27.11.1937
Neðri deild: 37. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (1771)

15. mál, hraðfrystihús fyrir fisk

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Þar sem gert er ráð fyrir því í frv. til l. um breyt. á l. um fiskimálan., sem meiri hl. sjútvn. flytur, að fiskimálasjóður sé styrktur og honum jafnframt gert að skyldu að styrkja byggingu hraðfrystihúsa, þá hefir meiri hl. n. lagt til, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði afgr. með rökst. dagskrá, sem prentuð er á þskj. 191. Minni hl. vildi hinsvegar, að frv. yrði samþ. óbreytt, en það gat meiri hl. ekki fallizt á.

1 nál. minni hl. er það réttilega tekið fram, að frv. hafi verið vísað til n. 18. okt. Síðan hefir n. haldið reglulega fundi á sínum fundardögum, a. m. k. með litlum undantekningum, og hafa þar verið ýms mál til meðferðar. N. hafði samþ., að þetta mál yrði tekið fyrir 12. þ. m. Ég skal geta þess, að einn af flm. frv., hv. 6. þm. Reykv., var ekki á fundi, þegar þessi ákvörðun var tekin. Ég vakti þá máls á því, hvort rétt væri að taka málið fyrir að honum fjarstöddum, en hv. þm. Ak. benti þá á, að hann væri einnig flm. frv. og gæti því ekki verið neitt því til fyrirstöðu að taka málið fyrir þó að hv. 6. þm. Reykv. væri ekki á fundi. Það var þá rætt um frv., og varð það að einróma samkomulagi að senda frv. til umsagnar fiskimálanefndar, með því að í ljós kom, að hv. þm. Ak. hafði ekki þær upplýsingar á takteinum, sem aðrir nm. óskuðu eftir. Málið var síðan samdægurs sent til umsagnar fiskimálanefndar með bréfi. En þó að gengið hafi verið eftir umsögn fiskimálanefndar, hefir hún ekki komið, og eftir ósk flm. var svo málið tekið fyrir á fundi n. 25. nóv. og afgr. á þann hátt, sem segir í nál. meiri hl.

Ég þarf ekki að fjölyrða um málið, en ég fæ ekki betur séð en að fyllilega sé séð fyrir þeirri þörf, sem væntanlega verður fyrir styrk til hraðfrystihúsa, með þeim till., sem lagt er til að verði samþ., í frv., sem hefir verið lagt fram af meiri hl. sjútvn. um breyt. á l. um fiskimálanefnd.