02.11.1937
Neðri deild: 17. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (1931)

65. mál, fóðurmjölsbirgðir o. fl.

*Flm. (Þorsteinn Briem):

Það er talið, að hingað til hafi jafnan l0. hvert ár verið fjárfellisár hér á landi, og ef litið er yfir sögu landsins, kemur í ljós, að helmingur af þessum árum hafa verið mannfellisár. Flest fjárfellis- og mannfellisár stafa beint eða óbeint af fóðurskorti, sem hefir verið eitthvað mesta böl vort síðan á landnámsöld. Þó er enn í gildi það, sem Hannes Finnsson ritaði fyrir 100 árum, að ég ætla, að slæm nýting heys væri háskalegri en heyleysi. Enda hefir hún verið háskalegri skaðvaldur landsbúum en sjálfur heyskorturinn. Svo var árið 1887, er jafnvel nautpeningur féll og fé féll 309ó frá því, sem verið hafði 1881 Voru þess þá mörg dæmi, að peningur félli, enda þótt menn hefðu heybirgðir, vegna slæmrar nýtingar. Svo var og í fjárfellinum 1914.

Þegar við þetta er að stríða fyrir íslenzkan landbúnað, að hey nýtast ekki, er ekki annað til ráðs en að bæta upp heyin með fóðurbæti. Hrakin hey vantar lífefni þau, sölt og annað, er nauðsynlegt er, og það veldur því, að kolvetnin nýtast ekki, þar sem eggjahvítan nær ekki því lágmarki, að kolvetnin komi að notum. Oft þarf ekki að bæta við nema litlu af efnum þeim, er vantar, til þess að skepnunum verði bjargað. Þar, sem fé er fóðrað á léttum heyjum, svo sem mýrgresi, má spara 5 þyngdir með dagsgjöf af fóðurmjöli, sem fer ekki yfir 25–10 gr. Af hröktu heyi má spara 6–7 þyngdir með sömu gjöf af síldarmjöli. Ef um töðugjöf er að ræða, nemur sparnaðurinn hinsvegar ekki svo miklu.

Á landinu er talið að sé um 700 þús. fjár, og ef hverri kind eru gefin 25–40 gr. af fóðurbæti yfir gjafatímann, eða samtals 25 kg., þyrfti 3500 tonn af síldarmjöli alls, en það myndi svara til 175–200 þús. kg. af hrakningsheyi. Þetta dæmi sýnir, hve gott væri að geta tryggt. að þessi fóðurbætir væri alltaf til, en hann svarar til 2000 heyhesta.

Oft koma fyrir ár, þegar tryggja þyrfti bændum þetta magn, og stundum meira, eins og eftir lökustu sumur. En nú hefir það komið fyrir, að þegar bændur vilja fá síldarmjöl til uppbótar heyjum sínum, hafa síldarverksmiðjurnar verið búnar að selja mestallt síldarmjöl sitt, svo að grípa varð til bráðabirgðal. til að hefta frekari útflutning, en þá var ekki eftir annað en 3. flokks vara.

Þetta frv. er fram borið til að koma í veg fyrir slíkt. Er til þess ætlazt, að treysta megi því, að alltaf séu til í landinn þær birgðir fóðurmjöls, sem nauðsynlegar eru á hverjum tíma. Frv. ætlast til, að ríkisstj. sjái svo um, að verksmiðjurnar hafi jafnan þær birgðir fyrirliggjandi, sem Búnaðarfélag Íslands telur þörf á. Og til þess er ætlazt, að það verði jafnan 1. flokks vara. En 1. flokks vara til þessarar notkunar svarar ekki æfinlega til þess, sem er 1. flokks vara til útflutnings. Búnaðarfélaginn er falið að hafa eftirlit með því, að þessu ákvæði sé framfylgt. Þetta er aðalmarkmið frv.

Undanfarið hafa komið fram allmargar kvartanir frá bændum um það, að fóðurmjöl það, sem síldarverksmiðjurnar hafa selt þeim, væri ekki svo gott sem skyldi. Þessar kvartanir hafa verið lagðar fram á búnaðarþingi, og stj. Búnaðarfélagsins hefir verið falið að bæta úr þessu. En það hefir ekki tekizt, og er því full þörf á að selja l. um þetta.

En jafnframt því, sem frv. vill tryggja bændum nægar fóðurmjölsbirgðir, eru í frv. ýms ákvæði, sem lúta að því, að hægt sé að selja þetta fóðurmjöl bændum og sveitarfélögum með sem lægstu verði. Þar að lýtur t. d. ákvæðið um, að ríkið taki að sér að greiða verksmiðjunum vinnulaun, sem greidd yrðu í sambandi við geymslu mjölsins. Í öðru lagi er ákveðið, að verksmiðjurnar skuli selja mjölið við kostnaðarverði. Þá er í frv. ákvæði um, að umboðsmaður Búnaðarfélagsins skuli eiga aðgang að gögnum verksmiðjanna, til þess að geta komizt að raunverulegu kostnaðarverði. Hinsvegar er ákveðið, að tryggja skuli verksmiðjurnar gegn skaða, er þær kunna að verða fyrir, ef verðbreytingar verða á mjölinu. Og til að tryggja verksmiðjurnar gegn slíkri áhættu, er svo fyrir mælt, að mjölið skuli greitt þeim við móttöku. Auk þess er ríkisstj. heimilað að greiða úr ríkissjóði kostnað við að flytja mjölið á hafnir, sem Eimskipafélagsskipin og önnur skip, sem styrkt eru af ríkinu, koma á. Má gera ráð fyrir, að mest af þeim flutningum muni fara fram með þeim skipum, og er þetta því ekki mikill ábaggi á ríkissjóð. Og þar sem Eimskipafélagið og flóabáturinn eiga hlut að máli, mætti vafalaust komast að góðum kjörum um þetta, þar sem ríkið styrkir þessi skip.

