02.11.1937
Neðri deild: 17. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (1933)

65. mál, fóðurmjölsbirgðir o. fl.

*Flm. (Þorsteinn Briem) :

Hv. þm. Ísaf. gerði nokkrar aths. við þetta frv. og minntist í því sambandi á l. frá 1935, sem ná til allra síldarverksmiðja, og taldi hann þau næg í þessu efni. Ég geri ráð fyrir, að þau l. yrðu enn í gildi og til þeirra yrði gripið, þegar síldarverksmiðjur ríkisins gætu ekki látið nægilegt fóðurmjöl af hendi í þessu skyni, en menn sneru sér fyrst til ríkisverksmiðjanna. Vegna ýmsra ákvæða, sem eru í þessu frv., þá er miklu auðveldara að eiga þar við stofnun ríkisins sjálfs en einkafyrirtæki. T. d. eru hér ýms ákvæði um eftirlit, sem mundi verða miklu auðveldara að koma fyrir gagnvart ríkisfyrirtæki en fyrirtækjum einstakra manna.

Hv. þm. Ísaf. talaði um það, að hér væri verið að þrengja kost ríkisverksmiðjanna og nefndi sérstaklega, að ríkisverksmiðjurnar gætu orðið fyrir miklum skaða af verðfalli. Ég skal minna hann á 3. málsgr. í l. gr. frv., þar sem einmitt er sett undir þann leka, að síldarverksmiðjurnar verði fyrir nokkrum skaða af verðfalli. Það á að bæta þeim það, svo að þær verði skaðlausar af. Þess á einmitt að gæta við verðlagningu næsta ár, að síldarverksmiðjurnar fái upp þann halla, sem þær kunna að hafa orðið fyrir vegna verðbreytinga á birgðum fyrra árs, svo að sá agnúi er tilefnislaus. En m. a. í sambandi við þessa uppbót, sem verksmiðjunum er ætluð, er auðveldara að binda þessi ákvæði að mestu við síldarverksmiðjur ríkisins, vegna þess, að það er hægra að eiga reikninga við ríkisfyrirtæki en einkafyrirtæki, og gæti orðið af þessu málshöfðun og annað slíkt, ef einkafyrirtæki ættu í hlut. Það er ein af ástæðunum til þess, að þetta frv. er að mestu bundið við síldarverksmiðjur ríkisins.

Annars hafði, að því er mér skildist, hv. þm. Ísaf. það sérstaklega við þetta frv. að athuga, að hér væri haldið þeim ákvæðum, sem nú eru í l. um það, að verksmiðjurnar skuli selja mjölið með kostnaðarverði. Það er nú svo ákveðið í núgildandi lögum, en hér er þeim ákvæðum breytt þann veg, að verðið skuli þó ekki vera hærra en samsvarandi verð á erlendum markaði.

Það má vel vera, að það kosti nokkur óþægindi fyrir verksmiðjustj. að reikna út það raunverulega kostnaðarverð. En ég hygg þó, að jafnan verði þess kostur að komast nokkuð nærri því, þó ekki náist það nákvæmt. Og til tryggingar því, að bændur verði ekki beittir órétti í þessu etni, þá er einmitt ákvæði um heimild handa Búnaðarfélagi Íslands til að hafa eftirlit með því. Hv. þm. er kunnugt, að það verðlag í sumum verksmiðjunum, sem stundum hefir verið sett á mjöl, hefir valdið óánægju og tortryggni meðal almennings, enda munu þess dæmi, að verksmiðjurnar hafi leiðrétt það verð, sem búið var að setja fyrir mjög skömmu, nokkrum vikum, og þetta sýnir, að það er full þörf, að þarna sé öðrum aðiljanum, eða fulltrúa landbúnaðarins, veittur réttur til þess að hafa þar nokkurt eftirlit.

Það, sem hv. þm. talaði um nauðsynina á erlendum fóðurbæti, þá er það aldrei nema rétt hjá honum, að gagnvart sumum búpeningi verður varla komizt hjá því að hafa erlendan fóðurbæti, ef gefa á fóðurbæti svo miklu muni. En að sá fóðurbætir sé ekki útilokaður með ákvæðum frv., getur hv. þm. komizt að raun um, ef hann les 8. gr. frv., þar sem eru ákvæði, er snerta erlendan fóðurbæti og þátttöku hins opinbera í því að gera mönnum sem viðráðanlegast að afla hans og eiga nægar birgðir af honum.

Annars get ég getið þess, fyrst ég stóð upp, að það hefir fallið úr í prentun í fyrstu málsgr. 8. gr. frv. orðið bæjarfélag. Það er vitanlega meiningin, að bæjarfélögin hafi sama rétt og njóti þeirra sömu hlunninda og hreppa- og sýslufélög, sem gr. gerir ráð fyrir.