02.11.1937
Neðri deild: 17. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (1932)

65. mál, fóðurmjölsbirgðir o. fl.

*Finnur Jónsson:

Þetta frv. lýtur að því að tryggja það, að síldarmjöl verði ekki flutt úr landi, ef þörf kynni að verða á því til fóðurs handa búpeningi landsmanna. Nú eru þegar fyrir í lögunum ákvæði, sem tryggja, að slíkur útflutningur fari ekki fram, þannig, að ákvæði frv. virðast í því efni vera alveg óþörf. Ég hygg, að hv. flm. þessa frv. hljóti að vera kunnugt um, að það má ekki flytja síldarmjöl úr landinu nema með leyfi stj., og hún hagar þeim leyfisveitingum þannig, að hér liggi nægar birgðir fyrir af síldarmjöli til fóðurs. Þetta frv. gengur að vísu það skemmra, að það virðist eiga að ná aðeins til síldarverksmiðja ríkisins, en núgildandi l. ná líka til verksmiðja einstakra manna, og þar sem síldarverksmiðjurnar eru dreifðar um landið, þá sýnist vera meiri trygging í þeim ákvæðum, sem nú eru í l. um þetta, en í þeim, sem hv. flm. leggja til, að verði lögfest.

Ég sé, að hv. flm. hafa tekið upp í þetta frv. ákvæði um það, að mjölið skuli jafnan selja með kostnaðarverði. Þetta ákvæði er einnig í núgildandi l. um síldarverksmiðjur ríkisins, en það er ákvæði, sem aldrei hefir verið framkvæmt og virðist óframkvæmanlegt. Ég sé ekki ástæðu til að fara nákvæmlega út í það mál, en vil benda á, að árið 1935, ef þessu ákvæði hefði verið framfylgt, hefði kostnaðarverð síldarmjölsins verið svo hátt, að enginn hefði getað keypt það til fóðurbætis. Þetta virðist að nokkru leyti hafa vakað fyrir hv. flm., því í 4. gr. frv. segir: ... „þó eigi yfir samsvarandi verði á erlendum markaði“.

Ég vil skjóta því til n., sem fær með þetta mál að gera, ef hún leggur til, að það nái samþykki, að hún taki út úr þetta með kostnaðarverðið í frv., því það er ákvæði, sem hefir sýnt sig, að ekki er hægt að framkvæma. Þetta gæti e. t. v. orðið bændum til einhvers gagns viss ár, en annan tíma gæti það líka orðið til þess, að þeim væri ómögulegt að kaupa neitt síldarmjöli. Ef ríkisverksmiðjurnar fá minna verð fyrir lýsi en gert hefir verið ráð fyrir, þá verður verðið á mjölinu svo hátt, að það verður ókaupandi.

Ég get vel fellt mig við það, að í l. sé tiltekið, að verðið eigi að miðast við samsvarandi verð á erlendum markaði, en ég vil eindregið beina því til hv. flm. og n., að taka burt úr l. þetta ákvæði um kostnaðarverð, af þeim ástæðum, sem ég hefi þegar tilgreint.

Ég hefi þegar hent á, að núgildandi l. eru í rauninni viðtækari en þetta frv., og ég vildi sömuleiðis óska, að hv. landbn. tæki þetta til athugunar, þar sem nú má ekki flytja út síldarmjöl frá verksmiðjum einstakra manna, nema leyfi ríkisstj. komi til.

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að ríkisverksmiðjurnar einar verði skyldaðar til að geyma fóðurmjöl. En það virðist ástæðulaust að láta þessa skyldu ekki ná til annara verksmiðja einnig, ef svo vildi við horfa. En jafnframt verður að krefjast þess, að bæði þeim og öðrum verksmiðjum, sem lagðar eru þessar skyldur á herðar, verði tryggt fullt verð fyrir sínar afurðir. Þetta er ekki fullkomlega tryggt í þessu frv., þó gert sé ráð fyrir, að verksmiðjunum verði greiddur geymslukostnaður og vaxtatap, því slík geymsluskylda getur líka haft í för með sér verðfall á síldarmjölinu, og það er alveg ástæðulaust að leggja sjávarútvegnum slíkt tap á herðar.

Annars vil ég leiða athygli að því, sem ýmsir hafa haldið fram bæði fyrr og síðar, að það getur verið varasöm ráðstöfun að banna útflutning á síldarmjöli, en leyfa ekki innflutning á erlendum fóðurbæti, því síldarmjölið er ekki gott eingöngu t. d. fyrir kýr. Og það hafa margir hændur haldið því fram, sem kunnugir eru þessum málum, að það borgi sig eins vel að flytja inn nokkuð af erlendum fóðurbæti og aftur á móti meira út af síldarmjöli. Annars skal ég ekki um þetta dæma, en ég vil leggja áherzlu á það, að Alþingi lögfesti ekki nein ákvæði, sem þegar hafa sýnt sig vera óframkvæmanleg, og leggi hvorki síldarverksmiðjum ríkisins né einstakra manna þær skyldur á herðar, sem gætu haft fjárútlát í för með sér, með því að gera þeim að skyldu að vera fóðurforðabúr fyrir landbúnaðinn, án þess að full greiðsla komi fyrir.