23.10.1937
Neðri deild: 9. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (1738)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

Sigurður Kristjánsson:

Þegar ég kvaddi mér hljóðs, var það aðeins vegna ummæla, sem féllu um atriði í grg. þessa frv., sem ég er meðflm. að. En mér þykir rétt að minnast á það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, af því að hann talaði áður en orð þau féllu, er urðu til þess, að ég kvaddi mér hljóðs. Það var hlutur, sem ég vænti mjög, að hann mundi rísa á móti þessu máli. Það er sem sé hlutverk hans og fleiri manna af hans flokki hér á Alþ. að rísa á móti hverju einasta máli, sem hann flytur ekki sjálfur eða hefir gert hrossakaup um fyrirfram. Þetta er andlegur sjúkleiki á þessum mönnum, og verður að umgangast þá sem aðra sjúklinga og ekki að búast við, að þeir geti haft sómasamlega fótavist með þann sótthita, er slíku fylgir. En það eru einstök atriði í ræðu hans, sem rétt væri að athuga áður en málið gengur til n. Hann minntist á, að það væri gengið framhjá fiskimálanefnd í þessu frv. Ég veit ekki, hversu mikill ábati það væri fyrir þennan hv. þm., að minnzt væri á þá nefnd, en það get ég sagt honum, að á hana mun minnzt verða síðar í þinginu, og er ekki vist, að honum sé neinn ávinningur að því að kalla eftir þeim umr. Hv. þm. minntist á, að þessi nefnd hefði byrjað með tilraunir með niðursuðu. Það er ekki rétt. Hún hefir ekki átt þar neitt frumkvæði að, en lítils háttar þátt, sem vitnar m. a. um það, hvernig hún skilur hlutverk sitt. Hann mun hafa átt við rækjuverksmiðjuna á Ísafirði og nefndi hana. Þannig var mál vaxið, að fiskimálanefnd hafði ekki neina forgöngu. Félag manna var stofnað til að reisa rækjuverksmiðju og hafði kynnt sér málið og gert undirbúningsráðstafanir. En þessi félagsskapur vildi fá styrk til framkvæmdanna úr fiskimálasjóði, af því að málið er á tilraunastigi. Og einnig þurfti innflutningsleyfi á tækjum til verksmiðjunnar. Þáttur fiskimálanefndar er sá einn, að neita þessum félagsskap um styrk, en veita hann aftur bæjarstj. Ísafjarðar, sem ekkert hafði undirbúið málið, en aðeins hlaupið til, eða réttara sagt einn maður úr bæjarstj., þegar hann spurði, að stofnaður væri félagsskapur til þessarar starfrækslu. Og svo mun fiskimálanefnd — þetta veit ég ekki með sannindum, en hefi heyrt það og þykir sennilegt — þegar þessi félagsskapur ætlaði að halda styrklaust áfram, hafa komið því til leiðar, að honum var neitað um innflutning á tækjum.

Út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. um það, hverskonar hús ætti að nota til niðursuðuverksmiðju, vil ég segja það, að það er rekstrinum ákaflega hættulegur hlutur að nota gömul hús. Að sönnu má lækka stofnkostnað nokkuð með því að taka gömul hús, sem ekki eru lengur nothæf til þeirra hluta, sem þau voru byggð fyrir, og setja niður verksmiðjuvélar og tæki í þau. Þetta hefir verið gert bæði hér og annarsstaðar, og ég hefi ekki heyrt einn einasta mann halda öðru fram en því, að þetta hafi alltaf verið fyrirtækinu til tjóns, orðið fyrirtækinu haft um fót um langt árabil, þangað til ráðizt var í að byggja hús með fullu tilliti til þess, sem þar á að framkvæma.

Ég held þess vegna, að það sé alveg nauðsynlegt, þegar ráðizt verður í niðursuðu sjávarafurða, að til þess séu byggð hús, sem séu algerlega sniðin eftir sínum tilgangi, þó að stofnkostnaður verði vitanlega við það nokkru meiri.

