25.10.1937
Neðri deild: 10. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (1846)

36. mál, skemmtanaskattur til sveitarsjóða

*Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins óska þess, að þetta mál fái að ganga til 2. umr. og menntmn. Ég ætla, að það hafi komið fyrir þá n. á síðasta þingi. Það fékk ekki afgreiðslu að því sinni hér Um ástæður fyrir frv. nægir að vísa í grg. þess. Samkv. lögum er hægt að skattleggja héraðsmót ungmennafélaga um allt að 20% af brúttótekjum þeirra. Af því leiðir, að félögin geta komizt í hreinustu ógöngur. Þetta hefir verið framkvæmt í Borgarfirði, og það eru svo þungar búsifjar fyrir ungmennafélög þar í sýslum, að það verður mesta hindrun fyrir allri starfsemi þeirra. Á þessum mótum er verið að afla fjár til íþróttastarfsemi, fræðslu, heimilisiðnaðarnáms og ýmiskonar menningarþarfa. Ef hægt er að taka 1/5 af tekjum héraðsmótanna til hreppsfélaganna, þar sem mótin eru haldin, verður svo lítið eftir — að kostnaði frádregnum —, að þetta er félögunum óbætanlegur hnekkir.

Á síðasta þingi náði frv. fram að ganga í Ed., og ég vænti þess, að nú fái það einnig framgöngu hér.