02.12.1937
Efri deild: 40. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (1782)

8. mál, eftirlit með skipum

*Ingvar Pálmason:

Eftir því, sem fram hefir komið í sjútvn., hefi ég fulla ástæðu til að halda, að hún standi óskipt um það álit, að eftirliti með skipum sé nú mjög ábótavant og ástæða sé til að bæta úr því. Og ettir því, sem kom fram undir meðferð frv. um sama efni í fyrra, þá er víst, að þannig var ástatt í sjútvn. þá, sem skipuð var sömu mönnum og nú, að einum undanteknum. Ég held því, að um það verði ekki deilt, að það sé full þörf að breyta l. um eftirlit með skipum. Og ég vil taka fram strax, að mér er kunnugt um það, að skipaskoðunarstjóri er sömu skoðunar. Og einmitt af þessu er það svo, að ég vil fylgja þessu frv. svo lengi sem ég get. Hitt er auðvitaður hlutur, að ég vil fá á því þær breyt., sem ég tel, að til bóta séu. Og í þá átt hefir allt starf mitt verið við þetta mál fram að þessu. Því er það, að ég hefi getað orðið hv. 3. landsk. samferða um algera breyt. á frv., sem nú liggur fyrir. En hinsvegar vil ég fá frekari breyt. á frv., eins og tekið er fram í nál. okkar, og ég vænti, að svo geti orðið. Því að þótt ég og hv. flm. séum ekki ennþá sammála, því treysti ég því, að Alþingi muni ljá lið brtt. mínum, sem ég hefi ákveðið að flytja við frv. við 3. umr., ef dagskrártill. hv. þm. Vestm. verður felld. Verði hún samþ., þá er ekki nema óþarfa erfiði fyrir mig að setja fram brtt.

Ég held ég sé nú búinn að gera afstöðu mína til málsins nægilega ljósa fyrir deildinni. Og ég get bætt því við, að ég hefi ákaflega litla trú á, að í raun og veru upplýsist málið nokkuð við það að vísa því frá með rökst. dagskrá og verði það svo lagt fyrir næsta þing. því að ég er viss um, að þær till., sem koma fram frá þeim aðiljum, sem málið verður borið undir í millitíðinni, verða mjög ósamstæðar. Svo að þegar til alls kemur, verður það Alþingi, sem verður að taka ákvörðunina og samræma þessi hluti. Á næsta þingi stöndum við litlu betur að vígi að leysa þetta mál svo að vel sé heldur en við stöndum nú. Þess vegna er það, að ég greiði ekki atkv. með dagskrártill. hv. þm. Vestm.

Ég ætla ekki að þessu sinni að lýsa þeim brtt., sem ég hefi í hyggju að flytja við 3. umr. En ég get sagt það, að ég hefi fulla von um, að þær brtt. hafi stuðning skipaskoðunarstjóra. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um málið og mun ekki blanda mér í það, sem þeim fór í milli, hv. frsm. sjútvn. og hv. þm. Vestm. Þó get ég ekki látið vera að minnast örfáum orðum á það, sem kom fram í ræðu hv. þm. Vestm., af því að mér fundust ummæli hans svona tæplega viðeigandi. því að þau líktust meir því, sem málfærslumenn flytja fram þegar þeir vilja klekkja á mótstöðumanni með vafasömum röksemdum. Hann taldi mjög óvandlega farið með heimildir, þar sem stæði í grg. frv., að þær breyt., sem gerðar hafa verið á frv. frá því að það lá fyrir í fyrra, væru gerðar með fullu samþykki eða í samráði við skipaskoðunarstjóra. En þetta er alveg rétt. Þær eru allar gerðar í samráði við skipaskoðunarstjóra, en hann vildi fá á upphaflega frv. miklu fleiri breyt. Og þetta hygg ég, að hv. þm. Vestm. hefði getað sannfærzt um, ef hann hefði leitað eftir því. (JJós: Má ég spyrja 2. þm. S.-M. að einu? Hvers vegna var þá skipaskoðunarstjóri svona ósamþykkur hinum ýmsu greinum frv.?). Af því að ekki voru teknar til greina þær brtt., sem skipaskoðunarstjóri vildi gera á frv. frá í fyrra. Þær, sem gerðar eru, eru ekki margar, en þær eru allar gerðar í samráði við skipaskoðunarstjóra. (JJós: Hann er bara ósamþykkur). Ekki þeim brtt. (JJós: Frumvarpinu). Menn þurfa ekki að vera ósamþykkir frv. í heild, þó að þeir vilji gera á því breytingar. Annars er það ekki sagt í grg., að frv. sé allt borið fram í samræði við skipaskoðunarstjóra. En ummæli hv. þm. Vestm. hafa hinsvegar verið villandi fyrir þá þdm., sem ekkert hafa fylgzt með málinu. Alveg sama gegnir um, að hann er alltaf að klifa á því, að ákvæðin um hleðslumerki á skipum séu óframkvæmanleg. Þetta er ekkert ágreiningsatriði milli mín og hv. þm. Vestm., þau eru óframkvæmanleg, og við leggjum til, að þau verði strikuð út. Því þá að vera að klifa á þessu? Það er nær að athuga þær brtt., sem fyrir liggja. Ég hefi verið mótfallinn mörgu í frv., og er mótfallinn nokkru enn. En mér dettur ekki í hug að láta það verða til að tefja málið, kannske um óákveðinn tíma.

Ég tel rétt að leiðrétta það, sem hv. þm. Vestm. sagði, að skipaskoðunarstjóri væri mótfallinn því að frv. verði samþ. Ég hygg, að þetta sé alls ekki rétt með farið. En hann er mótfallinn ýmsum atriðum, sem enn eru í frv. Hann hefir viðurkennt við mig — og ég held lýst yfir á fundi í n. — að hann teldi stórra umbóta þörf á l. um eftirlit með skipum. Ég held það sé áreiðanlega álit þeirra manna yfirleift, sem til þekkja, að eftirliti með skipum sé mjög ábótavant, og að það stafi að miklu leyfi af því, að ýmsar heimildir vanti í l. um eftirlit skipa. Ég ætla ekki að fara langt út í það; en ég vænti þess, að ég verði ekki vefengdur um, að skipaskoðunarstjóri hafi við mig — og ég hygg við fleiri — játað, að svo væri. Og ég fullyrði, að hann er því fylgjandi, að það séu bætt ákvæðin í l. um eftirlit með skipum, og að það er langt frá því, að hann sé á móti því, að frv. um það efni gangi fram, meira að segja á þessu þingi.

Annars sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um málið á þessu stigi. Ég geri ráð fyrir, ef málið fer til 3. umr., að fyrir liggi brtt. frá mér, sem gefa mér tilefni til að tala frekar um málið.