26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (1743)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

*Einar Olgeirsson:

Ég hefi sitt hvað að athuga við ræðu hv. þm. G.-K. Hann talaði mikið um afstöðu okkar kommúnista til þessa frv., og þótti það koma úr hörðustu átt, að við skyldum mótmæla till. sjálfstæðismanna á þeim grundvelli, að þær yrðu til að minnka tekjur ríkissjóðs og auka útgjöld hans. Fyrst umr. hafa snúizt inn á þá braut að fara að ræða stefnumál almennt, þá vona ég, að hæstv. forseti misvirði það ekki, að ég haldi áfram í sama dúr.

Mér þykir ekki nema eðlilegt. að hv. sjálfstæðismönnum bregði í brún, þegar þeir fá með okkur að gera hér á Alþ. og verða að hverfa frá þeirri skrípamynd, sem þeir hafa gert sér af kommúnistum. Í skrifum og ræðum þessara manna hefir okkur verið lýst sem mönnum, er allt vildu rífa niður milli himins og jarðar og gengju með hnífinn milli tannanna í öllum opinberum málum. Ég furða mig því ekkert á því, þótt hv. þm. G.-K. finnist, að við höfum snúizt — frá þessari hugmynd hans og Morgunblaðsins.

Sjálfstæðismenn eru að reyna að halda því fram hér, að þeir séu hinir einu sönnu verjendur lýðræðisins, og einkum séu þeir sérfræðingar í því að verja íslenzkt sjálfstæði, engir hafi aðra eins ábyrgðartilfinningu gagnvart ríkissjóðnum o. s. frv. Í öllu þessu vilja þeir halda fram, að þeir séu á eins öndverðum meið við okkur kommúnista og hægt er. Þeim er því ekkert vel við það, að við skulum nú fá tækifæri til að sýna það og sanna, að þarna er öllu snúið öfugt. Hvað eftir annað á undanförnum árum höfum við séð þess dæmi, að sjálfstæðishetjurnar taka afstöðu gegn lýðræðinu, utan lands og innan. Hvað eftir annað sjáum við, að þeir bera fram á þingi þau ábyrgðarlausustu frv., sem sézt hafa, einungis í lýðskrumsskyni. Hver hefir svo afstaða okkar kommúnistanna verið? Við höfum skilyrðislaust tekið afstöðu með lýðræðinu, utan lands og innan. Við höfum að vísu borið fram tillögur um aukin útgjöld úr ríkissjóði, til ráðstafana, er bætt geti hag alþýðunnar í landinu. En við höfum jafnframt sýnt fram á það, hvar eigi að taka féð. Þessi er mismunurinn á afstöðu sjálfstæðismanna og kommúnista til þjóðþrifamála.

Kommfl. allra landa taka ákveðna afstöðu með lýðræðinu og leggja mikið í sölurnar til að vernda það og endurbæta. Þetta sést greinilega, ef tekin eru dæmi frá þeim löndum, þar sem þróunin er komin lengra en hér á Íslandi, svo sem á Spáni. Þar eru það vinir hv. þm. G.-K., þeir sömu, sem hann hafði með að gera þegar hann var að tolla íslenzka smáútvegsmenn og sjómenn um milljónir króna í mútur handa þessum spönsku vinum, sem gert hafa vopnaða uppreisn gegn hinni löglega kosnu lýðræðisstjórn Spánar. Kommúnistarnir spönsku standa nú í þessari ríkisstjórn og berjast upp á líf og dauða við fasismann, sem er að reyna að tortíma lýðræðinu á Spáni. Það situr því sízt á þessum herrum, eins og hv. þm. G.-K., að bregða kommúnistum um ábyrgðarleysi gagnvart lýðræðinu.

Hv. þm. G.-K. hefði átt að snúa örvum sínum annað, er hann talar um snarsnúning á þingi. Hann hefði átt að vitna í þann fulltrúa Sjálfstfl., sem talaði hér, þegar fjárl. voru til umr., og býsnaðist yfir því, hvað fjárlfrv. væri óskaplega hátt, að hver fjárl. væru öðrum hærri í tíð núv. stj. og að allt væri að fara á höfuðið. Og svo koma þeir nokkrum dögum seinna með till. um að bæta 4 millj. við útgjöldin. Þetta er að snúast, ef það er þá ekki sá háttur að hafa tvö andlit eða fleiri. Ég vil skora á hv. form. Sjálfstfl. að segja álit sitt á því, hvort t. d. Jón Þorláksson, sem áður var form. flokksins, hefði leyft sér slíka framkomu á þingi. Ef hann svaraði þessu rétt, kæmi bezt fram breyting sú, sem orðið hefir á þessum stjórnmálaflokki í seinni tíð.

