22.10.1937
Neðri deild: 8. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (1824)

16. mál, vinnudeilur

*Héðinn Valdimarsson:

Ég ætla ekki að fara langt út í þetta mál. Báðir ræðumenn Sjálfstfl. segjast hneykslast á því, að Alþfl. og Kommfl. eru sammála um, að þetta frv. sé óhæfa og gert í þeim einum tilgangi að spilla aðstöðu verkalýðsins. Þetta er ekkert undarlegt. Við alþýðuflokksmenn höfum stjórn á hendi í nærri öllum verklýðsfélögum landsins, — a. m. k. þeim, sem eru í Alþýðusambandinu —, og það er réttur þeirra félaga, sem er í húfi. Kommúnistar hafa sjálfir skýrt frá sínum ástæðum gegn frv.

Þá talaði hv. 8. landsk. um það, að við hefðum ekkert umboð til að koma hér fram fyrir hönd verkalýðsins í þessu máli. Það er hlægilegt að heyra þennan mann, sem hefir víst aldrei á æfinni komið á fund í verklýðsfélagi, bollaleggja um það, hverjir fari með umboð verkalýðsins. En hann ætti eftir prófum sínum að dæma að vera læs og geta lesið ákvarðanir alþýðusambandsþings, þar sem einmitt er vikið að þessu frv., sem hér er um að ræða, og geta séð, hvaða umboð okkur fulltrúum Alþfl. er falið í þessu máli fyrir hönd verkalýðsfélaganna. (GÞ: Verkamanna, sagði ég). Það er svo skýrt til orða tekið í ályktun alþýðusambandsþings, að ekkert er um að villast. Og ég hygg, að í öllum verklýðsfélögum landsins, — a. m. k. þeim, sem eru í Alþýðusambandinu —, hafi verið tekin ákveðin afstaða í málinu, gegn þessu frv. Neitun á þeirri staðreynd sýnir varla annað en það, hversu lausir fulltrúar Sjálfstfl. eru við það að vita nokkurn skapaðan hlut um afstöðu alþýðunnar. — En þegar þeir eru að skjóta því inn, að vilji verkamanna sé annar en vilji verkamannafélaganna, koma þeir bara upp um innsta tilgang sinn með vinnulöggjöf, þann, að þeir vilja samtök alþýðunnar feig.

Hitt er annað mál, að það er sjálfsagt hægt að búa til vinnulöggjöf, sem yrði að virkilegu gagni, — á sama hátt og þegar samvinnulöggjöfin varð til. Íhaldsflokkurinn — faðir Sjálfstfl. — vildi beita samvinnufélögin þvingunarlögum. Samvinnumenn tóku sjálfir upp löggjafarbaráttu og tryggðu réttarafstöðu félaganna. Á sama hátt hygg ég, að hægt væri að setja inn í vinnulöggjöf ákvæði um réttindi verkalýðsins, þannig að hver maður gæti séð, að hans afstaða batnaði við þau, og breytingarnar yrðu til augljósra framfara yfirleitt.

Nú hefir nefnd manna starfað að rannsókn þessa máls. Tillögur frá henni eru væntanlegar. Það er líka vitað, að alþýðusambandsþing kemur bráðlega saman og tekur málið til athugunar. Þó verð ég að lýsa því yfir, að ég álít alls ekki nóg að leggja slíka löggjöf fyrir alþýðusambandsþing; það þarf að leita álits félaganna kringum allt land. — Ég tala ekki um slíka vinnulöggjöf, sem í þessu frv. felst, heldur löggjöf, sem gerð væri af þekkingu og betri vilja til að leysa vandann. — Sjálfsákvörðunarréttur verklýðsfélaganna í þessum málum þeirra á að vera óskerðanlegur. Það eitt er í samræmi við rétt hinna stóru stétta. Og jafnvel Sjálfstfl. hefir heimtað slíkan rétt fyrir stéttirnar, t. d. fyrir útgerðarmenn, sem eru aðeins nokkur hundruð manna, ef þeir eru teknir með, sem eiga hlut í skipum. — Verkamannastéttin þarf hinsvegar ekki að halda á umhyggjusemi þeirra, sem standa að þessu frv. verkamannafélögin þurfa ekki að skapa sér neina æðri stjórn til þess að ekki verði verkföll. — þau ráða því sjálf.