26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (1745)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

*Flm. (Ólafur Thors):

Eg mun stytta mál mitt, því að framorðið er, enda þótt ég hafi ástæðu til að svara mörgu, sem fram hefir komið.

Hv. þm. Ísaf. kvaðst ekki ætla að taka þátt í lýðskrumssamkeppni milli hv. 5. þm. Reykv. og mín. Ég gall þá fram í og endurtek hér það, sem ég sagði, að það væri illa farið, ef stofnað skyldi til lýðskrumssamkeppni, að hv. þm. Ísaf. tæki ekki þátt í henni. Það var hérna á árunum, að Skagfirðingar og Þingeyingar, sem báðir eru allmikið á lofti, kepptu um það, hvorir væru montnari. En dómnefndin veitti verðlaunin Siglfirðingum, sem ekki tóku þátt í keppninni. Eins hygg ég, að fara myndi hér, að hv. þm. Ísaf. myndi fá verðlaunin, enda þótt hann keppti ekki.

Ég skal ekki fjölyrða um lofsöng hv. þm. fyrir minni fiskimálan. Hann gerir það í gustukaskyni við þá auðnulausu n. og í annan stað til þess að kveikja hér á Alþingi og í blöðunum deilur um hana, því að hann langar til að leiða athyglina frá öðrum deilum, ádeilunum á fyrirtæki það, sem hann hefir veitt forstöðu. því að endemi fiskimálan. hverfa alveg í samanburði við þær hrakfarir, sem hagur þjóðarinnar hefir farið fyrir stj. hans á síldarmálunum. Ég hefi ekki í höndum gögn til að hrekja tölur þær, sem hann nefndi til um afrek fiskimálan. En þó að fluttar hafi verið út vörur fyrir allt að 2 millj. kr., sem á einhvern hátt má klína í samband við fiskimálan., vil ég minna á. að sá aðdráttur er ekki nema litill hluti þess, sem farið hefði forgörðum, ef hann og hans nótar hefðu ráðið og fengið því framgengt, að hindruð yrði bygging síldarverksmiðju á Hjalteyri. Hv. þm. má gjarnan hæla sér af því, sem aðrir draga í búið, en fiskimálan. setur svo stimpil sinn á. Þær upphæðir, sem hann nefndi, nema ekki samanlagt því, sem þessi eina verksmiðja hefir framleitt þetta eina ár. Og það hefði ekki annað þurft til að færa það allt í kaf en að hindra byggingu verksmiðjunnar, elns og hann vildi. Deili ég svo ekki frekar við þennan hv. þm.

Þá kem ég að hv. 5. þm. Reykv. Hann deildi á okkur sjálfstæðismenn fyrir það, að við værum einræðisflokkur og berðumst á móti lýðræðinu. Það er nú sagt, að gott sé að hafa tungur tvær, en ég held, að hv. þm. hafi þrjár. Annars fannst mér þriðjungur af ræðu hans vera eftir hæstv. fjmrh., þriðjungur eftir sjálfan mig, en þriðjungur venjulegt kommúnistaslúður.

