30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (1760)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Það er í rauninni óþarft fyrir hv. frsm. minni hl. að kvarta undan því, að þessi mál hafi ekki verið rædd í d., því að í hvert skipti, sem minnzt hefir verið á eitthvað viðkomandi sjávarútveginum, hefir verið rætt hér um störf fiskimálan. og þann ágreining, sem er hér milli stjórnarflokkanna annarsvegar og Sjálfstfl. hinsvegar um það, hvernig haga skuli viðreisn sjávarútvegsins. Það er enginn ágreiningur um nauðsynina á að leggja fram fé úr ríkissjóði til viðreisnar sjávarútveginum, heldur aðeins um það, hvernig þessari viðreisn skuli hagað, hvort hún skuli lögð í hendur stj. S. Í. F., eins og sjálfstæðismenn vilja, eða þá í hendur fiskimálanefndar.

Nú er það svo um stj. S. Í. F., að hún er að því leyti skipuð svipað og fiskimálan., að þar sitja menn af öllum flokkum. Þó ber því ekki að neita, að S. Í. F. er ekki annað en sölufyrirtæki fyrir saltfisk og er ekki stofnað eða starfrækt til annars. Það væri því í hæsta máta óviðkunnanlegt, ef ætti að fela einstöku sölufyrirtæki, eins og stjórn S. Í. F. er, að fara með jafnmargbrotin mál og störf fiskimálan. eru og eiga eða vera. Ég mundi ekkert verr kunna við, að eitthvert annað sölufyrirtæki, t. d. S. Í. S., ætti að fara með þessi mál.

Hv. þm. Ak. var að kvarta um það, að allir pólitískir flokkar ættu fulltrúa í fiskimálanefnd, og gerði það að sínu höfuðárásarefni á þessa n., þar sem af því leiddi, að enginn einn flokkur bæri ábyrgð á gerðum n., er krefja mætti reikningsskapar á þeim. Var að skilja á hv. þm., að þetta mundi leiða til spillingar og niðurdreps í störfum fiskimálan. Má vel vera, að hv. 6. þm. Reykv. líti eins á þetta og hv. þm. Ak. og telji það skaða, að fiskimálan. skuli vera skipuð mönnum úr öllum pólitískum flokkum; en eins og störfum n. er nú háttað, þá tel ég þetta kost, og einmitt nokkra tryggingu fyrir því, að n. meti fyrst og fremst hagsmuni sjávarútvegsins meir en hagsmuni einstakra flokka, og meðan fulltrúar Sjálfstfl. í fiskimálanefnd vinna á þeim grundvelli að mestu og setja ekki hagsmuni síns flokks ofar hagsmunum sjávarútvegsins í heild. Ef hinsvegar þessir fulltrúar breyta um vinnuaðferð, sem ekki er ólíklegt, að kunni að verða, eftir því hvernig flokkurinn hagar sér gagnvart þeim mönnum, sem vinna meir að hagsmunum sjávarútvegsins heldur en flokksins, þá kann að verða nauðsynlegt að skipa n. eingöngu mönnum úr þeim flokkum, sem bera ábyrgð á stjórn landsins.

Hv. 6. þm. Reykv. tók það réttilega fram, að sjútvn. hefði ekki borizt sú umsögn fiskimálan. um þetta frv., sem við óskuðum eftir 12. þ. m., áður en sjútvn. afgreiddi frv., en tveim dögum síðar barst sjútvn. þessi umsögn fiskimálan., og hefi ég áður skýrt frá þeirri skoðun fiskimálan., að rétt sé, að niðursuðuverksmiðjur fái styrk af opinberu fé.

Hv. 6. þm. Reykv. hélt því fram í öðru orðinu, að það fé, sem hið opinbera legði fram til styrktar sjávarútveginum, væri allt of lítið, en jafnframt, að fiskimálan. væri fengið óforsvaranlega mikið fé til umráða í eyðslu og sóun, að því er mér skildist. Nú getur þetta hvorttveggja ekki staðizt frá mínu sjónarmiði séð, að fiskimálan. hafi of mikið fé til umráða handa sjávarútveginum, en hinsvegar að sjávarútveginum sé ætlað of lítið. Ég hefði fyrir milt leyti kosið, að hægt hefði verið að veita meira fé til sjávarútvegsins, en með hliðsjón af fjárhag ríkissjóðs get ég eftir atvikum verið ánægður með þá fjárveitingu, sem stjórnarflokkarnir hafa orðið ásáttir um í þessu skyni.

Þegar þetta frv. var til 1. umr., rakti ég þá möguleika, sem fyrir hendi eru til þess að styrkja sjávarútveginn með tilliti til frv. um fiskimálan., sem rætt var um hér í d. áðan. Ég sýndi fram á það, að þótt tveir nýir togarar yrðu byggðir á næsta ári og styrktir samkv. því frv., þá færu ekki til þess nema 350 þús. kr. af tekjum fiskimálan., sem nema einni millj. kr. á næstu tveimur árum. Rekstrarkostnaður n. er 60 þús. kr. á ári, eða 120 þús. kr. bæði árin. Þetta verður til samans 470 þús. kr., og hefir n. þá til umráða á næstu tveimur árum 530 þús. kr. til annarar starfsemi, svo sem til þess að styrkja hraðfrystingu fiskjar, niðursuðu, fiskimiðaleit o. fl., eða um 265 þús. kr. á ári. Þegar á það er litið, að þetta er í fyrsta skipti, að fráteknum l. um fiskimálan. frá 1935, sem Alþingi veitir sjávarútveginum verulegan styrk, þó hann sé ekki nægilegur, þá verður hann eins og sakir standa að teljast nokkurn veginn viðunandi, og ég tel það alveg rangt hjá hv. 6. þm. Reykv., að ef Samband ísl. fiskframleiðenda reisir niðursuðuverksmiðju, þá geti það ekki átt von á að fá til þess allríflegan styrk, því ég fæ ekki séð, með hvaða rétti hv. 6. þm. Reykv. ætlar að útiloka S. Í. F. frá styrk í þessu skyni fremur en aðra, sem slíkar verksmiðjur mundu vilja byggja.

Ég gat þess áðan, að ég sæi ekki ástæðu til að lengja frekar umr. um þetta mál. Það hefir nú verið allýtarlega rætt í þessari hv. d., og mun ég ekki taka oftar til máls við þessa umr. nema sérstakt tilefni gefist.