26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (1886)

44. mál, sumarvinnuskóli alþýðu

*Bjarni Bjarnason:

Það skýrist æ betur, eftir því sem tími líður, hversu nauðsynlegt það er og í raun og veru algerlega óhjákvæmilegt að gera eitthvað verulegt til þess að æskumenn séu ekki atvinnulausir. Kynnist maður eitthvað ástandinu hér í Reykjavík, sem mun vera lakast á öllu landinu — þó er ég ekki viss um það í hlutfalli við fólksfjölda —, þá vitum við, að nefndir og ráð starfa hér í bænum að því markmiði að komast fyrir afbrot unglinga og gera tilraunir til að afstýra þeim. Barnaverndarráð hefir þegar sett á stofn skrifstofu og fengið í sína þjónustu lærðan uppeldisfræðing til að kynna sér það t. d., að hve miklu leyti afbrot ungra manna í Reykjavík stafa af fávitahætti meðfæddum, og hvað kynni að stafa af uppeldisskorti og afskiptaleysi. Þetta er mjög gagnlegt, því að það er mjög mikilsvarðandi í þessu máli, hvort afbrot unglings stafar af meðfæddum vanþroska eða þá af uppeldisskorti. Þá hefi ég rekið mig á það, að lögreglustjóra er fyrirskipað af dómsmrn. að greiða einum kennara í Reykjavík nokkur laun mánaðarlega til þess að fylgjast með afbrotaunglingum hér í Reykjavik. Þessi dæmi með mörgum fleirum sýna það, að hér er um ekkert hégómamál að ræða.

En það, sem sérstaklega hefir vakið athygli mína í sambandi við þetta mál hér í Alþingi, er þessi togstreita, sem ómögulegt er að fá úr afskiptum Alþingis af þessu unga fólki, vandræðabörnum og atvinnulausum unglingum. Það er auðvitað langt frá, að atvinnulausir unglingar séu yfirleitt vandræðaunglingar, en að ég nefni þessa tvo hópa saman, stafar af því, að atvinnuleysið dregur margan ungling út á villigötur.

Þrátt fyrir það, að ég hefi á tveimur undanförnum þingum gert það, sem í mínu valdi stendur, til þess að leysa þetta mál úr togstreituaðstöðunni, þá hefir það ekki tekizt. En ég fullyrði reyndar, að lengst komst í þá átt á síðasta þingi. Eins og hv. þm. Snæf. tók fram, flutti ég þáltill., sem samþ. var með brtt. frá þáv. 11. landsk., um að skipa nefnd, sem í væru menn úr öllum flokkum. Þessi nefnd var skipuð þeim Sigurvin Einarssyni af hendi Framsfl., Gunnari Thoroddsen af hendi Sjálfstfl. og Vilhjálmi Vilhjálmssyni af hendi jafnaðarmanna. Nú skyldum við halda, að áður en flutt væri frv. á Alþingi, hefði verið talað við nefndina og grennslazt um, hvað hún hefði gert og hvað hún hygðist að gera. En ég fullyrði, að hv. flm. þessa frv. hafa ekki talað við nefndina. Þeir hafa ekki talað við sinn eiginn mann í nefndinni; þetta hefir Sigurvin Einarsson sagt mér, og ég veit það sama einnig frá Vilhjálmi. Svo að það virðist vera sami einlægi vilji þessara hv. flm. að taka málið á þessu þingi eins og gert var á s. l. þingum, þegar Sigurður Einarsson, þáv. 9. landsk., flutti málið og gerði pólitískt, svo að jafnaðarmenn gæfu haft sérstakan heiður af að leysa það. Ég segi þetta að gefnu tilefni, en ekki til áreitni. Þannig liggur málið fyrir og er augljóst, og sanna það þau dæmi, sem ég hefi nefnt. Nú hefi ég talið það skynsamlegra vegna lausnar þessa ágæta og nauðsynlega máls, að ekki verði farið inn á togstreituleiðina aftur, og að nefndin, sem skipuð var á síðasta þingi mönnum úr öllum flokkum, verði kölluð til viðtals og reynt að leysa málið ópólitískt. Það stendur nú í grg., að nefndin muni hafa lítið starfað. Þetta er náttúrlega að nokkru leyti rétt, — að því leyti, að fulltrúi Sjálfstfl. mætti ekki á fundum, og hann fór svo úr nefndinni, hr. Gunnar Thoroddsen. En í hans stað var skipaður Jóhann Möller. Ég held ég megi fullyrða, að hann hafi annaðhvort aldrei eða sjaldan mætt í nefndinni. Og það eru vandræði af sjálfstæðismönnum, að tryggja ekki, að maður starfaði í slíkri nefnd. Aftur á móti hafa hinir oft talað saman, og þeir hafa gert sér algerlega grein fyrir, hvernig þetta mál ætti að leysa. Þetta hafa þeir að sjálfsögðu vitað, hv. flm. frv. En það lendir í þá átt, að málið eigi ekki að leysa í samstarfi við framsóknarmenn. Og af því að spurt var, skal ég upplýsa það, að engin samvinna hefir verið um þetta mál í þingflokkunum. Af því að ég átti nokkurn þátt í að þoka þessu máli áleiðis til lausnar á siðasta þingi, þá lýsi ég því yfir, að ég tel þetta illa ráðið, að ekki hefir verið haldið áfram samkomulagi um lausn málsins.