Mér skildist bæði á þessum hv. þm. og líka á hæstv. fjmrh., að þeir væru dálitið undrandi yfir því, að sjálfstæðismönnum skyldi detta í hug einhver nýmæli á sviði sjávarútvegsins eða yfir höfuð í atvinnurekstri. Ég spyr þessa háu herra um þetta: Hverjir eru það, sem hafa rutt brautirnar? Hverjir hafa hafizt handa um framkvæmdir á sviði sjávarútvegsins og atvinnusviðum yfirleitt? Eru það ekki fyrst og fremst sjálfstæðismenn? Það hefir stundum heyrzt, a. m. k. í blöðum stjórnarflokkanna, að flokkurinn sé eiginlega flokkur sjávarútvegsmanna. Stundum er sagt, að hann sé flokkur heildsala, og stundum flokkur stórbænda. En það mun vera alveg rétt, að flestir þeir menn, sem hafa stundað sjávarútveg, og allir a. m. k., sem hafa rutt einhverjar brautir á því sviði, þeir eru í Sjálfstfl. En hvað hafa þeir menn afrekað í sjávarútvegsmálum, sem eru að býsnast yfir því, að við sjálfstæðismenn skulum vera svo djarfir að koma með nýmæli á sviði sjávarútvegsins? Hvað hafa þeir afrekað og þeirra nánustu? Ekkert annað en að vera eins og hálfgerðar lýs á þessum atvinnurekstri. Í sambandi við þetta vil ég vekja athygli á því, að sama árið og núv. ríkisstj. settist á laggirnar báru sjálfstæðismenn fram á þingi frv. einmitt um þetta sama efni, þó nokkuð væri í öðru formi. Það var frv. um fiskveiðasjóð. Þar er einmitt tekið fram, að fiskveiðasjóður eigi að koma fótum undir niðursuðu sjávarafurða. Og þar eru leidd gild rök, og mörg hin sömu og í þessu frv., að því, að það geti orðið til geysilega mikils léttis í gjaldeyrisvandræðum okkar, ef sjávarútvegsmönnum yrði gert unnt að breyta afla sínum á þennan hátt í verðmætari vöru en verið hefir. Þetta er þess vegna ekkert nýmæli frá okkar hendi; við höfum hafið máls á því fyrir mörgum árum.

Ég skal þá koma að þeim ummælum, sem urðu þess valdandi, að ég kvaddi mér hljóðs, þar sem hæstv. fjmrh. sagði það alrangt í grg. frv., að stj. hefði reynt að bæta úr atvinnuleysinu með atvinnuleysisstyrkjum og úr verzlunarörðugleikunum með innflutningshöftum. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh.: Til hvers er verið að veita þessa hálfu millj. kr. til atvinnubóta í landinu, ef ekki til að bæta úr atvinnuleysinu? Er það gert til þess, að hægt sé að setja þar á laun einhverja stjórnarsinna sem verkstjóra, eða einhverskonar launataka? Ég hélt, að það væri gert til að bæta úr atvinnuleysinu, a. m. k. eru atkv. sjálfstæðismanna gefin með þessu í þeim tilgangi. (Fjmrh.: Telur þm. þetta rangt?). Ég teldi miklu skynsamlegra að útrýma atvinnuleysinu með þeim ráðum, sem við sjálfstæðismenn viljum. nefnilega að koma meiri krafti í atvinnulífið í landinu. Þar er hinn mikli stefnumunur á milli okkar og stjórnarflokkanna, að við viljum skapa traustan grundvöll undir atvinnulífið í landinu með því að hlynna að atvinnurekstri, en stjórnarflokkarnir hafa hingað til haft miklu meiri viðleitni til að leggja höft á atvinnureksturinn, en hinsvegar reynt að bæta úr bölinu, sem af þessu leiddi, með atvinnubótastyrkjum. Og innflutningshöftin eru sjálfsagt sett til þess að bæta verzlunarjöfnuðinn. Þar er annar þáttur stefnumunarins. Við sjálfstæðismenn viljum bæta úr verzlunarvandræðunum með því að auka útflutninginn, og álítum það bezt gert með því að gera framleiðsluvörur okkar að verðmætari vörum en hingað til. En stjórnarflokkarnir virðast ekki sjá annað höfuðráð en að takmarka innflutninginn til landsins. Það er ráð út af fyrir sig, en ekki til langframa, því að fjölmargt er það, sem menn kaupa frá öðrum löndum, sem þeir geta ekki án verið.

