22.10.1937
Neðri deild: 8. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (1820)

16. mál, vinnudeilur

Flm. (Thor Thors):

Það þarf engan að undra, þó að hátt láti í kommúnistum um þetta máli Þeim eru vinnudeilur ekkert hryggðarefni, heldur reyna þeir þvert á móti stöðugt að ala á vinnudeilum, auka óánægjuna, auka fátæktina. Þeir vita, að allt þetta verður til þess að auka fylkingar kommúnistaflokksins. En það þykir mér undarlegt, að þessi hv. þm., sem í einu og öllu fer eftir fyrirskipunum frá Moskva, skuli vera svo eindregið á móti vinnulöggjöf hér á landi. Sjálfur Stalín, sem mun vera æðsti húsbóndi þessa hv. þm., er ekki feiminn við að skipa þessum málum með löggjöf.

Ég hefi hér í höndum bók, er nefnist „Collective agreements“ og gefin er út af verkamálaskrifstofu Þjóðabandalagsins. Í henni er rakin vinnulöggjöf flestra ríkja í heiminum, og í lok bókarinnar er skrá yfir slíka löggjöf í hinum ýmsu löndum. Þar má sjá, að ekkert ríki hefir á síðari árum sett eins margvísleg lög um vinnuna og einmitt sovétríkin. Ég skal lána hv. 5. þm. Reykv. þessa bók, svo að hann geti lesið kaflann um vinnulöggjöf í sovétríkjunum. Ég tel víst, að hann rengi ekki bókina, þar sem hún er gefin út af þeirri stofnun, er þessi hv. þm. hrósaði svo mjög fyrir nokkrum dögum, nefnilega Þjóðabandalaginn. Kaflinn um vinnulöggjöfina í sovétríkjunum er einar tólf blaðsíður; ég get því ekki lýst henni ýtarlega, en skal þó drepa á nokkur atriði.

Rísi ágreiningur um kaup eða vinnukjör hjá ríkisfyrirtæki, er málinu vísað til sáttanefndar, og er úrskurður hennar bindandi fyrir báða aðilja. Ekki mega verkalýðsfélögin í sovétríkjunum gera verkfall, vegna sameiginlegra hagsmuna fólksins. Allar deilur á að jafna með sáttanefndum og gerðardómum, og er úskurður þeirra jafnan bindandi. Sé brotið gegn ákvæðum löggjafarinnar, er höfðað sakamál á hendur lögbrjótunum. Ég vil nú spyrja hv. 5. þm. Reykv.: Er verkalýðurinn sælli, ef hann lifir við sultarkjör undir einhverjum einvaldsherra, t. d. hv. 5. þm. Reykv., en ef hann lifir við sæmileg kjör og vinnur hjá einkaatvinnurekanda? Það er hægurinn hjá að segja, að verkalýðurinn í Rússlandi geti ekki gert verkfall gegn öðrum en sjálfum sér, en ég er hræddur um, að hann megi lengi bíða eftir þeirri kauphækkun, sem kæmi af auknum gróða fyrirtækjanna.

Ég hefi hérna aðra bók, um kjör verkalýðsins í sovétríkjunum, sem hv. 5. þm. Reykv. hefði einnig gott af að lesa. Hún er eftir franska hagfræðinginn André Gide. André Gide var kommúnisti áður en hann fór til sovétríkjanna og kynntist ástandinu þar af eigin reynd. Hann lýsir því mjög greinilega, hvílík blekking það sé, sem kommúnistar halda fram, að engin stéttaskipting sé lengur til í sovétríkjunum. Þar er þvert á móti mjög greinilegur munur á hinni nýju yfirstétt, leiðtogum kommúnistaflokksins, og undirstéttunum. Verkamenn fá mjög mismunandi laun, sumir fá 16 rúblur á dag, aðrir ekki nema 5–6 rúblur. Og þegar aðgætt er, hvílík dýrtíð ríkir í sovétríkjunum og hve kaupmáttur rúblunnar er lítill, þá mun óhætt að fullyrða, að kjör verkafólksins þar eru sízt betri en í auðvaldsríkjunum.

Ég furða mig á því, að hv. 5. þm. Reykv. skuli ekki hafa kynnt sér betur, hvað er að gerast í landi því, sem hann sífellt er að dásama, — ég þekki það frí skólaárum okkar, að hann er bezti námsmaður og ætti að geta lært það.

