22.10.1937
Neðri deild: 8. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (1817)

16. mál, vinnudeilur

Flm. (Thor Thors):

Þetta mál, sem hér liggur fyrir til umr., er nú orðið hv. þdm. svo kunnugt, að það er í raun og veru óþarfi að hafa langa framsöguræðu um það. Það hefir verið flutt tvisvar áður á Alþ. Auk þess hafa farið fram sérstakar útvarpsumr. um efni frv. í tilefni af því frv., sem Framsfl. flutti á síðasta þingi um svipað mál. Ég get þó ekki komizt hjá því að fara nokkrum orðum um þetta mál og ýms ákvæði þessa frv.

Eins og kunnugt er, er nú þessum málefnum, um deilur milli aðilja á sviði atvinnulífsins, alstaðar um hinn menntaða heim skipað með löggjöf. Ekkert þjóðfélag í hinum siðaða heimi (annað en Ísland) lætur sér sæma að láta þetta mikla svið þjóðfélagsins afskiptalaust af löggjafans hálfu. Og í þeim löndum, þar sem ríkisvaldið er afskiptamest af málefnum einstaklinganna í þjóðfélaginu og þjóðfélagsins í heild, eins og í Ítalíu, Þýzkalandi og einræðisríkinu Rússlandi, þar eru fyllst og ákveðnust ákvæði um þessi deilumál.

Það verður ekki komizt hjá vinnudeilum. Þær hljóta að rísa millí aðilja á sviði atvinnulífsins. Það er óhjákvæmilegt, að ágreiningur risi um skiptingu arðsins, hvernig henni eigi að vera varið. En stjórnarvöldin geta látið þetta mál til sín taka á þann hátt að setja löggjöf í þá átt, að reynt sé í lengstu lög að afstýra því, að vinnudeilur leiði til vinnustöðvunar. því að reynslan, bæði hér á landi og um allan heim, sýnir, að vinnudeilur eru oftast aðiljum sjálfum, sem í þeim eiga, til fjóns, og ætíð þjóðfélaginu í heild sinni til ófarnaðar. Þess vegna hefir löggjafarvaldið skyldu til þess að vernda eftir megni þjóðfélagið gegn því tjóni, sem af vinnustöðvunum leiðir. Þetta frv. miðar að því að reyna að afstýra vinnustöðvunum. Réttur verkamanna til að knýja fram kröfur sínar með verkfalli er látinn haldast, og réttur vinnuveitenda til þess að knýja fram sínar kröfur með vinnusviptingu einnig látinn haldast. Hér er hinsvegar lagt til, að settir verði ákveðnar reglur fyrir því, að þjóðfélagið skuli leitast við að sætta í vinnudeilumálum, áður en til vinnustöðvunar komi.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, er þetta frv. sniðið eftir því, sem nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum, þær þjóðir, sem okkur eru skyldastar, hafa ákveðið hjá sér. því að í þessum löndum, Danmörku, Noregi og Svíþjóð, er þessum málum skipað með löggjöf. Og allir ábyrgir stjórnmálaflokkar í þessum löndum hafa getað fylgzt að í því ýmist að setja þessa löggjöf eða láta hana haldast.

Í þessu frv. eru í fyrsta lagi ákvæði um samninga milli verkamanna og vinnuveitenda, og þess er krafizt, að vinnusamningar séu jafnan skriflegir og ákveðinn samningstími og uppsagnarfrestur í hverjum samningi. Ennfremur eru svo sett ákvæði, sem banna að skella á vinnustöðvun út af ágreiningi um gildi samninga og efni þeirra eða út af réttarágreiningi aðilja, sem aðeins tekur til þess, hvort annarhvor samningsaðili sé að svíkja gerðan samning, heldur skuli slíkum ágreiningi vísað til sérstaks óhlutdrægs dómstóls, þar sem báðir aðiljar eiga sína talsmenn.

Ennfremur eru sett ákveðin skilyrði fyrir því, að unnt sé að koma fram vinnustöðvun, hvort sem um er að ræða verksviptingu af hendi vinnuveitenda eða verkfall af hendi verkamanna. Eftir frv. þarf til slíkra vinnustöðvana samþ. f félögum þessara aðilja atvinnulifsins. Þessi ákvæði, sem er að finna í I. kafla frv., eru sömu skilyrði og nú gilda í Danmörku og hafa gilt þar frá því 5. september 1899, er báðir aðiljar, verkamenn og vinnuveitendur, gerðu með sér hina svo kölluðu septembersætt. Sú sætt hefir staðið fram til þessa dags og verið einskonar stjskr. fyrir öllum vinnudeilum þar í landi.