Ég skal benda á, hvað það var, sem fjmrh. hafði kennt honum og hvað ég sjálfur hafði kennt honum. Ég vil segja hv. þm., að það eru aðrir flokkar hér á þinginu en Sjálfstfl., sem hafa með framferði sínu tekið á sig nokkra ábyrgð af því, að menn kunni að hafa misst nokkuð trúna á lýðræðið. Núv. stjórnarflokkar hafa gert sig mjög seka í því að stofna lýðræðinu í hættu. Það er ekki eðli lýðræðisþings, að stjórnarflokkarnir hér á Alþ., sem allt síðasta kjörtímabil fóru með umboð færri kjósenda en Sjálfstfl. og Bændafl. hér á þingi, skyldu ekkert tækifæri láta ónotað til þess að láta okkur, umbjóðendur meiri hl. kjósenda, ef miðað er við flokkana, sem þá voru á þinginu, finna, að við hefðum engin völd á þinginu. Þetta er móðgun við lýðræðið. Ef nokkra þingflokka á að ásaka fyrir að vilja, vilandi vits, troða niður hina eiginlegu hugsjón þingræðisins, þá eru það stjórnarflokkarnir, en ekki Sjálfstfl. En auk þessa hefir þinginu nú bætzt sá flokkur, sem allir vita, að er ekki annað en verkfæri í höndum þess manns, sem minnst metur lýðræðið allra þeirra einræðisherra, sem við vitum um. Það er kunnugt, að það er réttmætt, sem hv. 3. þm. Reykv. og aðrir hans flokksbræður héldu fram fyrir kosningar, að kommúnistar eru ekki annað en umboðsmenn Stalins, hvort sem þeir eru á Íslandi eða annarsstaðar. Form. Kommfl. Íslands er nýkominn af göngu til sinnar Jerúsalem til þess þar að leita samþykkis síns meistara um það, hvort hann mætti ganga inn á samninga, sem þá stóðu yfir milli Alþfl. og Kommfl. Þetta er vitað, og kommúnistar hafa líka játað, að þeir séu ekki aðeins undir beinum og ótvíræðum áhrifum, heldur hlýði þeir beinlínis valdboði síns yfirmanns í Moskva. Ég þarf því ekki að taka á móti aðdróttun í garð okkar sjálfstæðismanna um það, að við séum andvígir 1ýðræðinu, hvorki í orðum, verki eða hugsun. Ég tek ekki heldur á móti þeirri aðdróttun, að það sé lýðræðisskrum hjá Sjálfstfl., þegar hann bendir á, að eins og nú sé háttað högum bænda, þá sé hin mesta nauðsyn víða í sveitum á því, að hið opinbera veiti nokkurn styrk til þess að endurreisa sveitabýlin. Þessi mikli mannvinur, hv. 5. þm. Reykv. — og ég efast ekki um, að hann sé góður maður í venjulegum skilningi þess orðs — mun sjá, ef hann fer um sveitir landsins, að það er rík þörf á, að hið opinbera veiti hjálp til þess að hlúa að landinu, svo það skáni frá því, sem nú er. Ef hann álítur, að slík þörf sé fyrir hendi, þá má hann ekki heldur ganga út frá því, að stærsti stjórnmálaflokkur landsins beri fram frv. eingöngu til þess að sýnast. Hann má ekki heldur leyfa sér að ganga út frá því, að Sjálfstfl. meini það ekki, þegar hann ber fram hagnýtar till. til úrbóta í atvinnumálum þjóðarinnar, þegar liggur svo að segja við hruni að því er atvinnuvegi þjóðarinnar snertir. Hv. þm. hefir enga þá þekkingu á hugarfari sjálfstæðismanna til þess að hann megi leyfa sér að bera fram slíkar ásakanir, að þetta sé einungis gert til þess að sýnast. Hann veit, að fullur hugur fylgir þessum málum hjá okkur sjálfstæðismönnum. Ég skal ekki heldur efast um, að hann telji, að ýmsar sínar till. muni verða til mikillar blessunar, þó að ég fyrir mitt leyti telji, að þær muni verða til bölvunar. Við þurfum ekki endilega að álíta, að allt sé fíflaháttur hvor hjá öðrum, þó við stöndum á öndverðum meiði í stjórnmálum. Till. okkar sjálfstæðismanna um styrkveitingu til frystihúsa, niðursuðuverksmiðja, styrk til bæjar- og sveitarfélaga og landhelgissjóðs eru allar byggðar á viðurkenndri þörf þjóðfélagsins. Ádeila hv. þm. á okkur sjálfstæðismenn fyrir lýðskrum var byggð á þeirri ræðu, sem hæstv. fjmrh. hélt í gær. En það er ekki leiðinlegt fyrir okkur sjálfstæðismenn, sem legið höfum undir því ámæli, að við værum kyrrstöðuflokkur, sem aldrei bæri neitt fram til almenningsheilla, sem borið hefir misjafnlega mikinn árangur, eftir því hvað góðar ástæður kjósendur hafa haft til þess að fylgjast með, ádeila, sem fallið hefir í dauðan jarðveg í Reykjavík, en í frjórri jarðveg þar, sem menn síður geta fylgzt með málunum, að þeir kjósendur, sem fyrst lögðu trúnað á þessa ádeilu, mega nú víðurkenna, að þetta sé ekki rétt. En kommúnistar gera bara kröfur og reyna að hengja sig á vinsæl mál til þess að ná lýðhylli.

