02.12.1937
Efri deild: 40. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (1780)

8. mál, eftirlit með skipum

*Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Mál þetta hefir legið alllengi fyrir þinginu og hjá sjútvn. Eins og sjá má á nál á þskj. 200, hefir ekki orðið samkomulag um málið í n. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem hann hefir borið fram á sama þskj. Hinsvegar er afstaða minni hl. sett fram á þskj. 209 og fer í þá átt, að málið sé afgr. með rökst. dagskrá, sem þar er borin fram. Við meiri hl. í n. lítum svo á, að mál þetta sé svo þýðingarmikið, að ekki sé rétt að draga það lengur án þess að gera því nokkur skil. Það lá fyrir síðasta þingi, en af ástæðum, sem kunnar eru, varð það ekki útrætt þá, og tel ég því ekki rétt, að það sé svæft á þessu þingi. Tilefni þessa frv. er öllum kunnugt og hve mikil þörf er á að koma því í gegn. Ástæðan, sem minni hl. færir fyrir frekari drætti í því, er aðeins sú. að það sé ekki nægilega undirbúið. Ég hygg, að lengi megi deila um, hvað sé nægilegur undirbúningur mála, en ég verð að segja fyrir mitt leyti, að málið er byggt á margra ára umkvörtunum um, hverju sé ábótavant í lögum um eftirlit með skipum, og málið hefir verið þrautrætt við ýmsa skipstjóra. Hygg ég því, að þótt farið væri að fresta málinu nú og leita umsagnar ýmsra manna, þá komi ekkert fram, sem réttlæti, að þingið fresti öllum aðgerðum. Brtt. þær, sem bornar eru hér fram, eru byggðar á nákvæmri athugun á, hvað helzt þurfi að lagfæra í núgildandi l., og þær brtt., sem bornar eru fram við frv., hafa orðið að samkomulagi milli mín sem flm. þess og hv. 2. þm. S.-M.

Fyrsta brtt. er aðeins orðalagsbreyt., sem óþarft er að tala um. Næsta brtt. er við 5. gr., um að starfstímabil skoðunarmanna sé 4 ár, en ekki 3 ár, eins og lagt er til í frv., en ég sem flm. hefi gengið inn á þessa breyt. með þeirri rökfærslu, að eftir því, sem menn vinni lengur við skoðunina, verði þeir færari til að gera það af meiri þekkingu.

Næsta brtt. er við 6. gr. og er nokkuð veigameiri. Hún gengur í þá átt að láta ekki fara fram árlega skoðun á öllum skipum, eins og frv. gerði ráð fyrir, heldur skuli það aðeins gert á farþega- og flutningaskipum, eða m. ö. o. á öllum skipum, sem sigla að staðaldri til útlanda. Fellur þá niður sú skoðun fiskiskipa, eldri en 12 ára, sem frv. gerir ráð fyrir. Þá höfum við hækkað mark á aldri skipa úr stáli og járni, þannig, að þau skuli skoðuð árlega, þegar þau eru orðin eldri en 20 ára, og rökstyðjum það með því, að þegar járnskip hafi náð þeim aldri, séu þau svo hættuleg, að full ástæða sé til árlegrar skoðunar. Timburskip skal skoða árlega eftir að þau eru orðin 25 ára gömul. Teljum við, að ekki saki, þótt aukaskoðun sé látin niður falla, þar sem aðalskoðunin er svo nákvæm, að hún verður að teljast nægilegt öryggi. Að fenginni reynslu má fullyrða, að eftir að skip eru kornin á þennan tiltekna aldur, eru járnskip alltaf hættulegri heldur en tréskip, og tel ég allmikið öryggi fengið með samþykkt þessarar brtt„ þótt hún gangi ekki eins langt og frv. sjálft.

4. brtt. er við 7. gr. og er ekki annað en afleiðing af hinum brtt. Sama er að segja um b-lið þeirrar till., um að hækka úr 45 dögum í 60 daga. Það skiptir ekki miklu máli.

við 8. gr. höfum við gert nokkrar brtt. Það er nýmæli, um að skipaskoðunarstjóri hafi eftirlit með flokkun, þegar hún er gerð hér innanlands, og er mikið öryggi í því, að flokkunin byggist sem mest á skoðuninni, einkum ef skipaskoðunarstjóri fær það bundið með lögum. Þá er breyting á því, sem frv. ætlast til, að skipaskoðunarstjóri geti haft eftirlit með flokkun erlendis. Flokkun erlendis heyrir undir flokkunarfélög þar, og álitum við, að þau myndu þykkjast við, ef settur væri maður til höfuðs þeim trúnaðarmönnum, sem flokkunarfélögin hafa valið sér á hverjum tíma, og felldum því niður ákvæðið um, að skipaskoðunarstjóri ætti að vera viðstaddur flokkun erlendis, en aftur á að láta skipaskoðunarstjóra í té nákvæma lýsingu af því, hvernig flokkunin hefir farið fram, og ætti það að verða trygging fyrir því, að ekki væri vikið frá fastsettum reglum um flokkunina, en það eru einkum fiskiskip, sem flokkuð eru erlendis.

