18.10.1937
Efri deild: 4. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (1778)

8. mál, eftirlit með skipum

*Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Þetta frv., sem ég ber hér fram í hv. d., lá fyrir síðasta þingi, og er það að efni til breyt. á l. um eftirlit með skipum. Frv. náði ekki afgreiðslu þá í þessari hv. d. eða þinginu, af ástæðum, sem kunnar eru. Það lá fyrir hv. sjútvn. þessarar d., sem tók þessu merkilega máli vinsamlega. Að vísu hafði verið leitað álits æðsta embættismanns hér á landi á þessu sviði, skipaskoðunarstjóra, um frv., og hafði bann komið fram með nokkrar brtt. við frv., sem þá vannst ekki tími til fyrir sjútvn. að taka afstöðu til.

Nú hefi ég ásamt skipaskoðunarstjóra yfirfarið frv. á ný, og höfum við gert á því nokkrar breyt., sem ég hirði ekki að telja upp hér, þar sem það eru aðallega orðabreyt. Ágreiningur milli okkar, skipaskoðunarstjóra og mín, er ekki mikill. Hann vill eins og ég, að eftirlit með skipunum sé sem bezt, og frv. miðar að því að herða á eftirlitinu á þann hátt, sem sjómennirnir álíta, að bezt verði við komið. Eins og ég gat um í ræðu minni á síðasta þingi, á að auka skipaskoðunina með því að skipa skipaeftirlitsmenn auk skipaskoðunarmannanna, sem eiga að verða einskonar eftirlitslögregla, sem á að gæta þess, að lögin um skoðun skipa séu í heiðri höfð. Eins og kunnugt er, fer aðalskoðun skipa fram aðeins annaðhvert ár, nema stærstu skipa, sem skoðuð eru á hverju ári, ef ekki eru sérstakar ástæður fyrir hendi, svo sem sjópróf, en í frv. er fjölgað aðal- og aukaskoðunum.

Ég verð að telja mál þetta mjög mikilsvert og vænti góðra undirtekta hjá þessari hv. d. Hér eiga hlut að máli um 6 þús. manns, sem langa tíma á ári hverju eiga líf sitt að meira eða minna leyti undir því komið, hvernig skipin eru úr garði gerð, að ég ekki nefni þann mikla fjölda fólks, sem á lífshamingju og afkomu háða lífi þessara manna. Ég vil því vænta, að hv. Alþingi skilji það, að ekki má spara það, sem mannlegt vit getur bætt útbúnað skipanna.

verið getur, að því verði haldið fram, að eftirlitið hjá okkur sé ekki verra en gerist hjá öðrum þjóðum, en hvað sem því liður, þá er það staðreynd, að við biðum miklu meira manntjón vegna skipskaða en aðrar þjóðir. Ég vil ekki segja, að það stafi af því, að okkar skip séu verr viðhöfð en skip annara þjóða, þó reynslan sé því miður þessi, og ef unnt er að gera skipin öruggari en þau nú eru með því að bæta eftirlitið. þá er skylt að gera það, og þess vegna legg ég þetta frv. fram, í þeirri góðu trú, að hv. þing taki það til greina, helzt í öllum atriðum.

Ég læt að svo mæltu nægja að vísa til framsöguræðu minnar frá síðasta þingi og þeirrar grg., er þá fylgdi frv., og óska, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. sjútvn.