En ég vil segja hæstv. fjmrh., að á meðan hann sjálfur ber fram tekjuhallafrv. með 900 þús. kr. tekjuhalla — því hann hefir játað, að honum hafi láðst að færa til útgjalda á fjárl. það, sem þó þarf til viðréttingar sjávarútveginum, og auk þess koma svo till. einstakra þm —, þá situr ekki á honum að áminna aðra um að gæta varúðar. Ef það er nokkur maður í landinn, sem ber rík skylda til þess að gæta varúðar, þá er það fjmrh., hver svo sem hann er. En ég neita því með rökum, að við sjálfstæðismenn séum samábyrgir fjmrh. í þessu. Það sést bezt, ef menn sundurliða þær tölur, sem hæstv. ráðh. notaði til ádeilu á Sjálfstfl. Hæstv. ráðh. sagði, að við sjálfstæðismenn berum fram frv., sem hafi í för með sér yfir 3 millj. kr. útgjöld, án þess að við komum jafnframt með till. um niðurskurð á fjárl. eða um nýja skatta eða tolla til þess að jafna þetta. Þessar 3–4 millj. fær hæstv. ráðh. þannig, að hann áætlar 100 þús. kr. vegna frv. um styrk til frystihúsa, 100 þús. kr. vegna frv. um styrk til niðursuðu, 100 þús. kr. vegna frv. um byggingarsjóð sveitanna, ennfremur niðurfellingu útflutningsgjalds 600 þús. kr. og vegna frv. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga 2 millj. og 300 þús. kr. Þegar eðli þessa máls er athugað, þá er þörf bæjar- og sveitarfélaga svo rík, að allir flokkar hafa viðurkennt hana. Mþn. var skipuð í því máli af stj., og lagði hún einróma til, að lagðir væru 2 nýir skattar til þess að bæta úr þessari þörf. Allir flokkar lögðu þetta til, og er Framsfl. þar ekki undanskilinn, en frá honum var í n. Bernharð Stefánsson. Formaður bankaráðsins, sem er mikilsmetinn framsóknarmaður, hefir einnig skrifað um það, að lagðar væru á nýjar álögur í þessu efni. Það er því ekki deilt um það, hvort afla eigi bæjar- og sveitarfélögum nýrra tekna, heldur hvernig eigi að taka þær tekjur. Það er ágreiningur um, hvort það eigi, eins og við sjálfstæðismenn leggjum til, að taka nokkurn hluta af þeim tekjum, sem nú renna í ríkissjóð, og þá ef til vill að bæta ríkissjóði það á annan hátt, eða hvort á að gera það eins og umboðsmaður Framsfl. í mþn. og form. bankaráðsins hafa lagt til, að leggja nýja tolla á nauðsynjar almennings. Ég álít, að hagfelldasta leiðin í þessu efni sé að deila hinum beinu sköttum ríkissjóðs, en láta ekki bæjar- og sveitarfélögin fara inn á að tolla nauðsynjar almennings. Það liggur í augum uppi, að það styðst við engin tök, að leggja ábyrgðina af þessum væntanlega tekjuhalla á herðar sjálfstæðismönnum. Hitt liggur nær að athuga, hver beri ábyrgð á þeirri tekjuþörf, sem veldur því, að nýja skatta þarf að leggja á, en ábyrgð á henni bera fyrst og fremst núv. stjórnarflokkar, sem með nýrri löggjöf seinni ára hafa gengið inn á þá braut, að leggja nýjar kvaðir á bæjar- og sveitarfélögin. Það eru núv. stjórnarflokkar, sem þessa löggjöf hafa sett, sem eiga fyrst og fremst að taka á sig ábyrgðina. Þessar 2 millj. og 300 þús. kr. geta því ekki skrifazt á reikning okkar sjálfstæðismanna. Það má segja, að samkv. eðli málsins eigi þessi upphæð að bætast við þann tekjuhalla, sem þegar er á fjárlfrv., og þá mun láta nærri, að tekjuhallinn á fjárlfrv. sé orðinn á 5. millj. kr. Vill hæstv. fjmrh. nú svara til sakar um það, hvernig standi á því, að hann skuli hafa djörfung til þess að bera fram slíkt frv. án þess að gera nokkra grein fyrir því, hvaða skatta hann ætli að leggja á til þess að ná jöfnuði á frv.?

