27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (1751)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 1. flm. frv. mun nú hafa talað sig dauðan, og ætla ég því ekki að víkja mikið að ræðu hans. — Mér skildist það á hv. 6. þm. Reykv., að hann teldi öll þau útgjöld, er stjórnin setur á fjárlagafrv., vera til eyðslu, eða réttara sagt, til óþarfaeyðslu, en þau útgjöld, sem hann og flokksmenn hans ætlast til, að inn verði tekin, fari öll til eflingar einkaframtakinu. Þessu hefir verið svo rækilega mótmælt, að ekki er þörf á því að endurtaka það nú. En það er dálítið merkilegt, að hv. 1. þm. Reykv. skyldi fyrir nokkrum dögum skamma stjórnina óbótaskömmum fyrir fjárveitingar, sem margbúið er að sýna fram á, að eru sama eðlis og þær fjárveitingur, sem hv. þm. G.-K. leggur til, að upp verði teknar.

Hv. 1. flm. sagði, að ég hefði verið sáttfúsari í minni síðustu ræðu, viðvíkjandi þeim 2200000 kr., sem sjálfstæðismenn ætla að skenkja bæjar- og sveitarfélögum. En deilan um þetta atriði komst að sjálfsögðu yfir á annað stig, þegar hv. þm. var búinn að viðurkenna, að í stað þessara tveggja millj., sem ríkissjóður missti yrðu að koma nýir tollar og skattar. En það er fjarri því, að ég viðurkenni það sem eðlilega leið til að bæta úr vandræðum sveitar- og bæjarfélaga að reyta tekjustofnana af ríkissjóði. Enda liggur ekkert fyrir, sem sannar það, að þörf bæjar- og sveitarfélaganna sé sú, sem flm. frv. í hv. Ed. halda fram, að hún sé, þó að ég viðurkenni, að hún muni vera nokkur.

Annars kom hv. þm. G.-R. lítið inn á það, sem er aðalatriðið í þessu máli og hefir nú valdið því, að talsverðar umr. hafa um það spunnizt, en það er sú spurning, hvernig hægt sé að auka stórum útgjöld ríkissjóðs án þess að tekjurnar hækki að sama skapi. Mér fannst hv. þm. vera að hala inn það, sem hann hélt fram í fyrri ræðum sínum. Nú hélt hv. þm. því fram, að yrðu ráðstafanir þær, er till. sjálfstæðismanna fjallar um, framkvæmdar af kunnáttumönnum, þá yrðu þær áreiðanlega til blessunar. — Hv. þm. ætlar sýnilegu að hafa vaðið fyrir neðan sig og kenna þeim um, sem kæmu til með að framkvæma ráðstafanir sjálfstæðismannanna, ef þær reyndust illa. Annars er þetta tal um kunnáttumenn í þessu sambandi hreint og beint hlægilegt. Það þarf svo sem ekki neina smáræðis kunnáttu til þess að láta vera að innheimta útflutningsgjaldið!

Ég mun svo ekki orðlengja þetta frekar. Ég hefi sýnt fram á það, hve fáránleg kenning hv. þm. G.-K. er, að hægt sé að auka útgjöld ríkissjóðs að miklum mun án þess að ríkissjóðstekjurnar séu hækkaðar um leið, og samt að afgreiða tekjuhallans fjárlög. Ég vona, að ég hafi gengið svo frá þessari fráleitu kenningu, að hún stingi ekki framar upp kollinum.