27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (1755)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal ekki fara mikið út í málið, þar sem hv. flm. eru nú dauðir mjög. — Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að það væri eðlilegt, að Sjálfstfl. vildi vera með í því að ráðstafa þeim hluta af tekjum ríkissjóðs, sem ekki væri bundinn. Já, þetta getur verið nógu eðlilegt, en hv. þm. verður að athuga það, að eins og stendur eru allar tekjur ríkissjóðs bundnar. Það fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir þinginu, er lagt fram með tekjuhalla. Ef sjálfstæðismenn koma því fram með útgjaldatill., verða þeir jafnframt að sýna fram á, hverjir þeir liðir í fjárlagafrv. eru, sem víkja eigi fyrir þessum nýju útgjöldum, eða þá að koma með till. um nýjar tekjuöflunarleiðir.

Annars þótti mér vænt um, að hv. 6. þm. Reykv. skyldi bera mér vitni gegn röksemdum hv. þm. G.-K. — Hv. 6. þm. Reykv. tók það sama fram og ég hefi gert, að auðvitað kæmu þær tekjur, er leiddi af eflingu atvinnuveganna með slíkum útgjöldum, ekki strax. Þetta er hárrétt, og þetta hafa allir skilið nema hv. þm. G.-K., en hann hefir sagt það níu sinnum, að verði þessar útgjaldatill. sjálfstæðismanna samþ., þá muni tekjur ríkissjóðs stórum aukast, og það strax. En mér þykir vænt um, að við hv. 6. þm. Reykv. skulum vera sammála um það, að þessar auknu tekjur verði ekki látnar í askana á næsta ári.