Þegar þess er gætt, hver kjör verkalýðurinn hefir í því ríki, sem hv. þm. vill alltaf hafa sem fyrirmynd, verður litið úr slagorðum hans um það, að verkalýðurinn eigi að hafa rétt til að gera verkföll, að frv. sé árás á mannréttindi verkalýðsins, er ekki megi hrófla við. Í sovétríkjunum á verkalýðurinn ekki þau einföldu mannréttindi að mega gera verkfall. Þá erum við þó betri; við leggjum til, að verkalýðurinn hafi þennan rétt, en við viljum, að þjóðfélagið geri það. sem í þess valdi stendur, til að afstýra vinnustöðvunum. Hv. þm. talaði um, að það væru aðrar vinnustöðvanir, sem þyrfti að afnema með lögum. Því ekki að setja lög um að afnema kreppuna? Ég geri ráð fyrir, að enginn flokkur yrði á móti slíku frv., ef líkindi þættu til, að hægt yrði að framfylgja slíkum lögum. Ég skora á hv. þm. að bera fram frv. í þessa átt. En ég er hræddur um, að ákvarðanir frá Alþingi hefðu ekki mikil áhrif á kreppurnar. Þær eiga sér dýpri rætur en svo, og það er erfitt að henda reiður á þeim; um þær hefir verið sagt, að þær væru eins og vindurinn, enginn vissi, hvaðan þær kæmu eða hvert þær færu.

Hv. þm. sagði í ræðu sinni, að vinnulöggjöfin í Noregi væri ekki virt af verkamönnum. Ég veit ekki betur en að lögin séu þar í fullu gildi og hafi hvað eftir annað haft ágæt áhrif. Fyrir nokkrum dögum jafnaði sáttasemjari allvíðtækar vinnudeilur þar með miðlunartillögu. Á þessari löggjöf hefir engin breyting verið gerð síðan verkalýðsstjórnin komst að völdum, nema hvað svonefnd „tukthúslög“ voru afnumin, en það var aðeins breyting á einni grein hegningarlaganna, sem átti að tryggja vinnandi mönnum vernd, þó að verkfall stæði yfir.

Ég þarf ekki að fara nánar út í ræðu hv. þm. Reykv. Hún var eins og ég bjóst við, enda veit ég ekki, út af hvaða málum hv. þm. ætti að þenja sig hér á Alþingi, ef ekki málum sem þessum. Æðsti valdadraumur þessa hv. þm. er sá, að verða lítill Stalín hér á landi. Og verkalýðurinn þarf ekki að vera í miklum vafa um það, hvern veg hv. 5. þm. Reykv. mundi skipa lögum um vinnudeilur. Hann reyndist fyrirmyndinni trúr í því sem öðru.

Ræða hv. 3. þm. Reykv. kom mér ekki heldur á óvart. Hann verður að leggja sig allan fram til þess að hafa í fullu tré við hv. 5. þm. Reykv., — samkeppnin lifi á því sviði! En það er þó einkennilegt, að hv. 3. þm. Reykv., sem er í Alþfl., skuli beinlínis vísa til ræðu hv. 5. þm. Reykv., eins og hann gerði nú. Hvergi annarsstaðar á Norðurlöndum mun það tíðkast, að sósíalistar og kommúnistar eigi samleið um þessi mál. Það væri óhugsandi alstaðar annarsstaðar en hér, að sósíalistar gerðu kommúnista að talsmanni sínum í þessum málum.

Hv. 3. þm. Reykv. fór um það mörgum orðum, að verkalýðfélögin væru andvíg þessari löggjöf. Á það hefir lítið reynt. Kommúnistum tókst í byrjun að fá nokkur mótmæli samþ. og send Alþingi. En ég efast ekki um það, að eftir því sem verkamenn kynna sér þessi mál betur, verði þeir þeim fylgjandi, ekki síður en í öðrum löndum. Og það er víst, að mikill meiri hl. þjóðarinnar heimtar löggjöf um þessi mál, — löggjöf, sem getur bundið enda á það stjórnleysi. sem nú ríkir í þessum efnum.

Ræði hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv. hafa talað um það, að réttur atvinnurekanda væri meiri en réttur verkamannsins. En í frv. þessu eru gerðar samskonar takmarkanir á rétti atvinnurekanda til þess að gera verkbann (lockout) og verkamanna til að gera verkfall (strike). Sáttasemjari á að fylgjast með öllu því, sem gerist á þessu sviði, og grípa inn í hvenær sem hann sér verkfali eða verkbann yfirvofandi. Ef þessum hv. þm. finnst, að skilgreiningin á því, hvað sé verkfall og hvað verkbann sé ekki nógu ljós í frv., þá er hægurinn hjá að bæta úr því. Við flm. höfum marglýst því yfir, að við erum reiðubúnir að taka til athugunar allar þær skynsamlegar brtt., er fram kunna að koma. Fyrir okkur er það aðalatriðið, að þjóðfélagið geri það, sem í þess valdi stendur, til að afstýra vinnustöðvunum og því tjóni, sem af þeim leiðir.