Ég vil þess vegna slá alveg föstu, að þetta atriði í grg. er alveg rétt; en hitt er alveg sjálfsagður hlutur, að það er margt fleira, sem reynt er til að bæta úr þessu tvennu böli, sem ekki er nefnt í grg. En þessi ráð hafa verið í hendi stjórnarvaldanna í landinu aðallæknislyfið.

Þá vil ég leiðrétta það, sem hæstv. ráðh. sagði, að tekjur fiskveiðasjóðs væru styrkur úr ríkissjóði. En það, sem fiskimálanefnd hefir til umráða, er að nokkru leyti tekið alveg beint af fiskútgerðinni, með hundraðsgjaldi af andvirði útflutts fiskjar.

Þá kem ég að þessari upptalningu, sem hæstv. ráðh. gerði nú fyrir mín orð á því, sem hann kallaði aukin útgjöld ríkissjóðs. Það er náttúrlega rangt orð. (Fjmrh.: Ég sagði það ekki, heldur tekjurýrnun). Já, tekjurýrnun. En ég verð að segja það, að ég hefi séð þennan sama són í blöðum stjórnarflokkanna lengi, en aldrei dottið í hug, að hæstv. fjmrh. mundi gera sig, ég vil segja, nærri því að flóni að tyggja þetta upp á Alþingi, því að það er alls ekki hæfandi hans háu stöðu. Ég hefi litið svo á, að þessi sónn ætti að glymja í eyrum ófróðra manna úti um landið. Það er svo, að stjórnarflokkarnir hafa mjög valið að blöðum sínum þá menn, sem temja sér þann rithátt og málflutning, að fyrir þá, sem er annt um sóma sinn, er naumast gerlegt að deila við þá. Þeir geta því lítt áreittir látið margt glymja í eyru illa gefinna manna. En að þetta skuli gerast hér inni á Alþingi, og það gegnum munn hæstv. fjmrh., það eru undur. (Fjmrh.: Hvað er hneykslið í þessu?). Ég kem að því, hæstv. ráðh. Í fyrsta lagi er það, að hæstv. ráðh. er búinn að reikna það undir eins út, að þessi tekjurýrnun muni verða 3½ millj. En flest af því, sem hann taldi, eru alveg óákveðnar fjárhæðir. Og þar að auki er það byggt á algerðum misskilningi. T. d. kallaði hann það gróða í öðru orðinu, en tekjurýrnun í hinu orðinu, að taka lán til verksmiðju á Raufarhöfn. (Fjmrh.: Ég nefndi þetta ekki á nafn). Það er dálítið einkennilegt, — en vera má, að það hafi verið annar ræðumaður, og bið ég þá afsökunar. En hæstv. ráðh. nefndi tekjur bæjar- og sveitarfélaga, og skal ég þá taka það, sem ég skrifaði áreiðanlega eftir honum. Hæstv. ráðh. er kunnugt, að það verður að bæta úr þessari tekjuþörf bæjanna. Og frv., sem sjálfstæðismenn í Ed. flytja, er ekki um neitt annað en það, hvernig skuli skipta tekjustofnum milli ríkis og bæjar- og sveitarfélaga. Það er ekki talað þar um neinar sérstakar nýjar álögur á þjóðina, — það er fjarri því. Nú er það víst, að stj. er að undirbúa nýjar tollaálögur. Það er líka vitað, að bæjarfélögin og talsmenn þeirra hafa verið með á prjónunum undanfarin ár og nú sérstök frv. um auknar tekjur bæjanna með tollum, innflutningsgjöldum, vörugjöldum og gjöldum á það, sem út er flutt frá hverjum stað. Ég get nú ekki séð, að það sé nein tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, þó að bæjar- og sveitarfélög falli frá því að vera hluttakar í tollaálagningu, gegn því að fá eitthvað meira af þeim sköttum, sem heimtir eru inn beint á hverjum stað. Hæstv. ráðh. hefir sýnilega misskilið frv. Hann skilur það svo, að það fari fram á nýjar álögur.

