22.10.1937
Neðri deild: 8. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (1818)

16. mál, vinnudeilur

*Einar Olgeirsson:

„Fátt er frá Dönum, sem gæfan oss gaf, og glöggt er það enn, hvað þeir vilja“, held ég að verkalýðurinn megi segja um það, sem íhaldið býður. Þessir herrar koma með vinnulöggjöf, en það einkennir dálítið afstöðu þeirra til vinnu og verkalýðs, hvað það er, sem þeir hafa áhuga fyrir í vinnulöggjöf. Íhaldsfulltrúarnir hafa alla sína tíð á þingi aldrei lagt fram neina till. um neina löggjöf, sem miði að því að tryggja kjör verkalýðsins. Aldrei hefir komið úr þeirra hóp frv. til laga um stytting vinnutímans eða um tryggilegri aðbúnað í verksmiðjum, eða til þess að hindra slysahættu, og annað þessu líkt. Aldrei hefir komið frá fulltrúum Sjálfstfl. eitt einasta frv., sem miði að því að tryggja verkamönnum réttindi til vinnu, réttinn til að geta lifað. Þegar þessir menn hugsa um vinnu, þá er það fyrst og fremst eitt, sem virðist vaka fyrir þeim, — að takmarka við verkalýðinn þann eina rétt, sem honum er eftir látinn í þessu þjóðfélagi. Verkamennirnir í þessu þjóðfélagi, það eru þeir menn, sem ekkert eiga, sem eru bornir í þennan heim án þess að geta á nokkurn hátt haft ofan af fyrir sér nema selja sitt vinnuafl. Þeirra vinnuafl verður að ganga kaupum og sölum eins og þrælarnir gengu forðum daga milli manna. Þessir menn eru í raun og veru réttlausir í þjóðfélaginu. Þeir eiga allt undir náð mannanna, sem eiga atvinnutækin, um það, hvort þeir vilja kaupa vinnuna eða ekki.

Eini möguleikinn, sem verkamannastéttin þess vegna hefir í þessu þjóðfélagi til þess að knýja fram sínar kröfur, er að neita að selja vinnuafl sitt. Og hverju verður hann að fórna til þess? því, að standa jafnvel tómhentur uppi og svelta á meðan, nema ef hann hefir skapað sér það sterk samtök og sjóði af þeim litlu aurum, sem hann vinnur sér inn, að hann geti haldið sér uppi meðan á verkfalli stendur. Þetta er eina vopnið, sem verkalýðsstéttin hefir til að beita í sinni hagsmunabaráttu. En hverskonar vopn hefir ekki atvinnurekendastéttin til að beita á móti? Ég er hissa á, að menn, sem bæði eru lögfræðingar og telja sig sjálfstæðis-menn, skuli geta flutt á þingi frv., þar sem gengið er út frá, að vinnuteitendur og verkamenn séu jafnréttháir aðiljar. Þeir eru það ekki í þessu þjóðfélagi, og þeir verða það ekki með svona löggjöf.

Við skulum bara hugsa okkur aðstöðumuninn í einu tilfelli. Frv. vill takmarka rétt verkamanna til að leggja niður vinnu, gera þeim sem erfiðast að beifa þessu eina vopni til þess að fá sínum kröfum framgengt. En er réttur atvinnurekenda til þess að stöðva fyrirtækin nokkuð takmarkaður? Felst í þessu frv. nokkur trygging fyrir verkamenn um það, að eigendur framleiðslutækjanna haldi áfram að nota þau? Nei. Það hafa aldrei komið fram frá fulltrúum íhaldsins neinar tillögur um það, að hindra eigendur framleiðslutækjanna í því að hætta að nota þau. En við sjáum það í þessu þjóðfélagi, að menn, sem hafa oft og einatt sölsað undir sig atvinnutækin, stöðva þau. Ekki þurfa þeir að gera það með verkbanni, — nei, bara að segja þetta: Það borgar sig ekki að reka framleiðslutækin, og við rekum þau ekki. Þetta er einstaklingseign, þó að þúsundir manna lifi af fyrirtækinu. Togaraeigendur þurfa ekki að gera neina „lockout“ til þess að svelta verkalýðinn í Reykjavík. Þeir geta bara sagt: Við leggjum upp togurunum, það borgar sig ekki að reka þá. Þeir eru prívateign. Þó að nokkur hundruð alþýðufjölskyldna í Reykjavík verði að sveita eða búa við bág kjör, það kemur þeim ekki við. Þeir geta gert það, sem þeim þóknast. Þetta vald er ekki lagt til að takmarka. Það á að vera óskert framvegis.