Þá kem ég að því, sem sumir álita stærstu breyt., það er brtt. við 12. gr., sem er um hleðslumerki. Samkomulag fekkst ekki í n. um það, að öll skip ættu að hafa hleðslumerki, og n. bárust mótmæli frá útgerðarfélögum og einstökum mönnum, sem töldu gengið of nærri möguleikum síldarskipa um að færa síldina á land, ef hleðslumerki væru sett á skipin. En margir sjómenn sjá, hve mikil hætta getur stafað af því, að skipin séu hlaðin of mikið, og að ástæða er til, að skorður séu reistar við því, en við álítum, að slíkt mætti gera án þess að þetta ákvæði yrði að lögum, með því að veita ráðh. heimild til að setja ákvæði þar að lútandi. Þessar ráðstafanir er hægt að gera á fleiri vegu en með því að setja hleðslumerki á skipin. Það má gera með ýmsum öðrum útbúnaði, sem komið getur í veg fyrir, að skip sökkvi oftar af ofhleðslu. Hér er gert ráð fyrir, að hleðslumerki verði sett á öll skip, sem sigla til útlanda, smærri sem stærri, enda eru dæmi til þess, að skip um 100 smál. hafi siglt til útlanda og tekið farm til baka. Auk þess siglir togaraflotinn alltaf milli landa hluta úr árinu. Þessi ákvæði eru í samræmi við samþykkt, sem gerð var í London 1930. Meiri hl. var sammála um þetta atriði.

Mér þykir einkennileg afstaða hv. þm. Vestm. í þessu máli. Mér er fullljóst, að hann sem fulltrúi sjómannastéttarinnar hlýtur að vita, hve nauðsynlegt þetta er. Er einkennilegt, að hann skuli vilja tefja málið með því að vísa því til hæstv. ríkisstj. Eina röksemd hans fyrir því er sú, að málið sé ekki nægilega undirbúið og eigi að spyrja farmanna- og fiskimannasamband Íslands til ráða áður en lengra væri gengið. Hv. þm. segir ranglega, að flestir sjómenn og fiskimenn landsins séu í þessu sambandi. Það eru nokkur skipstjórafélög og vélstjórafélag Rvíkur, sem hafa stofnað það. Frv. er í fyllsta samræmi við skoðanir þeirra manna, sem mynda sambandið.

Mér er kunnugt um, að farmanna- og fiskimannasambandið tók þetta mál til meðferðar og setti nefnd til að athuga það, en hún gerði ekkert annað en að leggja til, að því yrði vísað til milliþinganefndar. Ég hefi átt tal við þessa góðu menn, og þeir hafa játað yfirsjón sína í þessu.

Mér finnst það vera of mikil töf fyrir þessu máli að fara að visa því nú til ríkisstj. til nánari athugunar. Ég hygg, að það muni ekki vera nema svo sem 5–6 menn af hverri 35 manna skipshöfn, sem vilja láta fresta þessu máli, og ég hygg, að líf þessara 30, sem ég tala hér í umboði fyrir, séu alveg eins dýrmæt eins og hinna. Ég hygg því, að það sé ekki rétt að svipta þessa menn málfrelsi um þetta mál. Ég er nú hræddur um, að það sé annað, sem afstaða hv. þm. Vestm. byggist á, heldur en það, sem fram kemur í nál. minni hl. Ég er hræddur um, að það sé kostnaðarhlið þessa máls, sem vex honum í augum. Og okkur er það fyllilega ljóst, meiri hl., að af þessu muni leiða talsverðan kostnað fyrir eigendur skipanna. Þessi afstaða hv. þm. er e. t. v. eðlileg, en ég get ekki viðurkennt hana vegna þess, að mér er það ljóst, og ég hygg, að honum sé það einnig ljóst, að það má ekki láta kostnaðarhliðina tefja þetta mál. Hv. þm. segir, að sumar till. minar gangi svo langt, að þær séu óframkvæmanlegar. Ég sé nú ekki, hvaða till. hv. þm. getur sagt það um, en ég hygg þó. að hann muni eiga hér við hleðslumerkin. Að öðru lyti eru allar mínar till. framkvæmanlegar. Þjóðin er búin að hljóta svo mörg áföll af völdum sjóslysa, og oft eingöngu af slæmum útbúnaði skipa, að svo má ekki lengur standa. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Vestm. muni rökstyðja sína skoðun nánar, og skal ég því bíða með að tala frekar í málinu þangað til ég hefi heyrt hans ræðu.