Það er varla vafi á því, að einmitt á þennan hátt verður með kostnaðarminnstu móti hægt að styðja landbúnaðinn í því að afla sér fóðurbætis til þess að tryggja bústofn sinn. Þá eru í frv. tekin upp hliðstæð ákvæði við þau, sem nú eru í l. frá 1917, um það, að ríkissjóður taki að hálfu leyti þátt í vasta- og geymslukostnaði þess forða, sem fóðurkaupafélög, hreppa-, sýslu- eða bæjarfélög vilja tryggja sér með samningum við verzlanir um það, að þær hafi nægar birgðir af þessum vörum fyrirliggjandi frá 1. des. til maímánaðarloka. Þó að þessi ákvæði séu mjög svipuð þeim, sem eru í núgildandi lögum, þótti samt rétt að taka þau hér upp og koma þeim fyrir í einfaldara formi en gert er í l. um kornforðabúr frá 1917, því reynslan hefir sýnt, að þau margbrotnu ákvæði þeirra um samþykki og ýms ytri form hafa heft það, að þessi lög kæmu að notum. Þess vegna þótti flm. fara betur á því að taka upp í einfaldara formi þau ákvæði þeirra laga, sem helzt koma að notum, og feila lögin sjálf úr gildi að öllu leyti.

Viðvíkjandi þeim kostnaði, sem af þessu mundi leiða, þá er fyrst að líta á það vaxtatap og geymslukostnað, sem yrði að bæta síldarverksmiðjunum upp ef þær yrðu að geyma eitthvað af síldarbirgðum sínum fram yfir áramót vegna ákvæða laganna.

Það má vitanlega gera ráð fyrir því, að þegar sérstök hallærissumur koma, verði þessi kostnaður mikill, en í meðalári þarf ekki að búast við honum svo ýkjamiklum. Það má telja, að þessi geymslukostnaður myndi nema um 10 þús. kr. á hver þús. tonn. Ég geri ekki ráð fyrir, að eftir meðalsumur yrðu það mörg þús. tonn, sem síldarverksmiðjunum væri ætlað að geyma fram yfir áramót, og yrði þá kostnaðurinn ekki tilfinnanlegur. Aftur á móti yrði þessi kostnaður meiri í sérstökum hallærum, en ég hygg, að enginn sé svo skapi farinn, að hann myndi þá sjá eftir þessum kostnaði.

En á það er að líta, að nú fyrir tveimur þingum voru sett lög um fóðurtryggingasjóð, sem gerði ráð fyrir útgjöldum úr ríkissjóði, sem næmu 75 þús. kr. árlega. Nú mun reynslan hafa sýnt, að þess mun ekki að vænta, að þau lög verði svo mikið notuð sem búizt var við, þegar þau voru sett. Nú er ekki kunnugt um það í atvmrn., að neinn aðili hafi gert undirbúning að því að nota sér þau lög. Má því vænta þess, að meðan svo er sparist þessar þús. algerlega. Og þó að ríflega yrði áætlað, geri ég ekki ráð fyrir því, að þessi lög myndu verða kostnaðarsamari en svo, að þau myndu í mesta lagi taka sem svarar 2/3 af þeim útgjöldum, sem nefnd lög gera ráð fyrir. A. m. k. myndi það ekki verða nema þegar um sérstök harðærissumur væri að ræða.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að menn vilji endilega haga fóðurtryggingalögunum á þá leið, að ná sparnaðinum með því að haga lögunum þannig, að enginn hafi gagn af þeim, heldur að ná sem mestum sparnaði jafnhliða því, að þau geti komið landbúnaðinum að sem mestum notum. Þá leið höfum við viljað fara með þessu frv., hvernig svo sem það hefir tekizt.

Viðvíkjandi þeim kostnaði, sem af þessu kann að verða, vil ég að lokum vitna í orð Torfa heitins frá Ólafsdal, sem hann ritar árið 1914, þar sem hann segir: „Það er að spara eyrinn en fleygja krónunni að skera við neglur sér tillag landssjóðs til hallærisvarnanna. ... Það er langsamlega tilvinnandi að leggja hann fram.“ Ég ætla, að það sé tilvinnandi fyrir þjóðfélagið, að ríkissjóður leggi fram þann kostnað, sem þetta frv. hefir í för með sér.

Að svo mæltu vil ég óska þess, að þetta frv. verði látið ganga til 2. umr. og landbn.