Þá eru í frv. okkar ákvæði um sáttatilraunir í vinnudeilum. Þau ákvæði eru mjög aukin frá því, sem nú er í gildandi íslenzkum l. Samkv. frv. skal atvmrh. skipa einn ríkissáttasemjara og þrjá héraðssáttasemjara, sem skulu vera búsettir (héraðssáttasemjarar) á Ísafirði. Akureyri og Seyðisfirði. Eins og í núgildandi löggjöf um sáttatilraunir í vinnudeilum, frá 27. júní 1925, er þeim ætlað að fylgjast nákvæmlega með í því, sem gerist á sviði atvinnulífsins, einkum ef líklegt má telja, að vinnustöðvun sé yfirvofandi. Sáttasemjurum þessum er ætlað að standa í sambandi hverjum við aðra, þannig að ef héraðssáttasemjari heldur, að vinnustöðvun sé í aðsigi, þá sé honum skylt að tilkynna ríkissáttasemjara ástæður fyrir því í ýmsum atriðum. Einnig er ríkissáttasemjara heimilað að krefjast skýrslna af aðiljum, sem hlut eiga að máli, þar sem honum þykja horfur á, að vinnustöðvun verði framkvæmd. Sáttasemjari getur bannað vinnustöðvun meðan á sáttatilraunum stendur, en aldrei lengur en 10–l4 daga. Þetta eru samskonar ákvæði og nú gilda og lengi hafa gilt í Noregi. Frestsákvæði þessi eru vitanlega sett til þess, að hægt sé að afstýra vinnustöðvun meðan á sáttatilraunum stendur.

Loks eru í III. kafla frv. þessa ákvæði um stofnun sérstaks dómstóls, sem nefnist vinnudómstóll Íslands og á að hafa það hlutverk með höndum að skera úr um réttarágreining aðilja. Eins og hv. þm. er kunnugt, getur hér komið til greina tvennskonar ágreiningur. Annarsvegar ágreiningur um það, hvað felist í gerðum samningum milli þessara aðilja. Hinsvegar hagsmunaágreiningur, eða ágreiningur um það, hver skuli vera kjör aðilja. Þessum dómstóli er aldrei ætlað að skipta sér af deilum út af slíkum hagsmunaágreiningi. Það er því algerlega rangt, sem komið hefir fram frá andstæðingum þessa frv., bæði í blöðum og á fundum, að þennan dómstól eigi að setja til höfuðs hagsmunum verkalýðsins og hann eigi að skammta verkalýðnum kjörin. Þessi dómstóll á ekkert skylt við gerðardóm í vinnudeilum, og hann á aldrei að skipta sér af því, hvaða kaup verkamönnum er greitt. Það er eins og ég tók fram, aðeins þegar um réttarágreining er að ræða, að þessi dómstóll á að láta til sín taka og skera úr um það, hvort gildandi samningar séu haldnir af aðiljum og hvað felist í þeim. Dómstóllinn er þannig skipaður, að hæstiréttur tilnefnir 3 menn, sem allir eiga að vera lögfræðingar og ekki mega hafa þá aðstöðu, að þeir geti talizt vilhallir í málum milli vinnuveitenda og verkamanna. Auk þess skulu skipa þennan dómstól 2 menn, sem tilnefndir eru einn af hvorum aðilja, Vinnuveitendafélagi Íslands og Alþýðusambandi Íslands.

Afstaða stjórnmáluflokkanna til þessa máls hefir á undanförnum þingum komið greinilega í ljós. Framsfl. hefir að efni til tekið þessu máli sæmilega. Hæstv. forsrh. hefir hvað eftir annað í áheyrn alþjóðar talið beina nauðsyn 2 því að löggjöf verði sett um þetta efni. Og bann hefir staðhæft það hér á Alþ. að þær till., sem við höfum borið fram í þessu frv., séu þess eðlis. að líklegt sé, að ná megi einhverju samkomulagi út frá þeim um þessi mál. Flokksþing Framsfl. á síðasta vetri tók mjög ákveðið á þessu máli og skoraði á þingflokk Framsfl. að beita sér fyrir því, að nú þegar yrði löggjöf sett um þessi mál. Frv. þau, sem Framsfl. bar fram á síðasta þingi, voru spor í rétta átt í þessu máli. En að áliti okkar flm. þessa frv. náðu þau of skammt, þar sem þess var ekki nægilega gætt að skerpa vald sáttasemjara, svo sem aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert, til þess að reyna að tryggja það, að hann næði sáttum áður en til vinnustöðvunar kæmi. En vegna þessara frv. Framsfl. og framkomu þess flokks í málinu yfirleitt vil ég leyfa mér að vænta, að á þessu þingi verði hægt að ná samkomulagi um þetta mál.