Ég skal ekki endurtaka það, sem ég hefi áður sagt í ræðu um þetta mál. Það skal ég þó endurtaka, að það er auðleystur vandi að fara að till. okkar sjálfstæðismanna, án þess að baka ríkissjóði óþarfa framlög til frystihúsa, niðursuðuverksmiðja og vegna afnáms útflutningsgjalds af sjávarafurðum. Ef farið er að ráðum okkar sjálfstæðismanna og létt undir með framleiðslunni, þá er þessi vandi auðleystur.

Ég hefi þá lokið við að svara þeim kaflanum í ræðu hv. 5. þm. Reykv., sem ég taldi, að hann hefði lært af fjmrh. Þá ætla ég að minnast á þann kafla, sem hann lærði af mér. Hann byrjaði á fyrirspurn til mín um það, hvort ég þyrði að vera með í því að láta minni útgerðarmenn fá gjaldeyri. Hann sagði, að ég myndi ekki þora að svara sér, kjarklaus eins og ég væri. Hann flutti hina prýðilegustu ræðu um það, hver nauðsyn væri á því, að útgerðarmenn fengju gjaldeyri til umráða. En þetta var bara sama ræðan og ég flutti í fyrra sem flm. að frv. um það, að minni og stærri útgerðarmenn fái að nota þann gjaldeyri, sem þeir fá fyrir vöru sína, sjálfum sér til handa, svo þeir geti notað sér þann verðmun, sem kemur fram við það, að þeir fái sjálfir að kaupa sínar vörur, en þurfi ekki að láta hann til annara.

Þetta var skynsamlegasti parturinn af ræðu hv. þm., og þar getum við verið sammála. Hv. þm. spurði mig, hvort ég héldi, að fyrrv. foringi Sjálfstfl., Jón heitinn Þorláksson, hefði leyft sér að bera fram slík mál. Hann sagði, að það væri áreiðanlega mjög mikil óánægja út af því, að við værum búnir að svíkja hans pólitík. Ég þori nú ekki að taka á mig ábyrgðina af því að segja til um það, hvort Jón heitinn Þorláksson myndi geta fallizt á allt, sem þingflokkur sjálfstæðismanna gerir nú. Hitt þykist ég mega fullyrða, að við, sem um mörg ár unnum með Jóni heitnum Þorlákssyni, vorum ekki aðeins ánægðir með þær aths., sem hann gerði við störf okkar, heldur fundum, að það, sem batt okkur við stefnu hans, var, hvað við höfðum svipaðar lífsskoðanir og hann. En um það, hvernig sjálfstæðismenn utan þings líta á okkur í sambandi við stjórnmálastefnu Jóns heitins Þorlákssonar, þá vil ég segja, að á meðan hann lifði, þá réði hann meira um till. þingflokksins en nokkur annar, þó hann væri farinn af þingi. Þetta vissu allir. Hvernig þetta hefir verið síðan hann féll frá, ber mér ekki að dæma um. En kosningarnar síðustu benda í þá átt, að menn séu yfirleitt ánægðir með það, hvernig við, sem nú höfum forystu Sjálfstfl., fetum í fótspor Jóns heitins Þorlákssonar, því aldrei hefir Sjálfstfl. fengið annað eins fylgi og við síðustu kosningar, þegar hann fékk einn 56% af öllum kjósendum í höfuðstað landsins. Það, sem hv. þm. sagði um óánægju kjósenda Sjálfstfl., getur því tæplega verið rétt.

Ég skal svo að lokum segja, að það er rétt hjá hv. þm., að það eru ekki verkamennirnir í þjóðfélaginu, sem fyrst og fremst gera kröfur, það eru aðrir, sem gera meiri kröfur en þeir. Það er einnig rétt, að það eru ekki verkamennirnir, sem bera fram þær kröfur, að verkakaupið í landinu sé ofviða framleiðslunni. Þeir gera það ekki vegna þess, að þeir vita, að það bitnar fyrr eða síðar á þeim sjálfum. Það eru miklu fremur menn eins og forstjórar, eins og t. d. hv. þm. er, hvort sem það eru nú menn í síldareinkasölu með 12 þús. kr. launum, eins og hann var, eða forstjórar í S. Í. F. með 15 þús. kr. launum, eins og hann var að vitna í. Það eru slíkir menn, sem bera meira úr býtum en verkalýðurinn. Ég vil biðja hann að minnast þess, þegar hann talar um hálaunamenn, að þá er hann að minna á sína eigin fortíð.

Ég skal svo láta staðar numið hér, þó mörg tilefni séu til að segja meira.