26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (1884)

44. mál, sumarvinnuskóli alþýðu

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Við hv. þm. N.-Ísf. höfum flutt þetta frv. sem framhald af þeim frv., sem flutt hafi verið af Alþfl.mönnum á síðustu þingum. Þó er farið hér nokkuð inn á nýjar brautir. Þau frv., sem áður hafa verið flutt, hafa aðallega verið tvennskonar. Önnur eru viðvíkjandi sumarvinnu unglinga án sambands við beina kennslu, og þá aðeins í smáflokkum; má þar benda á vinnu þá, sem unnin var bæði við Sogið og í nágrenni Reykjavíkur. Eins og í frv. því, er Sigurður Einarsson flutti hér á síðasta þingi, er gengið inn á nýja braut í þessu frv., sem er að koma upp atvinnunámi fyrir unglinga. Er þar bent á bændaskólanám, nám í sjómennsku o. fl. Í þessu frv. er aðallega gert ráð fyrir því, að heilir árgangar af unglingum á aldrinum 16–20 ára geti komizt fyrir innan ramma þess og unnið að ýmsum þjóðnytjaverkum, sem annars mundi ekki fást fé til í fjárlögum, og að þeir vinni undir umsjá valdra manna, í sambandi við bóklegt nám og íþróttanám, og er þar bent á sumt sem nauðsynlega íþrótt fyrir sjómannaþjóð eins og okkur, og hinar félagslegu íþróttir, en ekki lögð stund á metakeppni, eins og nú tíðkast. Af þeim framkvæmdum, sem bíða og alltaf er hægt að grípa til og lítið framlag þarf til í fjárlögum, er margt talið upp, eins og t. d. fjallvegirnir, sem við höfum orðið að láta sitja á hakanum vegna veganna í byggðum, og aðrar ferðamannaleiðir, sem nauðsynlegt er að gera sem fyrst færar, þegar útlendir ferðamenn eru nú farnir að koma hingað með erlendum og íslenzkum skipum. Þá er skógræktin, sem lítið annað hefir verið gert að, þótt hér hafi verið skógræktarstjóri, en að girða blett og blett. Þar er mikið verkefni framundan, sem óvíst er, að fengist til fé í fjárlögum á annan hátt, en skemmtilegt verk fyrir unga menn. Þá er bent á sandgræðsluna, áveitur og fyrirhleðslur, nýbýlarækt, sem gert er ráð fyrir, að yrði fyrir þá menn. sem í bæjunum eru, vernd og viðhald náttúruminja, aðstoð við vísindalegar rannsóknarferðir, sem búast má við, að aukist þegar komin er upp rannsóknarstofnun fyrir atvinnuvegina, því menn munu gera sér far um að finna, hvaða efni eru hér í jörðu. Það er gert ráð fyrir, að nemendur annist sjálfir umhirðu og matreiðslu alla, en einhver yrði vitanlega að vera til að hafa eftirlit og yfirumsjón með því.

Svo er gert ráð fyrir hjálparstarfsemi, eins og þegar fjárpest, eins og sú, er nú er, eða óþurrkar geisa, að þá megi gripa til vinnuflokka með samþykki ráðh., til þess að hjálpa þeim, sem verst verða úti. Það er gert ráð fyrir, að vinnutími verði 5 klst. n dag og að nemendunum verði látin í té hlífðarföt, verkamannaföt og skófatnaður, en kaupgjald yrði mjög lágt, eða að þeir fengju ekki nema kr. 1,50 fyrir hvern virkan dag, og yrði það greitt í lok námstímans. Nám og ferðalög yrðu ókeypis, svo að unglingarnir hefðu, er þeir kæmu frá náminu, um hundrað krónur í vasanum. Í bóklega náminu er, sem eðlilegt er, gert ráð fyrir, að lögð verði helzt stund á þjóðleg fræði og mönnum kennt að þekkja sögu lands og þjóðar, þekkja frelsi þjóðarinnar og bera virðingu fyrir því og lýðræðinu, þannig að þessir ungu menn verði betri þjóðfélagsborgarar en annars.

Þetta mundi að vísu kosta allmikið fé. Ef um 500 unglingar kæmu á hverju sumri, sem er líkleg tala, ef eins og í frv. stendur, þeir unglingar, sem þarna kæmu, fengju forgangsrétt fram yfir aðra jafnaldra sína, sem ekki hafa notfært sér þetta nám, um alla opinbera vinnu eftir á. En með þessu mundi miklu böli af létt, þótt það kosti nokkurt fé. Vegamálastjóri hefir gert lauslega áætlun um, hvað þetta mundi kosta; ég hefi hana því miður ekki hjá mér, en hann gerði ráð fyrir, að ef um 500 unglingar yrðu í þessum flokkum, mundi það kosta sem næst 250 þús. kr. Og þegar menn athuga, hvernig atvinnuleysi unglinga fer fyrst og fremst með þá sjálfa, þegar þeir ganga langtímum saman án þess að snerta á vinnu, og þegar það er athugað, hvernig það fer með heimili þeirra að hafa þá gangandi þar atvinnulausa, mundi þessu fé ekki illa varið, ef það gæti minnkað atvinnuleysið og gert þessa ungu menn að betri og fullkomnari borgurum en þeir nú eru.

Ég leyfi mér að leggja til, að málinn verði vísað til menntmn. að lokinni þessari umr.