 65 kr., og svona mætti lengi telja. Og verkafólkið ætlar að heimta kr. 2.50. Sjá nú ekki allir menn, að þar, sem áður var vonlítið, er nú vonlaust? Hér er því um það að ræða, að Íslendingar verði að hætta að róa á sjó eða leggja inn á nýjar brautir.

Ég var ekki svo hvetjandi til breytinga á meðan við gátum selt allt á hæsta markaði, af því að við vorum ekki svo efnum búnir, að við hefðum ráð á slíkri tilraunastarfsemi, á meðan hún var ekki beinlínis nauðsynleg. Samt hafa sjálfstæðismenn ætið verið þess hvetjandi, að við hefðum opin augun fyrir nýjum möguleikum. En hér breyttust allar aðstæður jafnóðum og markaðsmöguleikar fyrir saltfiskinn urðu minni.

Auk þess, sem ég hefi nú sagt um gagnrýni til okkar fyrir að bera fram útgjaldatill., vil ég halda því fram, að það er engum vafa undirorpið, að það getur vel farið saman að krefjast skattalækkunar, en bera þó fram till., sem auka útgjöld ríkissjóðs. Að þetta eigi við rök að styðjast, vil ég sanna þeim, sem vilja renna huganum aftur í tímann, með því að benda þeim á verzlunarskýrslurnar, sem bera það með sér, að á árunum fyrir 1930, og hæst 1924, var verzlunarveltan rúmar 130 millj. kr. á ári, en nú er hún 80–90 millj. Með 90 millj. kr. verzlunarveltu getur ríkissjóður auðvitað ekki haft svipaðar tekjur og áður. Við sjálfstæðismenn viljum í senn bæta hag almennings í landinu með nýjum og bættum atvinnuskilyrðum og bæta hag ríkissjóðs með því að velta ósanngjörnum sköttum af framleiðslunni. Ef tekst að örva framtak einstaklingsins með því að ríkið leggi fram beinan styrk til framleiðslunnar, þá fullyrði ég það öruggur, að almenningi skapast ný og bætt skilyrði og ríkissjóður fær endurgoldið ríkulega það, sem hann leggur fram. Það er kunnugt, að í þessu efni er mikill ágreiningur á milli okkar og stjórnarliðsins. Við deilum á ríkisstj. fyrir það, að þegar skattstofnar bregðast, þá er ýmist hert á sköttum til framleiðslunnar eða lagðir á nýir skattar, í stað þess að ríkissjóður reyni að örva framtakið til þess að afla sér nýrra tekna. Ég veit, að hæstv. fjmrh. viðurkennir það nú, að það er ekki skylda okkar að benda á leiðir til niðurskurðar, þegar hann sjálfur hamrar á því, að það þurfi að spara, alveg án nánari skýringa.

Þá hefi ég gert grein fyrir stefnu ykkar sjálfstæðismanna í þessu máli. Ég veit, að gagnrýni muni koma fram, og ég hefi þegar svarað henni fyrirfram að nokkru leyti.

Ég legg svo til, að málinu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og sjútvn.