19.10.1937
Neðri deild: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (1803)

7. mál, alþýðutryggingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta langt mál, en þó voru einstök atriði í ræðu hv. flm., sem ég vil ekki láta ósvarað.

Í fyrsta lagi vil ég benda á það, sem hann tók að vísu fram að nokkru leyti, að í þessu frv. er gert ráð fyrir að lækka öll iðgjöld til trygginganna; í öðru lagi er gert ráð fyrir að lækka aldur þeirra manna, sem njóta eiga styrks úr lífeyrissjóði, og í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að bætur séu í ýmsum tilfellum hækkaðar. Nú er það bersýnilegt, að með þessum till., sem hér liggja fyrir, raskast svo gersamlega sá grundvöllur, sem lögin hvíla á, að það er ómögulegt, að það geti staðizt, þar sem samtímis á að lækka iðgjaldagreiðsluna og auka álögur stofnunarinnar vegna lækkaðs aldurs og aukins styrks. Hv. flm. taldi, að slysatryggingarnar hefðu verið svo fullkomnar að ekki yrði um bætt, áður en þessi lög voru samin, sem frv. leggur til, að breytt verði. Þetta er ofmælt hjá hv. þm. Honum er kunnugt um, að ýms atriði í slysatryggingunni, þó að þau séu ekki stórfelld, eru mjög bætt frá því, sem áður var. Hann nefndi eitt atriði, en hann sagði aðeins hálfan sannleikann, og tæplega það. Hann sagði, að réttindi foreldra væru minni í l. nú en í slysatryggingal. áður. Þetta er rangt. Í eldri l. var gert ráð fyrir bótum til ekkna og til barna, en ef börnum var ekki til að dreifa, þá til foreldra. Í núgildandi l. er gert ráð fyrir því, að þó að dáinn maður láti eftir sig ekkju eða börn, geti foreldrar líka fengið bætur, ef þeir hafa að einhverju leyti verið á framfæri þess látna. Þetta er bein viðbót við það, sem áður var. — En hitt er rétt, að þau ákvæði í lögunum, hvenær foreldrar skuli njóta bóta, hvenær þeir séu á framfæri þess látna, eru þannig úr garði gerð, að full ástæða er til að lagfæra það, og það verður gert í frv., sem lagt verður fyrir þessa hv. d. innan skamms. Á þessu sviði er því um mikla bót að ræða, því að hér er gert ráð fyrir, að auk ekkju og barna geti foreldrar líka komið til greina með dánarbætur, ef þeir hafa notið aðstoðar þess látna til þess að fleyta sér fram.

Þá miklaðist hv. flm. mjög yfir því, hvílíkt paradisarástand hefði verið að því er snertir ellistyrkinn áður en núgildandi lög voru samin. Hann sagði, að samtals hefði verið veitt nokkuð yfir 200 þús. kr. úr ellistyrktarsjóðunum til gamalmenna á landinu árið 1935, en árið 1936 var samkvæmt núgildandi lögum veitt nokkuð yfir 900 þús. kr. til hins sama, um 400 þús. kr. úr lífeyrissjóði, en það framlag hrökk ekki nema á móti 75% af því, sem sveitar- og bæjarfélög lögðu fram. Heildarupphæðin, sem úthlutað var árið 1936, hefir því verið 4–5 sinnum meiri en 1935. Hitt er rétt, að þessi úthlutun er hvorki bundin við það, að menn hefðu ekki þegið opinberan styrk né við aðrar þær kvaðir, sem gamli ellistyrkurinn var bundinn. En ég skal játa, að því fer fjarri, að ég sé ánægður með það, hvernig þessari úthlutun hefir verið háttað í mörgum tilfellum. Ég hefi orðið var við — ég sé ekki ástæðu til að leyna því — of ríka tilhneigingu hjá einstaka sveitar- og bæjarstjórnum til þess að líta fyrst og fremst á það, hvernig hægt væri að létta fátækrabyrðinni af viðkomandi sveitarfélagi, þannig að það hefir í sumum tilfeilum verið meiri tilhneiging til þess heldur en að lita á þarfir annars fólks, sem fram til þess að úthlutunin fór fram hafði komizt af án styrks. Ég álít rétt að endurskoða það atriði, til þess að koma í veg fyrir, að féð sé misnotað á þennan hátt, en hinsvegar er eðlilegt, að af þessum lögum leiði mjög mikla lækkun á fátækraframfæri sveitanna vegna þess fólks, sem komið er á þann aldur, sem lögin setja sem lágmark til þess að geta notið styrks.