Í grg. er sem sagt fullyrt, að nefndin hafi lítið starfað og muni aðallega hugsa til skólahalds í handiðnum og búfræði og þess háttar. Ég veit, að þessir tveir nm. hafa oft talað um þessi atriði. En ég get fullyrt, að þeir hafa talað um margt fleira, — og yfirleitt flest þau atriði atvinnulegs eðlis, sem um er að ræða í okkar þjóðfélagi.

Eftir að ég hefi nú átalið það, að frv. er komið fram án þess að flm. hafi falað við þingskipaða nefnd, sem starfað hefir í heilt ár, þá skal ég geta þess, að ég mun vinna að því, að lausn þessa máls nái fram að ganga á einhverjum grundvelli. En ég held það hljóti að vera öllum ljóst, að um svo stórt og vandasamt mál er það algert höfuðatriði, að það verði leyst með vilja og samkomulagi allra flokka.

Nokkurs barnaskapar gætir í frv., og er ekki óeðlilegt í þessu sambandi, þar eð hv. flm. hafa ekki nákvæmar hugmyndir um það, hvernig hjá bændum hagar til. Það er gert ráð fyrir því í 4. gr., að þegar sérstaklega stendur á vegna óþurrka, sé heimilt, með samþykki ráðh., að láta hjálp í té fátækum bændum til að bjarga heyi undan. Þetta er nú einskonar fjöður í hattinn, til þess að gera málið vinsælla hjá okkur, sem erum bændafulltrúar. En ég get upplýst hv. flm. um það, að það er ekki til neins í óþurrkum að kalla menn úr annari atvinnu til að bjarga heyi. það dugir ekki annað en snarræði þeirra, sem á hverjum tíma eru á staðnum. Svo að þessi fjöður er lítilsvirði frá sjónarmiði þeirra, sem þekkja nokkuð til. Ef um langvarandi þurrka er að ræða, svo að tími er til að flytja fólkið til, þá er heldur ekki þörf fyrir það.

Verði þessu máli vísað til menntmn. (ég tók ekki eftir, hvort flm. gerði till. um það), þá gefst mér tækifæri til að fjalla um það seinna. En ég vil nú að lokum endurtaka það enn einu sinni og beina til hv. flm. frv., hvort ekki sé ráðlegt frá sjónarmiði þeirra, sem heilir eru í því, að hætta togstreitunni og hafa samkomulag um það á þeim grundvelli, að nefndin, sem skipuð hefir verið, a. m. k. sá hluti hennar, sem starfað hefir, sé kallaður til ráða og viðtals.