27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (1898)

48. mál, raftækjasala rafmagnsveitu Reykjavíkur

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fer fram á tvennt: Annarsvegar fer það fram á það, að raftækjaeinkasala ríkisins hafi ekki innflutning á rafmagnseldavélum, eins og verið hefir, heldur hafi rafmagnsveita Rvíkur hann, og hinsvegar að tollar og önnur innflutningsgjöld, sem renna í ríkissjóð af rafmagnstækjum, falli niður. Ástæðan er talin sú, eins og hv. 1. flm. gerði grein fyrir, að flm. telja, að með þessu móti fáist ódýrari tæki fyrir þá, sem þau þurfa að nota. Ég verð að segja, að mér finnst engin frambærileg ástæða vera fyrir því, að þetta frv. er fram komið. Ég byggi það á því, að núv. verðlag á rafmagnseldavélum er þannig, að miðað við annað verðlag í landinu, er ekki hægt að koma með neinar rökstuddar kvartanir út af því. Sú tegund rafmagnseldavéla, sem algengust er, er samkv. því, sem ég hefi fengið upp gefið frá raftækjaeinkasölunni, seld á 245 kr. Það má segja, að þetta gefi mönnum ekki fullkomna hugmynd um, hvað eðlilegt væri að selja hana fyrir. En ég vil geta þess, að samkv. upplýsingum raftækjaeinkasölunnar er samskonar vél seld í útsölu á 320 kr. í Noregi. Fyrir atbeina raftækjaeinkasölunnar er verðið því eins lágt og bent hefir verið á. Það má kannske segja, að það sé hæpin fullyrðing, að ef raftækjaeinkasalan hefði ekki verið, þá hefði verðið verið hærra, en ég ætla að leyfa mér að fullyrða, að ef hún hefði ekki verið, þá hefði verðlagið á þessari vöru verið miklu hærra. Það má segja, að það séu getsakir að segja, að þá væri ekki jafnmikill áhugi fyrir því að fá verðið lækkað, en það ætla ég þó að gera. Ég byggi það á því, að mér vitanlega hefir ekkert komið fram frá þeim, sem standa að þessu frv., um það, að rafmagnsveita Rvíkur ætti að hafa með höndum verzlun á öllum tækjum, sem menn þurfa að kaupa til þess að geta notfært sér rafmagnið, því það þarf meira en að kaupa rafmagnseldavélar. Það þarf líka að kaupa ný áhöld á þessar vélar, eftir því sem mér er tjáð, og það eru allháar upphæðir, sem þarf að leggja út fyrir slíka hluti. Af þessu leyfi ég mér að draga þá ályktun, að þetta frv. sé sérstaklega komið fram vegna þess, að það er raftækjaeinkasala ríkisins, sem á hér hlut að máli. Ég vil beina því til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, að hún athugi þá hlið á því, sem snýr að þeim hlutum, sem verzlað er með í svokallaðri frjálsri samkeppni. Mig grunar, að það sé meiri ástæða til að snúa þangað geiri sínum heldur en til raftækjaeinkasölunnar.

Um ástæður fyrir því að fella niður innflutningsgjöld, þá vil ég geta þess, að ég hefi ekki skýrslur um, hvað þau eru há, en há eru þau ekki, og ég sé enga ástæðu til þess að ganga inn á þessa braut með þessi tæki. Til þess að halda uppi ríkisbúskapnum þarf að taka innflutningsgjöld af ýmsum vörum, sem æskilegt væri, að engin gjöld væru tekin af, og ég sé ekki, að rafmagnstæki hafi þar neina sérstöðu, sem geri það eðlilegt, að innflutningstollur sé afnuminn af þeim. (SK: Hvað er álagning verzlunarinnar mikil?). Ég hefi það nú ekki í höfðinu. En ég vil benda fyrirspyrjanda á þá staðreynd, að vélar, sem eru seldar á 245 kr. hér, eru seldar í Noregi á 320 kr. (SK: Það sannar ekkert). Það sannar einmitt mikið, því í Noregi er það verzlunarfyrirkomulag, sem Sjálfstfl. telur æskilegast, en það er hin frjálsa samkeppni. Það er víst, að kostnaðurinn við að flytja tækin frá Þýzkalandi til Noregs er ekki meiri en að flytja þau til Íslands, svo verðmunurinn getur ekki byggzt á því, heldur hinn, að raftækjaeinkasalan hefir forðað mönnum frá álagningu, sem þeir hefðu annars orðið fyrir.

Þá vil ég geta þess, að raftækjaeinkasalan mun væntanlega innan skamms geta gefið mönnum kost á verulegum gjaldfresti á þessum tækjum, og ætlar hún að reyna að ná samvinnu við rafmagnsveitu Rvíkur um, að hún innheimti fyrir hana. Raftækjaeinkasalan vill gera allt, sem hún getur, til þess að gera mönnum fært að eignast þessi tæki.

Ég mun ekki mæla á móti því, að málið fari til n., og er þá rétt, að það fari í fjhn.