20.10.1937
Neðri deild: 6. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (1767)

15. mál, hraðfrystihús fyrir fisk

Flm. (Thor Thors):

Ég þarf raunar ekki að svara hv. 3. þm. Reykv. mörgu. Ég ætla ekki að svo stöddu að fara út í deilur um það, hvort þetta mál sé núv. stjórnarfl. að þakka eða hver orðið hefir fyrstur til þess að benda á nauðsyn þess. Það er atriði, sem oft hefir verið deilt um og óþarfi er að taka til meðferðar á þessu stigi málsins. En það má bara benda á, að sænska frystibúsið hefir starfað hér í mörg ár og gert ýmsar tilraunir með útflutning á hraðfrystum fiski.

Það er rétt hjá hv. þm., að það verður að athuga markaðsmöguleikana fyrir þessa vörutegund, enda er það skýrt tekið fram í grg. frv., að það sé þýðingarmesta sporið í þessu máli. Það er náttúrlega við erfiðleika að stríða við að útvega þennan markað fyrir frysta fiskinn eins og fyrir saltfiskinn. En þegar sjá má fram á að saltfisksmarkaðurinn þrengist ár frá ári, fyrir aðgerðir þeirra stjórna, sem sitja að völdum í þeim löndum, sem við skiptum við, frá er ástæða til, að við tökum snöggt viðbragð og reynum að breyta til.

Því er svo varið, sem betur fer, að það eru til fleiri markaðslönd en England, þó megnið af fiskinum hafi farið þangað undanfarið. Og það er ekki rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., að það sé engin takmörkun sett um framgang þessa máls í frv. Í 5. gr. er svo ákveðið, að umsóknir um lán eða styrk skuli sendar atvinnumálaráðuneytinu. Það er því í raun og veru atvmrh., sem ræður því, hversu hraðar framkvæmdir verða í þessum málum. Það er heldur ekki rétt hjá hv. þm., að einstakir menn geti ráðizt í framkvæmdir á þessu sviði og heimtað styrk af ríkinu. Í gr. frv. segir svo: „Hlunninda þessara laga geta aðeins notið félög útgerðarmanna og sjómanna, sem stofnuð eru í þessu skyni og eru opin öllum útgerðarmönnum og sjómönnum í þeirri verstöð eða nálægum verstöðvum.“ Það, sem hér vakir fyrir okkur, er það, að aðeins almenningsfyrirtæki eigi rétt á þessum hlunnindum. Hv. þm. gat þess, að fiskimálanefnd léti sérfræðing athuga þau frystihús, sem fyrir eru. Sá sérfræðingur, sem er verkfræðingur. hefir náttúrlega þekkingu á vélum frystihúsa og slíku. En það þarf önnur rannsókn að fara fram á þessu sviði, viðvíkjandi því, hvar staðhættir séu heppilegastir fyrir frystihús, og þá þörf þekkja útvegsmenn bezt sjálfir.

Hv. þm. minntist á Ólafsvík og gat þess, að sjómönnum þar hefði verið gefinn kostur á að selja afla sinn, en fiskimálanefnd hefði átt að sjá um útflutninginn. Þetta boð mun hafa komið svo seint fram, að flestir sjómenn hafi verið búnir að ráða sig til annarar vinnu, enda er þeim ekki nóg að geta selt aflann, heldur þurfa þeir einnig að fá vinnu við hann í plássið, sem hraðfrystihús mundi veita.

Ég talaði ekki um, að það þyrfti endilega að byggja skip nú þegar til þess að flytja á hraðfrysta fiskinn, en ég veit, að þegar frystihús eru komin víða á fót, þá kemur að því, að það þarf að byggja skip til þessara flutninga.

Það er rétt hjá hv. þm., að fiskimálan. hafi lagt fram styrk til þess að koma upp kælirúmum í Dettifossi, að upphæð 25 þús. kr. En þetta mun alls hafa kostað um 100 þús. kr. fyrir utan þá töf, sem skipið varð fyrir vegna þessarar breytingar.

Hv. þm. tók annars málinu að efni til sæmilega vel, og ég vænti þess, að þessu þingi ljúki ekki svo, að mál þetta verði ekki ákveðið með lögum, því útvegsmenn þurfa að vita, hvers þeir mega vænta í þessu máli.