26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (1875)

41. mál, teiknistofa landbúnaðarins

*Héðinn Valdimarsson:

Ég get í aðalatriðum fallizt á þetta frv., en það nær bara of skammt, þar sem það nær aðeins til bænda. En það er ekki minni þörf til leiðbeininga í byggingarmálum verkamanna í kaupstöðum. Byggingarfél. verkamanna eru aðeins á 2–3 stöðum, og það er allt of lítið. Aftur á móti fær allur sá fjöldi manna, sem ekki byggir samkv. l. um verkamannabústaði. engar leiðbeiningar.

Þá finnst mér, að þær teikningar, sem teiknistofan tæki gildar, yrðu eftir samkeppni á meðal húsameistara, því að betur sjá augu en auga, og á þann hátt er reynt að sjá fyrir því, að fram komi það bezta, sem völ er á. Eftir frv. er teiknistofunni gefið alræðisvald í öllum byggingarmálum bænda, en ég vil, að hennar úrskurði megi alltaf skjóta til viðkomandi ráðh.

Um húsgögnin er það sama að segja og um húsin sjálf, að hjá alþýðufólki í bæjum vantar líka góð og ódýr húsgögn. Það hefir nokkuð verið hugsað um þetta af húsgagnameisturum, en aldrei orðið neitt úr framkvæmdum, að maður geti sagt.

Ef það ráð yrði tekið, að gera þetta að heildarlöggjöf fyrir sveitir og bæi, kæmu líka til greina aðrir sjóðir frá bæjanna hálfu, sem stæðu undir kostnaðinum hvað þá snerti.

Ég vænti, að hv. n. taki tillit til þessara aths., einkum þess hvort ekki er hægt að færa sviðið út og láta löggjöfina líka ná til alþýðufólks í kaupstöðum. Þess vegna finnst mér eðlilegra, að frv. verði vísað til allshn., og það vil ég leggja til, að gert verði.