Hv. þm. sagði, að ég hefði haldið því fram, að engin leið væri til að framkvæma þessi mál, er þeir sjálfstæðismennirnir koma fram með. En ég sagði, að ef þingið samþ. öll þessi frv. þeirra, eins og þeir leggja þau fram, þá yrði ríkið gjaldþrota á skömmum tíma. En því fer fjarri, að ég hafi enga leið talið færa til að koma þessum málum fram. Ég benti honum á þá leið, að minnka tapið á sjávarútveginum með því að tryggja, að fiskimenn gætu fengið vörur sínar milliliðalaust, á kostnað hringanna. Ég spurði hann, hvort hann þyrði að vera með í því að skerða auð og gróða hringanna og verzlunarauðvaldsins, til þess að bæta með því kjör fiskimanna og smáútvegsmanna. Hann svaraði þessu ekki, en kom í þess stað með heimspekilegar hugleiðingar um, að undarleg væri náttúra kommúnistanna, þeir vildu ekki bæta hag neinnar stéttar öðruvísi en með því að þrengja kjör annarar. Þetta fannst honum illt innræti. Það er eins og fulltrúar Sjálfstfl. séu farnir að ganga með þá hugmynd, að allt sé hægt að gera án þess að það kosti nokkurn nokkuð. En slíkt styðst auðvitað ekki við veruleikann. Svo að ég taki dæmi: Hv. þm. G.-K. talaði um olíuokrið. En ef olían á að lækka í verði, eins og orðið getur, ef smáútvegsmenn fá sjálfir að flytja inn olíu sína, þá þýðir það, að gróði olíuhringanna minnkar; þá eru kjör smáútvegsmanna bætt á kostnað hringanna. Þannig er á öllum sviðum, og er þetta einfalt mál. Ef létta á hinum þunga skatti einokunarhringanna af smáútvegsmönnum, þá verður það að vera á kostnað þessara hringa. Að vísu viðurkenni ég, að nokkuð má gera til þess, að þetta komi ekki eingöngu fram sem minnkandi gróði þessara fyrirtækja. Hringarnir geta t. d. tekið upp ódýrari rekstur og sparað þannig nokkuð af útgjöldum sínum. En það er þeirra mál.

En kenning hv. þm. G.-K. um, að hægt sé að koma fram öllum frv. flokks hans, svo að segja án þess að það kosti nokkurn nokkuð, er ekki annað en villukenning, til þess ætluð að breiða yfir sannleikann, sem er sá, að sjálfstæðismenn hugsa sér, að ef þetta kæmist allt í framkvæmd. þá yrði ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að fjárl. yrðu ekki samþ. með tekjuhalla, að hún yrði því að leggja á almenning hærri tolla og og þannig yrðu þessir peningar teknir. Peningana verður sem sé annaðhvort að taka hjá þeim ríku eða alþýðunni. Sjálfstfl. vill ekki láta taka peningana hjá þeim ríku. En hann vill líka komast hjá því að þurfa að bera fram frumvörp um, að þá skuli taka hjá alþýðunni, því að hann vili spila sig sem mikinn alþýðuvin um þessar mundir. Sjálfstfl. vill, að hæstv. fjmrh. taki að sér að bera fram þessi frv. um auknar skatta- og tollaálögur og taki á sig óvinsældir af því. Svo gætu sjálfstæðismenn sagt við þjóðina: Allt þetta gáfum við ykkur, og svo tekur fjmrh. allt aftur með tollum.

Hv. þm. sagði að síðustu, að okkur kommúnistum farist sízt að tala um, að sjálfstæðismenn gerðu miklar kröfur, okkur, sem aldrei hefðum gert annað en að bera fram óhóflegar kröfur. Þessar ásakanir hafa frá upphafl verið bornar á verkalýðshreyfinguna, að hún gerði miklar kröfur. Það er því rétt að athuga það, hverjir gera mestar kröfurnar í þessu þjóðfélagi. Verkamennirnir eru það ekki, — það er víst. Verkamennirnir hafa ekki gert kröfur um að fá að búa í finu „villunum“, sem hér hafa verið reistar, þeir hafa ekki krafizt 20 þús. kr. í árslaun, eins og forstjórar fisksölusamlagsins. Það eru ekki verkamennirnir, sem nú eru að sliga þjóðfélagið með óhóflegum kröfum sínum, heldur þeir mennirnir, sem hv. þm. G.-K. ætti bezt að þekkja, menn eins og heildsalarnir, húsaleiguokrararnir, hálaunamennirnir hjá sölusamlaginu, hringunum og bönkunum, þessir menn, sem eru að sliga verkamannastéttina og þjóðfélagið í heild sinni með sínum óhóflegu kröfum. Áður en þessir menn fara að tala um óhóflegar kröfur annara, ættu þeir að stinga hendinni í sinn eiginn barm, því að það eru þeir, sem sumir hverjir hafa upp undir 96 þús. kr. árstekjur, eftir því, sem þeir gefa upp sjálfir. Kröfurnar gera ekki verkamennirnir og sjómennirnir, sem hætta lífi sínu til þess að framleiða verðmætin handa yfirstétt þessa lands. Þeir krefjast yfirleitt ekki annars en að fá að vinna, til þess að geta haldið í sér lífinu. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar hinir fara að tala um, að þessir menn geri óhóflegar kröfur.