30.10.1937
Neðri deild: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (1912)

60. mál, bifreiðalög

*Flm. (Bergur Jónsson) :

Þetta frv. er flutt að beiðni hæstv. dómsmrh. Hefir hann látið semja það og undirbúa.

Frv. er ætlað að koma í staðinn fyrir núgildandi l. um bifreiðar, og hefir verið við samningu frv. höfð hliðsjón af dönskum og norskum bifreiðal., og hefir ákvæðunum verið breytt eftir því, sem þótt hefir við eiga eftir íslenzkum staðháttum.

Þetta er allmiklu ýtarlegri bálkur en núgildandi l. um notkun bifreiða, og er stefnt í þá átt að fá meira öryggi í notkun og meðferð bifreiða en áður hefir verið.

1. kaflinn er aðallega almenn ákvæði um útbúnað bifreiða. Þar er t. d. það nýmæli, að settar eru reglur um útbúnað á stýri og hemlum, hvernig ljóskerin skuli vera og spegill til þess að bifreiðarstjóri geti séð aftur fyrir sig, ennfremur ákvæði um, að í hverri bifreið skuli vera spjald, er sýni framleiðsluverksmiðju og framleiðslunúmer bifreiðarinnar.

Í 2. kafla eru ýtarlegri ákvæði um tilkynningu, skoðun og skrásetningu bifreiða en áður hafa gilt, þó að það hafi verið að miklu leyti framkvæmt eftir eldri l. Í þessu samhandi vil ég geta þess, að það verður yfirleitt að tilkynna í báðum stöðum, bæði þar, sem bifreiðin er flutt inn, og þaðan sem hún er flutt, afskráð á öðrum staðnum en lögskráð á hinum, og sett takmark um það, hvenær þarf að skrásetja og hvenær ekki.

Þá getur dómsmrh. sett reglur um geymslu og meðferð á benzíni og öðrum eldfimum efnum.

3. kaflinn er um bifreiðarstjóra. Þar er nýmæli að til bifreiðaprófs skuli menn hafa nægilega þekkingu á meðferð benzíns og annara eldfimra efna sem notuð eru í sambandi við bifreiðar. Hefir reynslan sýnt, að þetta er nauðsynlegt. Ennfremur eru ákvæði um kennslu í bifreiðaakstri, sem hafa ekki fyrr verið í lögum.

Í ákvæðunum um bann gegn áfengisnotkun við bifreiðaakstur er það nýmæli, að refsivert sé að reyna að aka bíl, þegar menn eru undir áhrifum áfengis. Ennfremur, að skylt sé að taka blóðsýnishorn til að ganga úr skugga um, hvort maðurinn hefir brotið eða ekki. Þá er veitingamanni og þjónum á opinberum veitingastað gert að skyldu að hindra, að menn, sem svona er ástatt fyrir, aki eða reyni að aka bifreið.

Þá eru þarna einnig ákvæði um annað ástand manna, ef það telst hættulegt í sambandi við bifreiðaakstur, svo sem ef bifreiðarstjóri neytir einhverra æsandi eða deyfandi lyfja, er syfjaður, þreyttur um of eða sljór, og er bann lagt við, að maður í slíku ásigkomulagi stjórni bifreið.

Um akstur á vegum, götum og öðrum svæðum eru einnig nýmæli og ýtarlegar reglur. Ennfremur er það nýmæli, að reglur eru settar um, að enginn óþarfa hávaði eða óþefur stafi af bifreið í sambandi við akstur hennar.

Loks eru gerðar mikilvægar breyt. viðvíkjandi skaðabótaskyldunni, ef tjón verður á mönnum eða munum. Almenna reglan er sú, að menn eru ekki skaðabótaskyldir nema þeir hafi unnið tjón annaðhvort af ásettu ráði eða að einhverju leyti af gáleysi. En í 34. gr. þessa frv. er gengið það lengra í þessu efni, að sá, sem ber ábyrgð á bifreið, verði að bæta tjónið að fullu, þó að það verði eingöngu fyrir tilviljun. Er þetta í fullu samræmi við þá réttarskoðun, að sá, sem stundar hættulegri atvinnurekstur, beri þyngri skaðabótaskyldu. Annars eru sérstakar reglur um allar yfirsjónir, sem bifreiðarstjórar kunna að gera við akstur. Þá er hækkuð tryggingarupphæð vegna slysa, sem skylt er að tryggja bifreiðir fyrir, og skal allt tjón af slíkum bílslysum bætt. Lágmark trygginganna skal vera fyrir tvíhjóla bifreiðir 15 þús. kr., og fyrir fjórhjóla bifreiðir 30 þús. kr., og fyrir bifreiðir, sem ætlaðar eru til fólksflutninga, skal tryggingarupphæðin aldrei vera lægri en sem varar 5 þús. kr. á hvern farþega, sem heimilt er að flytja í bifreiðinni. Þá er ennfremur að nokkru leyti gert léttara að koma fram skaðabótakröfum en áður var.

Loks er kafli um refsingu fyrir brot á lögunum, og er hún nokkuð aukin, sérstaklega í sambandi við brot við akstur. Þó hefir dómari óbundnari hendur en áður hvað refsidóma snertir. Aftur er nokkuð slakað á ákvæðunum um sviptingu ökuleyfis að fullu fyrir óleyfilegan akstur o. s. frv. og dómara gefið meira svigrúm heldur en í gildandi lögum til að taka málsbætur til greina, þannig að svipta ekki ökuleyfi að fullu. Einnig getur dómsmrh., þegar 3 ár eru liðin frá sviptingu ökuleyfis, ef sérstakar ástæður mæla með því. t. d. ef hlutaðeigandi hefir ekki neytt áfengis þann tíma, ákveðið, að hlutaðeiganda skuli veitt ökuleyfið, þó sá tími sé ekki útrunninn sem hann hafði verið sviptur ökuleyfinu. Að endingu eru ný ákvæði um erlendar bifreiðir, sem notaðar eru hér á landi. Ennfremur er hægt með dómi að svipta bifreiðarstjóra ökuleyfi, sem sætt hefir refsingu erlendis fyrir þau lögbrot, sem varða sviptingu ökuleyfis, og skal þá litið á þau lögbrot eins og þau hefðu verið framin hér á landi. Ég vil svo leggja til, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og allshn. að lokinni þessari umr.