27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (1897)

48. mál, raftækjasala rafmagnsveitu Reykjavíkur

*Flm. (Pétur Halldórsson):

Herra forseti! Hv. þdm. er það kunnugt, að nú eru að verða tímamót í raforkumálum Reykjavíkurbæjar, við það, að Sogsvirkjunin er fullbúin. Ég þarf ekki að lýsa því, hve gagnlegt það er, ekki aðeins fyrir bæjarbúa, heldur einnig þjóðhagslega, að sú orka, sem þarna er framleidd, nýtist sem bezt. Og þá er ekki hvað sízt um að ræða orkuna á heimilunum, og í Reykjavík einkum orku til suðu á heimilunum. Bæjarstj. Rvíkur hefir ákveðið að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess, að rafmagnsnotkun á heimilum í Rvík geti aukizt hratt, og til þess að gera bæjarstj. þetta mögulegt, er frv. borið fram. Hér er farið fram á það, að ríkisvaldið gefi bæjarstj. heimild til þess að sjá um útvegun og sölu á helztu rafmagnstækjunum. er til greina koma, um nokkurt tímabil, — í frv. eru til teknir 14 mánuðir. Bæjarstjórnin mundi áreiðanlega nota slíka heimild þannig, að hún yrði öllum að gagni. Eins og nú er, er sala á þessum tækjum tekjustofn fyrir ríkissjóð. Hér er í rauninni ekki farið fram á annað en það, að ríkissjóður falli frá því að hafa tekjur af sölu þessara tækja um stund, meðan verið er að koma á aukinni notkun þeirra. En aukin notkun tækjanna þýðir einnig auknar tekjur af sölu þeirra í framtíðinni.

Ég vil þess vegna beiðast þess, að hv. þm. taki þessu frv. vinsamlega og afgreiði það fljótlega úr hv. d., því satt að segja er þetta orðið í seinna lagi, að hafizt sé handa um þetta. Það tókst ekki að fá frv. samþ. á fyrra þingi þessa árs, en ef það er afgr. fljótlega nú, þá sýnist mér, að það megi hafa mikið gagn af því enn, ekki aðeins fyrir Reykjavík, heldur allan almenning í landinu.

Mig minnir, að frv. væri hjá fjhn. á fyrra þinginu, og vil þess vegna leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn. til fljótrar og góðrar fyrirgreiðslu.