Alþfl. hefir tekið þessu máli með litlum skilningi. Má það einkennilegt kallast, svo mjög sem sá flokkur vill þó láta í veðri vaka, að stefna hans sé hin sama og sósíalistískra flokka annara Norðurlanda. Þeir hafa sett löggjöf um þessi málefni og álíta hana feng fyrir verklýðssamtökin. Afstaða sósíalista hér hefir verið andstæð þessu máli. En eftir að við síðast ræddum þetta mál á Alþ., hefir verið stigið eitt þýðingarmikið spor í þessu máli einmitt af sjálfum verklýðsfélögunum. Það var á síðasta sumri, þegar verkamannafélagið Dagsbrún gerði samning við Vinnuveitendafélag Íslands um taxta fyrir kaupgreiðslu í Reykjavík. Þá var í þann samning tekið upp eitt ákvæði, sem var algert nýmæli í sambandi við slíka samninga, sem sé í 9. gr. þess sáttmála, þar sem svo er ákveðið, að skipuð skuli sérstök sáttanefnd, tilnefnd af samningsaðiljum og lögmönnum í Reykjavík. Þessi sáttanefnd á að reyna að jafna þann ágreining, sem kemur fram út af gerðum samningum, eða m. ö. o. hafa með höndum samskonar verkefni, er við ætlumst til, að Vinnudómstóll Íslands hafi með höndum, að skera úr um réttarágreining milli aðilja og reyna að jafna hann. Ákvæði þessarar 9. gr. samningsins hljóða svo (með leyfi hæstv. forseta):

„Vinnustöðvun skal óheimil út af slíkum ágreiningi fyrr en viku eftir að sáttastarf hófst.“ Hér er möguleiki til þess, að hægt sé að fresta vinnustöðvun meðan á sáttatilraunum stendur. Ég tel þetta þýðingarmikið spor stigið þarna af hálfu verklýðsfélaganna til þess að koma á skynsamlegri, þjóðheillavænlegri löggjöf um þessi mál. Ég vil vænta þess, að verklýðsfélög þessa lands haldi áfram á þessari braut. Reyndar hefir það komið fyrir, eftir að þetta ákvæði var samþ., að stofnað hefir verið af hendi þessa sama verkamannafélags, Dagsbrúnar, til verkfalls, sem við mjög lítil rök hafði að styðjast, út af deilu kyndara við gasstöðina. Skal ég ekki fara nánar út í það atriði að sinni. En ég ætla að fullyrða það, að hefði skynsamleg vinnulöggjöf verið þá til hér á landi. þá hefði slíkt verkfal] aldrei verið háð, sem gert var út af þessu máli síðastl. sumar.

Það er oftsinnis talað um það í umr. um þetta mál, að það sé ekki tímabært enn hér á landi að setja vinnulöggjöf. Það mál þurfi meiri undirbúning og betur að skýrast, áður en slík löggjöf verði sett. En ég held, að allur frestur á þessu máli sé þjóðfélaginu hættulegur. Og ég held, að einmitt nú væri rétt að reyna til hins ýtrasta til að ná einhverju samkomulagi um málið, vegna þess að nú eru yfirvofandi miklar deilur um kaupgjald upp úr næstu áramótum. Það væri þjóðfél. mjög þarflegt, ef hægt væri að leiða þær deilur til lykta án þess að til vinnustöðvunar kæmi, sem búast má við þá. Og vinnulöggjöf, eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa, ætti einmitt að vera nokkur trygging fyrir því, að ekki kæmi til slíkrar vinnustöðvunar.

Það hefir sýnt sig í okkar þjóðfélagi, að hér er engu síður en annarsstaðar í hinum menntaða heimi nauðsyn á því, að þjóðfélagið láti þessi málefni til sín taka. Og ég vænti þess því ennþá, að hv. þm. líti til reynslu annara þjóða í þessum efnum og reyni nú að afstýra þeim voða, sem framundan kann að vera í okkar atvinnulífi, ef ekkert skipulag er á þessum málum og engin tilraun gerð af hálfu hins opinbera til þess að sættir megi haldast.