Frv. þetta er því í augum verkalýðsins fyrst og fremst spursmál um mannréttindi, það er spursmál um árás á mannréttindi hans. Innihaldið í þessu frv. er í raun og veru það, að verkamaðurinn hefir ekki rétt til að hætta að vinna hjá atvinnurekanda þegar honum þóknast. Honum er fyrirskipað með sérstaklega margbrotnum lögum, að hann verði í sérstökum kringumstæðum að halda áfram að vinna nauðugur. Í fyrsta lagi verður hann að halda áfram meðan þessi svokallaði fyrirvari stendur. 10–l4 daga. Í öðru lagi, svo framarlega sem samþykkt er gerð um þetta, þá er hún svo langt frá að vera á lýðræðisgrundvelli. Það, sem þarna er um að gera, er það, að verkamenn leggi niður vinnu. En stranglögfræðilega skoðað er verkamaðurinn gerður að þræli þennan tíma, gerður ófrjáls verka sinna með sérstökum lögum og skyldaður til að halda áfram að vinna nauðugur. Það er verið að svipta þennan verkamann þeim rétti, sem hann annars hefir til að hætta að selja sína vinnu. Þess vegna eru þessi ákvæði alveg beint brot á mannréttindum og í öðru lagi þeim réttindum, sem verkalýðsstéttin hefir innan þjóðfélagsins. Það er ekki hægt með neinum rétti, en það er hægt með þvingunar- og þrælalögum að fyrirskipa verkalýðnum að halda áfram vinnu þegar hann sjálfur hefir ákveðið að leggja niður vinnu. Atvinnurekandinn hinsvegar má stöðva vinnu þegar honum þóknast. Það er ekkert í þessum lögum, sem hindrar það. Ekki þarf að beita verkbanni heldur bara segja, að reksturinn borgi sig ekki. Atvinnurekandinn getur farið í kringum þetta eins og honum þóknast. Þess vegna er það hlægilegt að sjá talað um, að það sé verið að gera verkamenn og atvinnurekendur jafnréttháa. Í fyrsta lagi eru þeir það ekki í þjóðfélaginu, og misréttið verður ennþá meira en áður með þessum lögum.

Þá eru þessi lög beinlínis höft og fjötur á verkalýðssamtökin hér á landi alveg sérstaklega, vegna þess að hér hagar þannig til, að vinnan er að mjög miklu leyti vertíðarvinna, sem stendur mjög stutt. Ef verkamenn ætla að knýja fram sínar kröfur á þessari stuttu vertíð, er það alveg afgerandi, hvort hægt er að draga verkfall 1014 daga eða ekki. Undir fjöldamörgum kringumstæðum hér á landi er úr sögunni það mál, sem verið er að deila um, á svo löngum tíma, og jafnvel á fjórum dögum, t. d. uppskipun o. fl. Ef verkamönnum er skipað að halda áfram að vinna að uppskipun farms, sem ætlað er að gera verkfall við út af sérstökum kringumstæðum, þá er bara hægt, samkv. þessu frv., að láta skipa þessum farmi upp. Og þá eru verkamenn búnir að missa það vald, sem fólst í því, að ekki væri hægt að skipa farminum upp, þegar loks til þess kemur eftir 14 daga að gera verkfall. Það er ekki til neins að fara í kringum það, að verkalýðurinn er sviptur þeirri aðstöðu, sem hann hefir til að neyta þess valds, sem felst í hans verkfallsbeimild. Þessi fyrirvari þýðir það, að a. m. k. í helming af öllum þeim tilfellum, sem ég þekki úr sögu verkfallanna á Íslandi, myndi þetta eyðileggja gersamlega verkfallsrétt verkamanna. Hinu skal ég ekki neita, að það koma fyrir önnur tilfelli, þar sem þetta þarf ekki endilega að koma að sök, sérstaklega þegar um er að ræða menn, sem hafa fasta vinnu allt árið í kring. En í þeirri vinnu hér á landi, sem verkföll eru tíðust, mundi frv., ef að lögum yrði. einmitt þýða sviptingu verkfallsréttarins fyrir verkamenn.