Þá nefndi hæstv. ráðh. hraðfrystihús. Eftir frv. á að styrkja hraðfrystihús með einum fjórða af byggingarkostnaði. Það liggur ekki fyrir neitt um það, hvað mikið byggt verður af hraðfrystihúsum. En þau eru nú þegar á mjög mörgum stöðum, flestum stærstu kaupstöðum og þorpum á landinu. Þess vegna er óhugsandi, að þessi hús verði sett upp nema í nokkrum verstöðvum. Og vitanlega er það alltaf á valdi fjármálastj. að hafa hóf á því, hvað mörg frystihús njóta styrks árlega. En útreikning á þeirri fjárhæð er ekki hægt að gera nú, og þegar hæstv. ráðh. nefnir ákveðna tölu, þá er það ekkert annað en slagorð. Alveg sama er að segja um það, sem hæstv. ráðh. sagði um niðursuðuverksmiðjuna; það er engin leið að segja um, hvað mikið fé þar er um að ræða.

En ég skal játa, að það er galli á þessu frv., að það er ekki hægt að gera þessa áætlun, sem þó er alveg nauðsynlegt að hafa. En því verður að bjarga á þann hátt, að fjárveitingavaldið verður sjálft að sjá sér farborða með því að veita ekki þessa styrki nema til hæfilega margra og hæfilega stórra verksmiðja á hverju ári. Hinsvegar býst ég við því, að þar sem þessi iðnaður er á tilraunastigi, þá myndu þeir, sem byggja verksmiðjurnar, fara ákaflega varlega. Það er ekki líklegt annað en að flestir vildu biða eftir að sjá gerðar tilraunir og hversu arðvænlegar þær reyndust. Og það er eingöngu af þessu, að farið er fram á styrk, að þessi rekstur hlýtur um stund að verða á tilraunastigi. En vitanlega hverfur styrkurinn úr sögunni undir eins og það er sýnt, að þetta er annaðhvort vitleysa sem menn geta ekki haldið lengra út i, eða þá svo arðvænlegur atvinnurekstur, að ekki þarf styrks með.

Ég held þess vegna, að það sé ekki rétt að mikla fyrir sér svo mjög, hvað þetta yrðu óskapleg útgjöld fyrir ríkissjóð. Mér þykir líklegt, að svo fari eftir örstuttan tíma, þegar risnar eru 2–3 verksmiðjur, þá sýni þessi atvinnurekstur sig að vera svo arðvænlegur, að engin ástæða verði til að styrkja hann með beinum fjárframlögum. En ef til vill þá með öðrum atbeina, svo sem þeim, að hjálpi honum til að fá lánsfé.

