26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (1860)

37. mál, landhelgissjóður Íslands

Ísleifur Högnason:

Í sambandi við þetta mál vil ég leyfa mér að gera þá fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvernig á því standi, að tekjur landhelgissjóðs af sektum hafa rýrnað svo mjög þessi síðustu ár og hv. 6. þm. Reykv. skýrði frá. Stafar þetta af því, að erlend veiðiskip virði nú landhelgina meira en áður, eða er það vegna ákvæða í milliríkjasamningum, t. d. þýzku samningunum svokölluðu, að þessar tekjur hafa rýrnað? Samkv. upplýsingum, sem ég hefi fengið frá bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum, hafa miklu færri veiðiskip verið handtekin einmitt síðan þýzku samningarnir voru gerðir. Þetta er ekki óeðlilegt, ef það er rétt, að í þessum samningum séu ákvæði þess efnis, að þýzkum togurum, sem teknir séu í landhelgi án þess að vera beinlínis staðnir að veiðiþjófnaði, skuli sleppt með aðvörun. Þetta getur verið ástæðan fyrir því, að tekjur ríkissjóðs af sektum hafa svo stórlega minnkað. En sé þetta ákvæði í milliríkjasamningum, t. d. í þýzku samningunum, þá er um leið búið að gera landhelgisgæzluna að hreinasta skrípaleik.