Í öðru lagi brjóta þessi lög algerlega í bága við allan þann grundvöll, sem tíðkast annars um lýðræði. — einmitt í 21. gr. — (en annars ætla ég ekki sérstaklega út í greinarnar við þessa umr.), en þar er m. a. ákvæði um það, að ef sáttasemjari kemur með tillögu og enginn maður greiðir atkv. með till., en 25% á móti, þá er hún samt samþ. Það er sem sé hægt að knýja verkamannafélög í slíkum kringumstæðum til að ganga inn á að gera að bindandi samningi till. frá sáttasemjara, sem ekki einn einasti félagsmaður er með. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Hér er verið að skapa bókstaflega einræði fyrir sáttasemjara og þverbrjóta lýðræðið í verkamannafélögunum og í þjóðfélaginu. Ennfremur er í frv. algerlega verið að taka sjálfsákvörðunarréttinn af einstökum verkalýðsfélögum með 32. gr. Nú lendir eitt slíkt félag í deilu, en það er jafnframi samningur fyrir 10–20 önnur félög. Við skulum segja, að sáttasemjari gangi út frá, að það liti vel út með atkvgr. hjá þessum félögum öðrum; þá má hann ákveða, að sameiginleg atkvgr. fari fram milli allra félaganna. Hann getur beitt valdi sínu til að nota augnabliks hagsmuni eins hluta verkalýðsins móti öðrum hluta hans, sem stendur í deilu um kjarabætur. Ef t. d. múrarar eða einhver sérstök iðnaðarstétt er að berjast fyrir bættum kjörum, þá er hægt að eyðileggja baráttu þeirra með því að tengja hana við baráttu járnsmiða og prentara, sem ekki eru í augnablikinu að berjast fyrir bættum kjörum, og myndu þess vegna greiða atkv. móti verkfalli í svipinn. Með þessu er algerlega verið að svipta einstök félög öllum sjálfsákvörðunarrétti, og svipta menn, sem vinna í ákveðnu fagi, gersamlega réttinum til þess að ákveða sjálfir, hvort þeir vinna eða vinna ekki.

Það er þess vegna alveg auðséð, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, brýtur alveg í bága við allt, sem við erum vanir að skoða grundvöll fyrir okkar nútíðarþjóðfélagi, fyrir lýðræðinu. Það er þvert á móti þeirri reglu, að meiri hlutinn yfirleitt ráði í félögum. Það eyðileggur sjálfsákvörðunarrétt einstakra félaga, sem mynduð eru til að varðveita hagsmuni sérstakra manna og stétta og sviptir verkamenn rétti þeim. sem þeir hafa til að ráða því sjálfir, hvort þeir vinna eða ekki.

Hv. flm. þessa frv. ættu nú að vita það frá undanförnum þingum, að slík lög eru í algerðri mótsögn við öll réttindi og alla hagsmuni verkalýðsstéttarinnar í landinu, enda hafa verkalýðssamtökin alstaðar í landinu, bæði einstök félög og heildarsamtök þeirra, Alþýðusambandið, mótmælt þessu frv. um vinnudóm og hverju frv., sem hefir farið í líka átt. Það er gefið, að það þýðir ekki að bjóða íslenzkum verkalýð upp á nein þvingunarlög. Hann lætur sér ekki lynda að glata því frelsi, sem hann hefir innan þessa þjóðfélags, á hvern hátt sem verður reynt að svipta hann því. Hann lætur ekki gera sig að þrælum, þó að það sé reynt með löggjöf. Hann mun halda fast við þann grundvöll, sem skapazt hefir innan þjóðfélagsins fyrir hans rétti til að beita sínum samtökum og beita þeim eina möguleika, sem hann hefir til að knýja fram ætt kjör, en það er að neita að selja sína vinnu. Enda veit ég ekki til þess, að hv. sjálfstæðismenn hafi komið með frv. um að takmarka rétt kaupmanna um það, hvaða verði þeir megi selja sínar vörur og annað slíkt.

