27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (1748)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

Finnur Jónsson:

Herra forseti! Þessar umr. hafa snúizt mjög á við og dreif, og sérstaklega var rætt um það á milli hv. þm. G.-K. og hv. 5. þm. Reykv. í gær, hvor þeirra væri meiri lýðræðissinni. Ég skal á engan hátt blanda mér í þær umr. En það er satt að segja dálítið kátbroslegt að heyra hv. þm. G.-K. vera að reyna að slá um sig með því hér á Alþingi, að hann sé mikill lýðræðissinni, því eins og alkunnugt er, komst þessi hv. þm. einu sinni í ráðherrastól um lítinn tíma, og eitt af hans aðalverkum þessa fáu daga, sem hann var ráðh., var að láta smíða 400 svartar eikarkylfur með leðuról í, til þess að berja á atvinnuleysingjum hér í Reykjavík, sem bæjarstjórn ætlaði að níðast á með því að lækka kaupið hjá. Þetta er það eina skipti, sem þessi hv. þm. hefir verulega fengið tækifæri til að sýna sinn lýðræðisvilja í verki.

Hv. þm. G.-K. hélt því fram, að ég hefði minnzt á fiskimálan. sem heppilega til að hafa forgöngu um niðursuðu framvegis, eins og hún hefir þegar gert, til þess að leiða athygli frá einhverjum deilum um síldarútvegsn. En nú hafa engar slíkar deilur staðið í Alþingi. Að vísu hefir verið deilt um starf síldarútvegsnefndar utan þings. En ég þykist ekki hafa verið það verklítill í þeim deilum, að það þurfi að bera mér á brýn, að nokkuð hafi þar staðið upp á mig, þar sem ég m. a. hefi þurft að taka upp vörn fyrir þingkjörinn fulltrúa Sjálfstfl. í síldarútvegsn. Þá má vera, að hv. þm. G.-K. segi eins og stundum áður, að ég hafi hnýtt þessum fulltrúa Sjálfstfl. aftan í mig í síldarútvegsn. En ég get fullvissað hv. þm. um, að í síldarútvegsn. háttar þannig til, að hver nm. hefir starfað þar eftir beztu getu og samvizku. Það er fjarri því, að einn eða annar af nefndarmönnum í síldarútvegsnefnd hafi hnýtt hinum aftan í sig. Hitt er það, að hv. þm. G.-K. má vera þess minnugur, að það er búið að hnýta honum aftan í Sjálfstfl., og árangur þeirrar aftaníhnýtingar er sá, að Sjálfstfl., sem á fyrstu árum sínum virtist fylgja nokkurn veginn vissri stefnu, a. m. k. í orði kveðnu, þeirri stefnu að reyna að spara ríkisfé, reyna að hafa útgjöldin sem allra lægst og reyna að gera sem allra minnst, hann kemur nú fram með hverja till. annari meiri um að auka ríkisútgjöldin og um það að láta ríkið skipta sér af fleiri og fleiri þáttum atvinnunnar og um aukin útgjöld ríkissjóðs, þó að sjálfstæðismenn hafi að vísu ekki bent á neina tekjuöflunarleið til að vega upp á móti þessum gjöldum. M. ö. o., það, að búið er að hnýta hv. þm. G.-K. aftan í Sjálfstfl., virðist hafa haft sömu áhrif á flokkinn eins og ef hnýtt væri tómri blikkfötu aftan í fælinn hest. Sá fælni hestur myndi taka allskonar stökk í ofsahræðslu út í buskann, vitandi ekki hvert hann færi, og eins hefir farið með Sjálfstfl. síðan búið er að hnýta þessum hv. þm. aftan í hann.

Hv. þm. var að minnast á mátfarstoð atvinnulífsins. Hann er nú ein af þessum máttarstoðum atvinnulífsins sjálfur, og eins og allir vita, þá stendur sú máttarstoð þannig undir atvinnulífinu, að skuldir fyrirtækis hans við Landsbankann eru tvöfalt eða þrefalt meiri en allt stofnfé Landsbankans.

Mér þykir ekki ósennilegt, að hv. þm. standi nú hér á fætur og segi, að það muni þurfa að setja síldarútvegsn. undir eftirlit, og þá sennilega eitthvað svipað og það eftirlit, sem hans fyrirtæki var sett undir. Ég álít, að engin ástæða sé til, að slíkt eftirlit verði haft með síldarútvegsn., þar sem í n. starfa fyrst og fremst fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands, í öðru lagi fulltrúi kjörinn af útgerðarmönnum, og í þriðja lagi 3 fulltrúar þingkjörnir frá þremur stærstu flokkum þingsins. En það má vera, að eftirlitið, sem sett var á Kveldúlf, sé þannig komið á heila hv. þm., að hann álíti, að ekkert fyrirtæki geti starfað í landinu án þess, að yfir það sé settur alveg sérstakur eftirlitsmaður.

Hv. þm. er vitanlega nokkur vorkunn, þar sem hans framkvæmdir í sjávarútvegsmálum hafa nú borið þennan árangur.

Annars vildi ég benda hv. þm. G.-K. á það, að þær tölur, sem ég hefi hér undir höndum um framkvæmd fiskimálanna, eru ekki fyrir árið 1936, heldur fyrir árið 1937. Ég benti á það, að hraðfrysti fiskurinn, sem að mestöllu leyti er frystur í frystihúsum, sem fiskimálan. hefir sett á stofn eða veitt styrk til, myndi nema um 1 millj. 200 þús. króna, og að harðfiskur myndi verða um 600 þús. kr. Af rækjuniðursuðuvörum mun útflutningur nema um 200 þús. kr. Hv. þm. G.-K. getur gengið úr skugga um þetta með því að fá bráðabirgðayfirlit um útflutning, og upplýsingar að öðru leyti er hægt að fá hjá fiskimálan., hvað útflutt var af þessum vörum til ársloka. En ég held alveg fast við það, að eins og framkvæmdir fiskimálan. hafa verið, þá sé ekki nokkur ástæða til annars en láta n. hafa framkv. í þessu máli hér eftir eins mg hingað til.