27.11.1937
Neðri deild: 37. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (1772)

15. mál, hraðfrystihús fyrir fisk

Frsm. minni hl. (Sigurður E. Hlíðar):

Sjútvn. er klofin í þessu máli, eins og þegar hefir verið tekið fram af frsm. meiri hl. Hvað mína afstöðu til meðferðar málsins í n. snertir, þá er það að segja, að þegar ég á fundi n. 12. nóv. tjáði mig samþ. að senda málið til rannsóknar fiskimálanefndar, þá var það gert í þeirri barnslegu einfeldni, að þessi n. væri einmitt sá aðili, sem fyllstar upplýsingar gæti gefið um þessi mál, en eins og frsm. meiri hl. gat um, þá fekkst ekki umsögn fiskimálanefndar í þessu litla máli, og stóðum við því jafnnær hvað snerti þær upplýsingar, sem vantaði. En ég fullyrði, að það, sem skilur n.hlutana í þessu máli, er ekki málefnið sjálft, því að ég er viss um, að sjútvn. öll er sammála um, að koma þurfi á fót hraðfrystihúsum, heldur eru það leiðirnar til að koma þessu í framkvæmd, sem skilur n.hlutana. Meiri hl. hyggur sig geta náð því takmarki, sem hér er um að ræða, með því að vísa þessu máli til aðgerða fiskimálanefndar, og skírskotar í frv., sem fram er komið um að heimila ríkisstj. að veita úr fiskimálasjóði lán í þessu skyni til félaga, sem kynnu að verða stofnuð í því augnamiði að byggja hraðfrystihús. En það er ekki rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að þetta frv. nái þessu takmarki, því að þar er aðeins veitt heimild. Það er talsverður eðlismunur á því, hvort það er skylda l. samkvæmt að vita þessi lán eða hvort það er aðeins heimilt fyrir ríkisstj. að veita lánin. Hún þarf aldrei að nota þessa heimild. Ég vil hafa þetta skýrt fram tekið í l., en vil ekki, að því sé skotið til fiskimálanefndar og það lagt í hennar vald, hvort styrkurinn skuli veittur og hverjir skuli hljóta hann. því þegar tekið er tillit til sögu fiskimálanefndar á undanförnum árum, þá getur maður ímyndað sér, að þessar 400 þús. kr., sem eiga að koma úr ríkissjóði, muni fara í allt annað, og sömuleiðis þetta ½% af útfluttum fiskafurðum, því eftir því sem flokksblað hv. frsm. meiri hl. segir, þá má gera ráð fyrir, að til tilrauna með nýtízku togara fari um 300 þús. kr., og sjá þá allir, að litið er orðið eftir til annarar starfsemi. Þess vegna er engin trygging fyrir því, að til nokkurra framkvæmda komi í þessu efni fyrir aðgerðir fiskimálan. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar. Ég er þess fullviss, að hv. þdm. skilja það, um hvað sjútvn. hefir klofnað í þessu máli og hvers vegna minni hl. telur sjálfsagt að samþ. þetta frv. óbreytt.