Hv. flm. minntist á í framsöguræðu sinni, að það væru einhver sérstök lög um vinnudeilur m. a. í sovétríkjunum. Ég er hræddur um, að hv. þm. fari eitthvað villur vegar. Til eru lög um vinnudóm þar, að svo miklu leyti sem atvinnurekendur og launþegar ennþá eru til þar. En það hefir ekki verið í þeim tilfellum, þar sem útlendir auðhringar áttu í hlut og höfðu sérstakar ívilnanir, eins og fyrir nokkrum árum. Þar hafa verkamenn haft sinn frjálsa verkfallsrétt, eins og í öllum sovétríkjunum. En hitt gefur að skilja, að maður heyrir ekki mikið um það, að verkamenn geri verkfall á móti sjálfum sér. Það er rétt eins og á því tímabili þegar t. d. járnsmiðurinn vann einn í sinni litlu smiðju. Hann gerði ekki verkfall á móti sjálfum sér. Það er ekki hætt við verkföllum þar, sem verkamenn eiga sjálfir tækin, og verða jafnvel óþekkt þar, sem sósíalisminn ræður.

Hv. flm. hefir tekið fram, að skapazt hafi á Íslandi á síðasta tíma þjóðfélag, sem myndar andstöðu á milli þeirra, sem eiga framleiðslutækin, og verkamannanna, sem leggja fram vinnu sína við þau. En þeir ganga út frá skipulagi, sem kallað er auðvaldsskipulag. Einkenni þess eru þessar tvær stéttir. Aftur á móti þar, sem þessar tvær andstæður eru ekki til, þar er aðeins ein stétt, hin vinnandi stétt, sem sjálf á framleiðslutækin. Þar er líka eðlilegt, að þau fyrirbrigði, sem hv. flm. var að lýsa og fylgja þessu þjóðfélagi, séu ekki til. Þess vegna er ekki rétt af hv. flm. að setja í sama flokk þessi sósíalistísku ríki, þar sem stéttaskiptingu er útrýmt, og önnur ríki eins og hann minntist á, svo sem Þýzkaland og Ítalíu, þar sem auðmannastéttin hefir sérstaklega skörp þvingunarlög gagnvart verkalýðnum til þess að fyrirbyggja, að hann beiti sínum samtökum, — og ganga það langt í þessari þvingunarlöggjöf, að sjálf verkalýðssamtökin eru algerlega bönnuð, yfirleitt öll samtök þegnanna til á nokkurn hátt að bæta sín kjör.

Hv. flm. talaði ennfremur um, að vinnustöðvun væri til tjóns. Jú, það er margskonar vinnustöðvun í núv. þjóðfélagi. Ógurlegasta vinnustöðvunin er sú, að mikill hluti framleiðsluaflsins er látinn vera ónotaður. Þeir menn, sem eiga framleiðslutækin, stöðva þau um lengri tíma og láta alls ekki nota þau og láta verkalýðinn, sem er upp á þá kominn um atvinnu, vera atvinnulausan. Þeir, sem ráða í þjóðfélaginu, eyðileggja þannig meginhlutann af framleiðsluaflinu, sem þjóðfélagið byggist á. Og þetta er og hefir verið einkenni auðvaldsskipulagsins. Hv. flm. talaði ekki um hin sorglegu áhrif þeirrar vinnustöðvunar og hvað það þýðir fyrir verkamenn og þjóðfélagið allt, þegar framleiðslan minnkar stórkostlega og þjóðin verður að upplifa hörmungar, líkt og þegar styrjöld eða drepsótt geisar, — það fyrirbrigði, sem við köllum kreppu.