Þá eru þau almennu ummæli sem hæstv. ráðh. hafði um útgjaldatillögur Sjálfstfl., sem mér þótti alveg óviðeigandi, að maður í hans stöðu skyldi flytja í Alþingi, þó að margir hinna lélegri manna flokksins hefðu ekki haft neina smán af því. Það er undarlegt, ef hæstv. fjmrh. landsins veit ekki, til hvers Alþingi er fyrst og fremst haldið og kallað saman. Það er fyrst og fremst kallað saman til þess að sjá farborða fjármálum ríkisins. Og það er ákaflega undarlegt, að maður í þessari stöðu skuli vera svo blindur af þeirri flokksfávísi, sem einkennir Framsfl., að halda, að Sjálfstfl. eigi ekki að eiga neina till. um það, hvernig því fé er varið, sem ríkissjóður sér sér fært að innheimta. Till. sjálfstæðismanna, eins og allra þm. yfirleitt, ber fyrst og fremst að skoða sem þeirra till. um það, hvernig fé ríkissjóðs skuli varið. Og það er merkilegt, ef fulltrúar nærfellt helmings þjóðarinnar hefðu engar till. að gera um það mál. Það er allt of heimskulegt til þess, að ég ætli ráðh. að halda slíku fram, að allar till. um, hvernig ríkisfé sé varið, séu till. um ný útgjöld. Það er ekkert annað en smitun frá lakar gefnum mönnum í flokknum, að hann slær svona firna heimsku fram hér á þingi. Sjálfstæðismenn hafa lagt mikið til þeirra mála, hvað yfir höfuð þingið ætti að sjá sér fært að innheimta mikið af skattborgurunum. Og þeir hafa verið ósamþykkir framsóknarmönnum og hinum sósíalistunum í Alþfl., hvað fært er að leggja miklar álögur á þjóðina. En þegar búið er að leggja þessar álögur á og áætla féð, þá telja þeir sér skylt og rétt að eiga sinn hlut í tillögum um það, hvernig þessu fé skuli varið. Það er nú eðlilegur hlutur, að hver þingfulltrúi hafi fyrst og fremst í huga þörf þess héraðs, sem hann er fulltrúi fyrir. Ég fyrir mitt leyti hefi aldrei hneyklazt, þó að menn úr andstöðuflokkum okkar sjálfstæðismanna beri fram talsverðar útgjaldatillögur fyrir sín kjördæmi. Þegar ekki gengur mjög fram úr hófi, þá þykir mér eðlilegt, að þeir óski eftir, að fyrst sé sinnt þörfum síns kjördæmis. Þetta finnst mér jafneðlilegt um okkur sjálfstæðismenn, að við viljum ekki láta okkar kjördæmi alveg gleymast. Ég tek það fram, að stundum keyrir mjög fram úr hófi hlutdrægni stjórnarflokkanna í þessari úthlutun. En mér finnst sú hlutdrægni dálítið afsakanleg, af því að menn eru að draga taum þess sérstaka kjördæmis, sem hefir kosið þá, þar sem þeir þekkja máske þörfina bezt. En hitt eru undur, eins og ég sagði áðan, að nokkur þm. skuli láta sér geta dottið í hug að telja allar slíkar till. vera till. um aukin útgjöld ríkissjóðs. Slíkt er heimskra manna háttur, að leggja málið þannig út. Þegar verið að ræða till. um útgjöld ríkissjóðs, þá er ætið miðað við, að ríkissjóður geti risið undir þeim. Að vísu eru sumar þessar till. þannig vaxnar, að vegna þeirra getur orðið að láta eitthvað bíða að sinna þörfum annara svo sem 1–2 ár. En það er engan veginn meint þannig, að menn ætlist til nýrra álagna á þjóðina vegna þessara till. Hæstv. ráðh. kallaði það skrípaleik hjá sjálfstæðismönnum að bera fram frv., sem hefði í för með sér útgjöld. Það út af fyrir sig er enginn skrípaleikur. En hitt held ég, að nálgist mjög skrípaleik, þessi málflutningur stjórnarsinna, sem ég var að lýsa og hæstv. ráðh. lét sér sæma að taka upp, — þegar því er haldið fram, að Sjálfstfl., sem styðst við mest kjósendafylgi allra flokka í landinu, hafi ekki siðferðislegan rétt til að gera neinar till. um, hvernig því fé er varið, sem heimtað er af þjóðinni og að nokkru leyti má kalla blóðpeninga.