20.10.1937
Neðri deild: 6. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (1832)

17. mál, jarðhiti

Flm. (Bjarni Bjarnason):

Efni þessa litla frv. mun hafa komið til meðferðar hér í Alþingi áður, en um þetta mun þó ekkert hafa verið lögfest.

Jarðhita hefir til skamms tíma verið lítill gaumur gefinn, en á síðustu árum hefir þó skýrzt fyrir mönnum, hversu mikils virði jarðhitinn er til margskonar nota. Og einmitt þegar þessi skilningur manna vex á gildi jarðhitans, virðist eðlilegt, að einhver ákvæði, helzt lagaákvæði, séu til, mönnum til styrktar og leiðbeiningar. Það er allmikil hætta á því að deilur geti risið upp einmitt í sambandi við jarðbita, sem menn sjá nú, hversu mikill fjársjóður er fyrir þær jarðir, sem hann hafa.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir ýmsum atriðum, sem líkleg væru til þess að valda erfiðleikum og deilum, og reynt að koma í veg fyrir, að þær geti orðið varanlegar. Það er t. d. ákveðið hér, að ekki megi undanskilja hverahita, ef jörð er seld, og eignin sé frá því sjónarmiði ekki rýrð. Það tíðkast mjög mikið, að eignir séu rýrðar, eftir því sem þær ganga oftar kaupum og sölum.:1 þetta ekki hvað sízt við um veiðirétt.

Þá er gert ráð fyrir því, að ríkinu sé boðinn forkaupsréttur, þegar um sölu er að ræða. Þetta gæti tryggt tvennt. Í fyrsta lagi, að ríkið ætti greiðari aðgang að því að eignast slík svæði, og í öðru lagi:etti það að geta ráðið nokkru um það, að þessi hlunnindi færu ekki að ganga kaupum og sölum með óhæfilegu verði. En það er enginn efi á því, að á þessu er mikil hætta, eftir því sem skilningur manna vex á notagildi jarðhitans. Menn fara að reyna að gera sér óeðlilega mikið fé úr honum. Og einmitt með þetta fyrir augum er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. geti fylgzt með því, hvað gerist í þessum málum. Í frv. er gert ráð fyrir því, að sé slík eign tekin eignarnámi, þá væri samt sem áður tryggður réttur eigandans til nægilegrar orku til heimilisþarfa hans.

Ég vildi svo að lokum óska þess, í fyrsta lagi, að þetta frv. gæti orðið að l. á þessu þingi, svo að hægt yrði að taka svolitla fjárhæð upp í fjárlög í því augnamiði, að frekari rannsóknir geti farið fram og þekking þannig aukizt á þessu sviði, sem útlit er fyrir, að geti verið mikils virði fyrir þjóðina í framtíðinni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að sinni, en vil mælast til, að frv. verði vísað til 2. umr., að lokinni þessari umr., og til landbn.