19.10.1937
Neðri deild: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (1810)

9. mál, Raufarhafnarlæknishérað

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Á síðasta þingi flutti ég frv. shlj. þessu, sem hér liggur fyrir. Og á Alþ. 1936 flutti ég sömuleiðis frv. svipaðs efnis, um það, að stofnað yrði sérstakt læknishérað á þessum sama stað.

Ég hefi flutt þetta frv. vegna ummæla og áskorana, sem til mín hafa borizt frá íbúum þessa héraðs. Það er svo, að þorpið Raufarhöfn á Melrakkasléttu er ekki í vegasambandi, og það er mjög miklum erfiðleikum bundið að leita læknishjálpar. Héraðslæknirinn, sem fólkið leitar til, er á Kópaskeri, og til þess að ná til hans, verður annaðhvort að fara yfir heiði, eða þá langa leið með bæjum, eða þá í þriðja lagi með mótorbát, sem bæði er erfitt og mjög svo kostnaðarsamt.

Það, sem sérstaklega mælir með því — jafnframt þeim erfiðleikum, sem eru til staðar um að leita læknis, — er það, að á þessum stað er yfir sumartímann allmikill iðnrekstur, þ. e. síldarverksmiðja, svo að þarna kemur hinn mesti fjöldi af skipum á sumrin. Og það segir sig sjálft, að þar sem svo stendur á, er bæði talsvert mikil slysahætta og því oft þörf að leita læknis af þeim ástæðum. Oft er það, að þegar skip koma til hafnar til afgreiðslu, eru þau með veika menn, sem þurfa læknishjálpar. Og þar sem ekki er hægt að fá hana þarna, getur það kostað það, að skipin þurfa að fara með þessa menn á aðrar hafnir til læknis. Ef Raufarhöfn yrði gerð að sérstöku læknishéraði ásamt þeim hluta af Presthólahreppi og Svalbarðshreppi, sem lagt er til í frv., þá myndi láta nærri, að í þessu læknishéraði yrðu um 400 manns. Ég hefi orðað ákvæði þessa frv. þannig, að í þessu héraði skuli stofnað sérstakt læknishérað jafnskjótt sem landlæknir telji það henta. En til bráðabirgða verði gerð sú ráðstöfun, að læknir verði um sumartímann á Raufarhöfn, þ. e. a. s. þann tímann, sem læknis er mest þörf. Þar væri úr þeirri þörfinni bætt, þó að hinsvegar sé því ekki að neita, að yfir hinn tímann, veturinn, eru erfiðleikar fyrir íbúana einna mestir að ná til læknis.

Það hefir ekki lánazt á þeim tíma, sem frv. um þetta hefir legið fyrir, að koma því fram. en ég vænti þess, að það gangi betur á þessu þingi, og að hv. þingmenn fallist á það, að það er ekki ófyrirsynju, sem farið er fram á þetta, heldur er hér rík nauðsyn fyrir hendi.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og allshn.