Það eru þessar vinnustöðvanir, sem eru miklu hættulegri þjóðfélaginn heldur en nokkurntíma hinar, sem getur leitt af verkföllum. Þetta eru þær vinnustöðvanir, sem hvað eftir annað hafa ætlað að ríða þjóðfélaginu að fullu. Við upplifum í nútímanum hvað eftir annað, að helmingur af öllu framleiðsluafli eins lands er stöðvaður, að helmingur verkamanna er atvinnulaus, — að helmingur verksmiðja eða annara framleiðslutækja, sem gætu verið í gangi, er látinn ónotaður. Ef hv. flm. væri illa við vinnustöðvanir, eins og hann vill vera láta, þá eru þetta vinnustöðvanir, sem hann ætti að vinna að því að banna með lögum.

Við munum bezt eftir því fyrir tveimur árum, þegar einmitt það hlutafélag, sem hv. flm. þekkir mjög vel, Kveldúlfur, stöðvaði alla sína togara og lagði þeim upp. Kveldúlfur gat gert það, sem honum þóknaðist við sína togara, hann gat látið vinnu stöðvast heilt ár, ef honum þóknaðist. Og ég heyri alls ekki, að sjálfstæðismönnum hafi verið sérstaklega illa við slíka vinnustöðvun. Ég get trúað, að slík vinnustöðvun hafi verið í ætt við slík fyrirbrigði, sem þekkjast frá Frakklandi og víðar, þar sem er ríkisstjórn, sem auðmönnum og atvinnurekendum er illa við, þá stöðva þeir fyrirtækin í stórum stíl, til þess að þjóðfélagið og stjórn þjóðfélagsins skaðist. Og jafnvel mun vera tilhneiging til slíks hér á landi.

Það eru þessar vinnustöðvanir, sem ætti að setja lög á móti og hindra. Ég lýst við, að atvinnurekendur mundu þá segja: Hvernig á að skipa okkur að halda áfram atvinnurekstrinum, þegar okkur finnst hann ekki borga sig? — En hvar er þá jafnréttið? Geta verkamennirnir þá ekki sagt: Hvernig á að skipa okkur að halda áfram að vinna, þegar okkur finnst það ekki borga sig? — Það er ekki til neins að tala um neitt jafnrétti í sambandi við þetta frv.; það er bara hræsni. Það, sem farið er fram á, er að hneppa verkalýðinn að svo og svo miklu leyti í þrældóm, innleiða þrælahald og eyðileggja verkalýðssamtökin.

Viðvíkjandi þeirri reynslu, sem hv. flm. vitnaði í frá verkalýð í öðrum löndum, — sem ég mun fara nánar út í við 2. umr., ef frv. kemst svo langt, — skal ég geta þess, að reyslan á Norðurlöndum er öðruvísi en hv. flm. vill vera láta. Því að slík vinnulöggjafarfrv. í Svíþjóð voru felld, vegna mótspyrnu verkalýðsins. Og það, sem samþ. var í Noregi, er ekkert annað en pappírsblað, sem verkalýðurinn „respekterar“ ekki, hefir brotið og gert að engu. Það er ekki til neins að svipta stétt eins og verkamannastéttina í einu þjóðfélagi rétti sínum, þó að hægt sé að fá utan um það einhvern meiri hl. í svipinn. Verkamannastéttin mun ekki frekar láta svipta sig verkfallsréttinum heldur en bændur á Íslandi mundu láta svipta sig réttinum til að hafa sín samvinnufélög. Vinnustéttirnar á Íslandi eru það þroskaðar, að þær vita, hvað samtakaréttindin gilda, og eru jafnan staðráðnar í að vernda þessi samtakaréttindi sín óskert, eins og þær eru staðráðnar í að vernda hagsmuni sína og líf sitt. Þess vegna er ekki til neins að bjóða þeim upp á þetta. En að vísu má í fyrsta lagi slá því föstu, að Alþingi mun aldrei samþykkja svona lög. Hitt er alveg víst, að hin vinnandi stétt á Íslandi er of sterk og of frelsiselsk til þess að hún léti framkvæmd slíkrar löggjafar þolast.