Þá benti hv. flm. á það, að í núgildandi l. væri gert ráð fyrir því, að vextir af einstökum ellistyrktarsjóðum sveitarfélaganna rynnu til þeirra gegnum lífeyrissjóð, og því aðeins að framlag komi á móti. Hann telur þetta óhæft, en hitt væri sanngjarnt, að þetta fé væri lagt fram af hlutaðeigandi sveitarfélögum og lífeyrissjóður legði fram á móti því. Um þetta atriði hefir verið mjög verulegur ágreiningur einmitt í þessari hv. d., og ég skal játa, að það er ef til vill nokkuð langt gengið að krefjast þess af sveitarfélögunum, að þau leggi fram fé á móti vöxtum af þeim ellistyrktarsjóðum, sem á þeirra vegum starfa, og í því frv., sem gríðalega verður lagt fyrir hv. d. um breyt. á þessum lögum, er gert ráð fyrir, að þetta verði lagað. Hinsvegar tel ég ekki ná nokkurri átt að breyta þessu þannig, eins og hv. flm. gerir ráð fyrir, að vextirnir teljist með í framlagi sveitarfélaganna og síðan eigi lífeyrissjóður að leggja á móti því, vegna þess að ellistyrktarsjóðirnir eru ekki eingöngu til orðnir fyrir framlög manna í hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarfélögum; þeir eru engu síður til orðnir fyrir framlög ríkissjóðs til ellistyrktarstarfseminnar í heild, svo að með þetta fyrir augum mætti telja sanngjarnt, að þetta fé væri lagt til sveitarfélaganna án þess að framlag væri heimtað á móti, hvorki af þeirra hálfu né lífeyrissjóðs. En fyrir þá, sem eiga að njóta styrksins, skiptir það mestu máli, hvaða upphæð úthlutað verður. Ef ekki verður lagt fram af hálfu sveitarfélaganna á móti vöxtunum, en það er upphæð, sem hefir numið 100 þús. kr., þá lækkar það fé, sem lagt er til ellistyrkja, um það, sem þeirri upphæð nemur, 100 þús. kr. á ári. Þetta tel ég óhjákvæmilegt, ef vextirnir verða lagðir til sveitarfélaganna án framlags á móti, svo að ef það yrði gert, þá verður framlag ríkisins til ellilauna að hækka um þá upphæð. sem þessum vöxtum nemur, ef hægt á að vera að inna af hendi þessar greiðslur.

Þá sagði hv. flm., að lífeyrissjóður embættismanna og lífeyrissjóður barnakennara væru lagðir undir hinn almenna lífeyrissjóð með alþýðutryggingalögunum. Mér skildist hann meina, að öll fúlga þessara sjóða rynni til hins almenna lífeyrissjóðs. Þetta er mesta fjarstæða. Hinn almenni lífeyrissjóður tekur að vísu við þessum sjóðum, en hann tekur líka á sig skuldbindingar um greiðslu ekknalífeyris og eftirlauna til hlutaðeigandi manna, eftir þeim reglum, sem sjóðurinn setur. Ég skal ekki fullyrða, hvort iðgjöldin til sjóðanna eru áætluð svo rífleg, að eitthvað kunni að verða afgangs, þegar skuldbindingum sjóðanna hefir verið mætt, en það er ekki nema lítill hluti af þeirri upphæð, sem hér um ræðir, því að meginhlutinn af tekjum sjóðanna gengur til þess að mæta skuldbindingum þeirra.

Um atvinnuleysistryggingarnar hirði ég ekki að fjölyrða. Hv. flm. telur, að sá kafli l. sé ekki tímabær. Ég er honum ósammála í því efni, og þykir mér undarlegt, ef margir mundu taka undir þessa skoðun, eins og þessum málum er háttað bæði hér á landi og erlendis. Því miður er ástandið í þessum efnum svo slæmt, bæði hér hjá okkur og eins í flestum löndum, sem við þekkjum til, að það ætti að vera sjálfsagt að reyna að hvetja menn til þess að tryggja sig gegn atvinnuleysi með því að veita þeim réttindi og styrk, en annað er ekki tilætlunin samkv. kaflanum um atvinnuleysistryggingar.

Ég get tekið undir þá till. hv. flm., að málinu verði vísað til hv. allshn., en væntanlega afgreiðir hún það ekki fyrr en hún hefir fengið frv. það í hendur, sem kemur innan skamms til þessarar hv. d.